c

Pistlar:

6. desember 2022 kl. 23:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Er Twitter-fuglinn frjáls?

Margir upplifa að megnið af því sem þeir sjá og lesa á samfélagamiðlum sé með einhverjum hætti matreitt ofan í þá. Það er ekki endilega verið að tala um fólk sem sér samsæri í hverju horni heldur venjulegt fólk sem vill fá upplýsingar og fá um leið að fylgjast með og taka þátt í áhugaverðri umræðu. Jú, jú, öll áttum við okkur á því að þarna er að finna mikið hismi og léttvægt efni streymir fram í stríðum straumum á samfélagsmiðlum þó þeir séu innbyrðis ólíkir hvað það varðar. Kynslóðir nota og upplifa miðlana með ólíkum hætti og nú er að verða einn og hálfur áratugur síðan þeir elstu komu til sögunnar. Þá var netið búið að bjóða upp á allskonar umræðuvettvanga sem ekki byggðust á þægilegum notendaviðmótum samfélagsmiðlanna. Facebook var bylting á sína vísu því allir gátu tekið þátt og deilt efni óháð kunnáttu eða þekkingu. Samfélagsmiðlarnir eru því búnir að vera lengi til staðar þó enn séu notendur þeirra að læra á þá.twit

Sniðgöngupólitík

Við flestum notendum samfélagsmiðla blasir að þeir lenda ósjálfrátt í bergmálshelli og það getur verið erfitt að brjótast út úr honum. Umræðan mótast af því. Þá vita flestir að efni á vefnum sætir eftirliti og afskiptum í vaxandi mæli. Umskiptin urðu mest fyrir um áratug. Fyrst í stað vakti þessi ritskoðun litla athygli og fáir vissu mikið um hana. Hún hefur hins vegar færst í aukanna samhliða aukinni skautun (pólariseringu) í þjóðfélagsumræðunni sem rekja má til menningarátaka (woke) nútímans sem birtist meðal annars í sniðgöngupólitík (cancel culture). Þrýstingur á að útiloka og sniðganga einstaklinga og jafnvel áhrifafólk hefur aukist. Inn á skrifstofur samfélagsmiðlanna hafa streymt allskonar óskir um slíka framkvæmd. Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum að fræðimenn hafa reynt að átta sig á þessari stýringu umræðunnar og segja má að almenningur sé nú að vakna upp við vondan draum með opinberun Twitter-skjalanna sem voru gerð að umræðuefni hér í seinasta pistli. Þessi sniðgöngupólitík síast inn á hefðbundna fjölmiðla sem réttlæta þá slíkt með því að þeirra hlutverk byggist á ritstýringu hliðvaranna, nokkuð sem gamlir blaðamenn kalla „ritstýringu“ á ábúðamikinn hátt. Staðreyndin er sú að slík ritstýring ritstjórnar virðist orðinn veigaminni innan fjölmiðla nútímans, sérstaklega netmiðlanna og fyrir vikið er erfitt að greina mun á þeim eða bloggurum úti í bæ með fullri virðingu fyrir þeim síðarnefndu.

Er ástæða til að tortryggja Musk?

Við blasti að breyting yrði á Twitter með yfirtöku Elon Musk, eins auðugasta manns heims, enda hafði hann útskýrt áhuga sinn og síðar aðkomu með því að hann vildi frelsa umræðuna. Frelsa fuglinn eða leyfa fuglinum að kvaka, svo vísað sé til merkis Twitter en miðilinn var frá upphafi villtari og hvatvísari en aðrir samfélagsmiðlar. Það varð til þess að sumir heilluðust af honum á meðan mörgum öðrum stóð stuggur af Twitter. Stjórnmálaöfl, embættismenn og blaðamenn tóku þessum yfirlýsingum Musk af tortryggni. Íslenskir fjölmiðlanotendur urðu rækilega varir við þá umræðu og þá helst í gegnum Ríkissjónvarpið sem tók bæði fréttir og umræðuþætti undir það að hætta gæti stafað af aðkomu Musk. Þar á bæ var ekkert jákvætt sjáanlegt við yfirtöku Musks á miðlinum.

Hann fór þá leið að opinbera óhreina þvottinn og upplýsa notendur Twitter um vinnubrögðin innan fyrirtækisins og hvernig staðið var að ákvörðunum um stýringu eða eftir atvikum ritskoðun miðilsins. Nú hefur semsagt fyrsti gagnalekinn birst og hefur verið upplýst að unnið er að öðrum slíkum og þá í samstarfi við fleiri blaðamenn, meðal annars Bari Weiss, þekktri fjölmiðlakonu í Bandaríkjunum. Weiss þessi sagði upp með látum yfirmannsstarfi sínu hjá New York Times og lýsti óvönduðum vinnubrögðum hjá blaðinu, en síðustu ár hefur blaðið færst mjög mikið til vinstri þótt það hafi verið talið vinstrisinnað fyrir. Ríkisútvarpið okkar vitnar iðurlega í blaðið sem stórblaðið New York Times, en nú þykir það helst styðja vinstrisinnaðasta arm Demókrataflokksins.twitt

Þegar horft er yfir sviðið nú blasir við að mörgum blaðamönnum stendur stuggur af uppljóstrunum og segja annað hvort að ekki séu neinar fréttir á ferðinni eða að Mat Taibbi, blaðamaðurinn sem Musk samdi við um að vinna úr gögnunum, hafi selt sálu sína og gerst almannatengill maður fyrir ríkasta mann heims. Eina greinin sem hefur birst hér heima í meginstraumsmiðli er á Vísi.is sem segir uppljóstrun Musks „rýra í roðinu.“ Þar er fullyrt að þrátt fyrir miklar „vangveltur og yfirlýsingar vörpuðu „Twitter-skjölin“ eins og uppljóstrunin er kölluð ekki ljósi á neitt misferli eða það að Twitter hefði farið eftir vilja Demókrataflokksins.“ Það má efast um að það sé heiðarleg lýsing á þeim gögnum sem nú liggja fyrir eða er þetta fréttamat ritstjórnar miðilsins? Athyglisvert er þó að þessi frétt er nokkurn veginn samhljóma vörninni sem helstu talsmenn Demókrataflokksins í Bandaríkjunum hafa gripið til.

Rússaafskiptin í nýju ljósi

Margir fjölmiðlamenn taka uppljóstrununum fegins hendi og einn þeirra er Matt Bivens, sjóaður blaðamaður og kunningi Mat Taibbi. Hann setur Twitter-skjölin í samhengi við mörg mál sem hafa verið áberandi í umræðunni, svo sem meint afskipti Rússa af forsetakosningunum 2016. Matt Bivens og reyndar margir aðrir hafna því með öllu að afskipti Rússa hafi skipt einhverju máli. Hann skrifar á bloggsíðu sína:

„Til dæmis var okkur sagt að það væri mikið þjóðaröryggisáhyggjuefni að Rússar væru að nota Facebook gegn okkur - að sundra okkur Bandaríkjamönnum innan frá, með svívirðilegum auglýsingakaupum! Og það vegna andúðar sinnar á frelsi okkar. En eins og dregið hefuir verið saman í Columbia Journalism Review var þó aðeins um að ræða 100.000 dollara í „rússneskum“ Facebook-auglýsingum yfir allt kosningatímabilið [forsetakosningarnar 2016], en á þeim tíma námu auglýsingatekjur Facebook á dag, um 96 milljónum dollara. Þannig að öll hin meinta mánaðarlanga rússneska áróðursherferð nam minna en 0,1 prósenti af auglýsingatekjum Facebook á einum degi.“

Af þessu sést að fleiri og fleiri blaðamenn treysta sér nú til að skoða atburðarásina undanfarinna ára í nýju og upplýstara ljósi í kjölfar Twitter-skjalanna. Nú bíðum við eftir næsta upplýsingapakka.