c

Pistlar:

13. desember 2021 kl. 12:14

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Víst þarf meiri orku

Allar þjóðir heims vantar meiri orku. Sumar hafa getu til að svara þessari eftirspurn, aðrar ekki. Í þeim orkuskorti sem hefur hrjáð Evrópu undanfarið hafa menn gripið til þess að opna gömul kolaorkuver. Aðrir treysta á kjarnorkuna. Það segir sig sjálft að þjóðir sem geta svarað orkuþörf sinni eru mun betur staddar en hinar, að ekki sé talað um þær sem nýta græna orku. Ísland er með um 85% af sinni orkunotkun frá grænni orku sem er auðvitað einstök og öfundsverð staða. Einnig sú staðreynd að hér er enn hægt að svara eftirspurn eftir orku þó að þeir þeim möguleikum fækki eðlilega. Eins og vikið var að í síðasta pistli hefur verið nokkur umræða um framleiðslu orku hér á landi þegar kom í ljós að hluti sjávarútvegsins hefur verið knúin yfir í jarðefnaeldsneyti þó hann hafi fjárfest í búnaði til að geta keyrt bræðslur sínar á rafmagni. Þetta er tímabundið ástand en sýnir þó að það þarf að huga að frekari lausnum á íslenskum orkumarkaði.

Nú bregður svo við að það virðast vera ólík sjónarmið um hvort hægt sé að tala um að ástandið lýsi orkuskorti. Þannig hefur forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur viljað gera lítið úr vandanum, öfugt við fulltrúa Landsvirkjunar. Svo vill reyndar til að eitt af hlutverkum Orkustofnunar er að sjá til þess að hér sé gerð spá um orkunotkun. Svokölluð orkuspánefnd situr að störfum allt árið og skýrsla hennar hlýtur eðli málsins samkvæmt að vera lykilgagn þegar meta á orkuþörf landsmanna. Í nýjustu spánni (Raforkuspá 2021 – 2060. Endurreikningur á spá frá 2020 út frá nýjum gögnum og breyttum forsendum) er fjallað um raforkunotkun fram til ársins 2060. Hún er unnin á vegum Orkuspárnefndar og er endurreikningur á spá frá 2020 út frá nýjum gögnum og breyttum forsendum.orka

Ólíkar sviðsmyndir

Að mörgu þarf að hyggja í slíkri spá. Hún byggir meðal annars á forsendum um mannfjölda, fjölda heimila, landsframleiðslu og framleiðslu einstakra atvinnugreina. Notkuninni er skipt niður í sex meginnotkunarflokka auk dreifi- og flutningstapa. Henni er einnig skipt eftir því frá hvaða kerfishluta orkan er afhent, þ.e. beint frá virkjun, frá flutningskerfinu eða frá dreifikerfum, og auk þess eftir tegund afhendingar þar sem um er að ræða forgangsorku eða orku með skerðanlegum flutningi. Notkun frá flutningskerfinu (stórnotendur sbr. skilgreiningu raforkulaga) er einungis tekin með í spána sem sú orka sem fram kemur í þegar gerðum samningum og eru án allra fyrirvara um afhendingu.

Orkuspánefnd birtir ýmsar sviðsmyndir, meðal annars með og án frekari stóriðju. Flestir eru sammála að þeim tíma sé lokið þegar ein stór virkjun er byggð fyrir eitt stórt iðjuver eins og átti sér stað þegar Kárahnjúkavirkjun var byggð fyrir álver Reyðaráls. Hafa má í huga að álverið í Straumsvík var forsenda fyrir því að ráðist var í Búrfellsvirkjun á sínum tíma. Í kjölfarið hefur orðið þekkingarbreyting hjá þjóðinni.orka2

Orkuspánefnd segir að það vanti orku

En aðalatriðið er að samkvæmt þessari spá mun almenn notkun sem afhent er frá dreifikerfinu aukast um 30% fram til ársins 2030 og um 110% alls til ársins 2060 og eru dreifitöp þar meðtalin. Árleg aukning þessarar notkunar er 1,9% að meðaltali næstu 40 árin. Áætluð heildarorkunotkun (forgangs- og skerðanleg notkun) sem afhent er frá dreifikerfinu hefur við þennan endurreikning aukist frá því sem fram kemur í spánni frá 2020 um 570 GWh fram til ársins 2060. Notkunin eykst mest í þjónustu allt spátímabilið, síðan hjá heimilum á árunum 2026 til 2060 segir í spá Orkuspárnefndar.

Gert er ráð fyrir að umtalsverð orkuskipti eigi sér stað á spátímabilinu, fyrst og fremst í samgöngum. Líklega eru þessi orkuskipti að gerast hraðar eins og vikið var að hér fyrir skömmu. Líkt og áður er ekki gert ráð fyrir raforkuþörf vegna framleiðslu á rafeldsneyti, sem mun koma í stað notkunar á jarðefnaeldsneyti. Það skýrist helst af óvissu um hvaða tegund rafeldsneytis verður ríkjandi, hvort það verði innflutt eða framleitt innanlands og hver raforkuþörfin til framleiðslu rafeldsneytisins verður.

Af þessu má sjá að það vantar orku á Íslandi og mun halda áfram að vanta orku. Við þurfum að sýna skynsemi og útsjónarsemi við að útfæra orkubúskap okkar næstu áratuginn og þá þýðir ekki að láta eins og vandinn sé ekki til staðar.