c

Pistlar:

21. september 2022 kl. 19:59

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kaprisveinar og keisarahallir

Varið ykkur, þegar komið er út í Kaprí bíða margir hákarlar eftir ykkur sagði ítalskur fararstjóri okkur um borð í bátnum á leiðinni út í Kaprí. Ekki verður sagt að pistlaskrifari hafi hrokkið við en farastjórinn var þarna að vísa til þess að kaupahéðnar og braskarar biðu í höfninni á Kaprí og þeir myndu reyna að selja okkur siglingu í Bláa hellirinn, eitt helsta kennileiti Kaprí. Þangað væri hins vegar ekki fært nema við sérstakar aðstæður. Þetta var kannski ekki með öllu sanngjörn nálgun því sjálfur var hann nú talsverður kaupahéðinn og með nokkuð undir sér. Meðan hann hélt fjörlegar ræður seldi hann nefnilega þeim sem vildu rútuferðir upp í Kaprí og Anacapri en fleiri bæir eru ekki á eyjunni. Aðeins er einn vegur á eyjunni og liggur hann á milli bæjanna og nú vorum við búin að tryggja okkur rútufar. Ekki er hægt að koma með eigin bíla nema maður eigi lögheimili á eyjunni. Þar er hægt að taka leigubíla, togbraut eða strætisvagna.capri1

Við höfðum haldið af stað til Kaprí með ferju sem fer beint frá bænum Calata Porta di Massa um hálftíma akstur frá Sorrento en síðast þegar pistlahöfundur fór þangað var siglt frá Sorrento. Nú var ákveðið að breyta til en Calata Porta di Massa er nær Kaprí en það tekur innan við klukkutíma að sigla. Fyrirtækið sem ferjaði okkur sótti okkur í rútu til Sorrento og skilaði okkur þar síðdegis eftir ferð út í eyju, upp í bæina og svo hringsiglingu um eyjuna undir söng og ræðusnilli fararstjórans.

Dvalastaður guða og keisara

Kaprí er að margra dómi ómissandi áfangastaður fyrir þá sem dveljast við Napólíflóa en hún stendur úti í minni flóans. Eyjan er þokkalega stór eða um 10 ferkílómetrar að stærð og er nokkurn veginn ferhyrnd að lögun. Það fyrsta sem hrífur gesti eru brattir hamraveggirnir sem rísa þverhníptir úr sjónum, talsverður gróður sem þekur eyjuna og hvít húsin þar inn á milli. Á Kaprí vaxa að sögn 850 blómategundir og kannski ekki nema vona að Grikkirnir sem komu þangað fyrst hafi talið eyjuna dvalarstað guða, svo fögur og einstök er hún.capri2

Sumir af helstu einkennisstöðum eyjunnar eru vel þekktir og þar má nefna Marina Piccola (litla höfnin), Belvedere of Tragara (há og víðáttumikil göngusvæði með einbýlishúsum), kalksteinsbreiðurnar sem kallast sjávarstokkar sem standa yfir hafið (faraglioni), bærinn Anacapri, Bláu hellarnir (Grotta Azzurra), rústir halla rómversku keisaranna sem þar dvöldust og útsýni yfir ýmsa bæi umhverfis eyjuna Kaprí, þar á meðal Positano, Amalfi, Ravello, Sorrento, Nerano og Napólí. Hringurinn í kringum eyjuna er 17 km og er hæsti punktur hennar Solaro-fjallið, sem er 589 metra yfir sjávarmáli. Þangað fór pistlaskrifari í kláfi sem minnti meira á rólu en alvöru samgöngutæki. Fyrir ferðina voru greiddar 12 evrur og mér sýndist hún í stanslausri notkun en útsýnið frábært. Ég hitti farastjórann úr bátsferðinni þegar niður kom og hann var með öfundarsvip þegar hann lýsti því hve ábatasamur þessi rekstur væri. Sjálfur virtist hann í góðum málum, hóf að sigla til Kaprí á einum 20 manna báti fyrir nokkrum árum en rak nú nokkra báta og með fjölda fólks í vinnu. Allir virðast vera að flýta sér að ná til baka glötuðum tíma vegna kórónaveirunnar og ferðamannastraumurinn á svæðinu komin að þolmörkum.capri7

Eyja hinna útvöldu

Á Kaprí búa að jafnaði um 12 þúsund manns en mörg frægðarmenni eiga eða hafa átt þar sumarhús. Hún hefur oft verið sviðsmynd kvikmynda og verið draumaáfangastaður meðal listamanna, stjórnmálamann og frægs fólk enda var hún ein af sumardvalastöðum rómversku keisaranna. Keisarinn Tíberíus, eftirmaður Ágústusar, byggði nokkur einbýlishús á Kapri, frægust er Villa Jovis, sem er ein best varðveitta rómverska „villan“ á Ítalíu. Árið 27 e.Kr. flutti Tíberíus til varanlegrar búsetu á Kapri og stýrði heimsveldinu þaðan til dauðadags 37 e.Kr. Fyrir þá sem muna eftir myndinni Gladiator (sem sumir segja bestu myndina um tíma Rómverja!) má benda á að árið 182 e.Kr. sendi hinn fláráði Commodus keisari systur sinni Lucillu til Kapri. Hún var tekin af lífi skömmu síðar.

Á síðari hluta 19. aldar varð Kaprí vinsæll staður fyrir evrópska listamenn, rithöfunda og aðra fræga einstaklinga og ásamt bænum Taormina á Sikiley vinsælt skjól fyrir fólk sem ekki taldist til „siðsamari“ meirihlutans. Fyrir nútímafólk má geta þess að Mariah Carey á einbýlishús þar og Hollywood-stjörnur eins og Leonardo DiCaprio og Lindsay Lohan hafa dvalið þar langdvölum. Kvikmyndastjarnan Sophia Loren, sem nú fagnar 88 ára afmæli sínu, er enn nokkuð tíður gestur á Kaprí og á þar sumarhöll og leikarinn og hjartaknúsarinn Marcello Mastroianni kom þar oft meðan hann var meðal okkar. Meira að segja Lenín fór þangað í frí árið 1908 en gestgjafi hans var rithöfundurinn Maxim Gorky og átti hann húsi nálægt Giardini Augusto. Árið 1970 var minnismerki eftir Giacomo Manzù reist á Kaprí til heiðurs Leníns. Þá má finna hús á Kaprí sem Benito Mussolini notaði en sjálfur var hann fæddur nálægt Como á Norður-Ítalíu. Mussolini var auðvitað hrifinn af Kaprí og gerði eyjuna að griðlandi fugla.capri3

Sænsk tenging

Við gengum hring um Anacaprí en urðum að gæta að því að vera komin í rútuna á réttum tíma. Sumir fengu sér að borða, ég fór í róluna upp á topp og naut útsýnisins en sumir skoðuðu húsið Villa San Michele, sem sænski læknirinn Axel Munthe (1857-1949) lét byggja á rústum rómversks húss. Axel Munthe kom fyrst til Kaprí árið 1876 og heillaðist hann strax af staðnum þar sem hann óskaði að hann gæti byggt. Munthe útskrifaðist sem læknir frá París aðeins 23 ára gamall og opnaði þar læknastofu í kjölfarið. Árið 1884 fór hann til Napólí til að berjast við kóleru en fluttist til Rómar árið 1890 og var þar læknir hástéttarfólks í Róm. Síðar var hann líflæknir Viktoríu Svíadrottningar, en hún lést árið 1930. Munthe yfirgaf Caprí árið 1943 og síðustu æviárunum eyddi hann í konungshöllinni í Stokkhólmi sem gestur Gústafs 5. Svíakonungs. Hús hans er nú vinsæll áfangastaður ferðamanna.capri4

Sumum finnst fyrirferð ríka fólksins á Kaprí vera mikil í dag, bæði á snekkjum og skútum - að ekki sé minnst á sumarbústaðina sem standa hátt með glæsilegu útsýni. Pistlaskrifari taldi ekki færri en sex ofursnekkjur í hnappi við strönd Kaprí, ein var búin fyrir barnaafmæli. Verðlagið tekur mið af því og svo fyllir millistéttin göturnar og það svo að tala má um túristagildru. Sumir hafa talað fyrir því að þarna verði beitt fjöldatakmörkunum eins og gert er víða en manni sýnist heimamenn ekki alveg tilbúnir í það ennþá. Kaprí er enn opin fyrir umferð.