c

Pistlar:

8. febrúar 2022 kl. 11:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Algalíf og orkuskorturinn

Íslendingar hafa alist upp við þá hugsun að næga orku sé að finna í landinu, lengst af snérist nýting hennar um getuna til að virkja og finna kaupendur. Á hvorugum þættinum höfðum við mikla þekkingu eða reynslu en síðustu hálfa öld eða svo hefur nýting innlendrar orku orðið lykilþáttur í efnahagslegum framförum þjóðarinnar og gerir landsmönnum kleyft að búa við meiri þægindi (og hlýju) en lega landsins gæti gefið fyrirheit um. En nú eru hlutirnir að breytast.

Það þarf ekki lengur að draga óviljuga orkukaupendur til landsins. Langstærsti orkusali landsins, Landsvirkjun, hefur undanfarin misseri fundið fyrir stórauknum áhuga á raforkukaupum, meðal annars frá fjárfestum sem hyggja á græna eldsneytisframleiðslu. Þó engar ákvarðanir liggi fyrir um smíði nýrra virkjana til að mæta eftirspurninni er ljóst að orkuskortur er farin að hrjá landsmenn og hefur meðal annars í för með sér að ekki er hægt að taka við nýjum atvinnutækifærum sem flest ef ekki öll krefjast orku.

Forstjóri Landsvirkjunar skýrði frá því fyrir stuttu að nú stefndi í að raforkukerfið yrði fullnýtt, meðal annars vegna aukinnar orkunotkunar álvera, kísilvera og gagnavera. Fyrirhuguð orkuskipti kalla á verulega aukið rafmagn, meðal annars vegna þess að þá er jarðefnaeldsneyti tekið úr umferð sem er réttlæting orkuskiptanna.alga2

Hverja vantar orku?

Spár og forsendur Orkuspárnefndar byggjast á spám um mannfjöldaþróun og hagvöxt. Hvoru tveggja kallar á aukna orku en það eru fleiri sem þurfa á orku að halda. Hverjir skyldu það vera? Við skulum líta á eitt nýlegt dæmi um heldur óvæntan orkukaupanda.

Fyrir stuttu var í Morgunblaðinu viðtal við Orra Björnsson, forstjóra nýsköpunarfyrirtækisins Algalíf, sem framleiðir fágætisvöruna astaxanthín úr þörungum. Starfsemi fyrirtækisins er á Reykjanesi og þar starfa nú tugir manna. Þessi starfsemi hefur gengið vel og áform eru um stækkun verksmiðjunnar og fleiri störf. En til þess þarf orku. Algalíf notar nú að meðaltali 2,5 MW og eykst notkunin í 8,5-9 MW eftir stækkun úr 1.500 í 5.000 kíló sem áformað er að ljúka árið 2023. Gera má ráð fyrir að fyrirtækið sé búið að tryggja sér þessa orku en innan skamms verður Reykjanesvirkjun stækkuð um 30 MW með til þess að gera kostnaðarlítilli uppfærslu. Algalíf hefur áformað að tvöfalda framleiðsluna í 10.000 kíló og eykst orkuþörfin þá í 15-18 MW. Eðlilegt er að spyrja hvort sú orka verði til staðar? hafa má í huga að Algalíf hlaut Alþjóðlegu líftækniverðlaunin 2021 (e. Biotechnology Awarsds) sem besti framleiðandi á afurðum úr náttúrulegu astaxanthíni. Hér er því um að ræða áhugaverða viðbót við íslenskan fyrirtækjarekstur.

Forstjóri Algalíf sagði í samtali við Morgunblaðið að hækkandi raforkuverð í Evrópu hafa styrkt samkeppnisstöðu Algalífs. „Ég veit fyrir víst að fyrirtæki sem eru að framleiða astaxanthín í Evrópu borga fjórum og jafnvel fimm sinnum meira fyrir orkuna í dag, sem er skelfilegt fyrir þau. Þótt orkan sé kannski ekki nema 15% af söluverðinu hjá okkur gengur dæmið ekki upp ef orkuverð er orðið fjórum sinnum hærra,“ segir Orri sem telur ólíklegt að orkuverðið lækki í fyrra horf í Evrópu.alga

Tilbúnar virkjanir

Landsvirkjun á nú nokkrar virkjanir, nánast tilbúnar. Fyrst má nefna Hvamms­virkj­un í neðri hluta Þjórsár. Hún er langt kom­in í und­ir­bún­ingi og sótt var um virkj­ana­leyfi hjá Orku­stofn­un um mitt síðasta ár. Svar hef­ur ekki borist. Ef stjórn Lands­virkj­un­ar ákveður í ár að ráðast í þessa fram­kvæmd munu í það minnsta líða um fimm ár þangað til hægt verður að taka hana í notk­un, eða 2027. Landsvirkjunarmenn segja nægan markað fyr­ir orku frá Hvamms­virkj­un.

Sömu sögu er að segja um stækk­un Þeistareykja­virkj­un­ar á Norðaust­ur­landi. Þar eru öll leyfi fyr­ir hendi en samt myndi taka 4-5 ár að virkja, eft­ir að ákvörðun er tek­in. Þriðja verk­efnið er þrjár litl­ar afl­stöðvar á veitu­leið Blöndu­virkj­un­ar. Það verk­efni er í bið vegna veik­leika í flutn­ings­kerfi raf­orku. Sömu­leiðis eru vindorku­áform Lands­virkj­un­ar strand í ferli ramm­a­áætl­un­ar. Önnur orku­fyr­ir­tæki eru ekki með mikið á prjón­un­um en með einföldun regluverks væri unnt að stækka virkjanir sem fyrir eru sem eru ávalt ódýrustu kostirnir. Íslendingar eiga mikilvægar ákvarðanir fyrir höndum.