c

Pistlar:

27. desember 2022 kl. 16:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Áramót með 8 milljörðum manna

Nú í lok árs urðu jarðarbúar 8 milljarðar talsins og hafði þá fjölgað um einn milljarð á aðeins 12 árum. Fólksfjölgunin hefur aukist hratt eftir að mannkynið náði fyrsta milljarðinum árið 1800 eins og kemur fram í meðfylgjandi töflu. Teikn eru á lofti um að mannfjöldasprengjan svokallaða hafi verið aftengd en ljóst er að næstu áratugir munu leggja mikið álag á vistkerfi jarðar á meðan jafnvægi næst. Um leið getur mannfjöldaþróun haft veruleg áhrif á valdajafnvægi heimsins. Um þessa þróun hefur verið fjallað alloft hér í pistlum.pop

Í upphafi landbúnaðabyltingarinnar, fyrir um það bil 10 þúsund árum (um 8000 f.Kr.), voru íbúar heimsins taldir vera um 5 milljónir talsins. Á 8.000 ára tímabili eða allt fram að upphafi tímatals okkar jókst mannfjöldinn í um 200 milljónir (sumir áætla 300 milljónir eða jafnvel 600, sem gefur til kynna hversu ónákvæmt mannfjöldamat á fyrstu sögulegu tímabilum getur verið), með vexti undir 0,05% á ári. Farsóttir, stríð og hungur sáu til þess að mannkyninu fjölgaði gríðarlega hægt lengst af.

Iðnbyltingin breytti öllu

Gífurleg breyting varð með iðnbyltingunni. Á meðan það hafði tekið alla mannkynssöguna þar til um aldamótin 1800 fyrir jarðarbúar að ná einum milljarði kom næsti milljarður til þess að gera hratt og svo stöðugt hraðar eftir það. Það tók aðeins 130 ár að ná öðrum milljarði (1928), þriðji milljarðurinn kom á 30 árum (1958), fjórði milljarðurinn á 15 árum (1974), og fimmti milljarður á aðeins 13 árum (1988).

Árið
1800 1000 milljónir
1928 2000 milljónir
1958 3000 milljónir
1974 4000 milljónir
1988 5000 milljónir
2000 6000 milljónir
2011 7000 milljónir
2022 8000 milljónir

Mannfjöldi í heiminum hefur frá og með 2022 vaxið um 0,84% á ári (lækkaði úr 1,05% árið 2020, 1,08% árið 2019, 1,10% árið 2018 og 1,12% árið 2017). Núverandi fólksfjölgun er áætluð um 67 milljónir manna á ári.

Árlegur vöxtur í mannfjölda náði hámarki seint á sjöunda áratugnum, þegar hann var um 2%. Hækkunin hefur nærri helmingast síðan þá og mun halda áfram að minnka á næstu árum. Íbúum í heiminum mun því halda áfram að fjölga á 21. öldinni en mun hægar en áður.mannf

Mannfjöldi og valdajafnvægi

En mannfjölgunin hefur áhrif á valdajafnvægi heimsins, þegar Sovétríkin og Bandaríkin stóðu andspænis hvort öðru var mannfjöldi þeirra svipaður. Í dag búa 340 milljónir manna í Bandaríkjunum en 145 milljónir í Rússlandi. Rússland er ekki efnahagslegt stórveldi heldur hnignandi herveldi með stórt kjarnorkuforðabúr en það er önnur saga.

Í Asíu eru fjölmennustu ríki heims og valdajafnvægi milli þeirra er viðkvæmt. Kína, Indland og Pakistan eiga öll kjarnorkuvopn og deila um landamæri. Mannfjöldaþróun hefur án efa áhrif en á síðasta áratug fjölgaði Indverjum um 180 milljónir og að öllum líkindum taka þeir stöðu Kína sem fjölmennasta ríki heims innan skamms.

Áætlað er að meira en helmingur fólksfjölgunar í heiminum fram til 2050 verði í átta löndum: Lýðveldinu Kongó, Egyptalandi, Eþíópíu, Indlandi, Nígeríu, Pakistan, Filippseyjum og Tansaníu. Sumum finnst það ríma illa við fullyrðingar ýmissa um að fólk á þessum stöðum sé að flýja og sækja um alþjóðlega vernd vegna loftslagsbreytinga.

Þessi mikla fólksfjölgun felur í sér margar áskoranir og mörg ný vandamál eins og fæðuöryggi og viðhlítandi menntun. Þau lönd þar sem fjölgunin verður mest geta ekki leyst vandamálin án mikillar aðstoðar er álit margra.