c

Pistlar:

21. mars 2023 kl. 10:43

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Klöngrast um kletta Portúgals

Portúgal er að sumu leyti jaðarríki í Evrópu, yst við Atlantshafið sem bylur á strandlengjunni og mótar landið og dregur fram einstaka jarðfræði og fjölbreyttar náttúruminjar. Pistlaskrifari dvaldi í rúma viku á hinu suðlæga Algarve-svæði og eyddi dögunum í langar gönguferðir sem flestar voru meðfram strandlengjunni og eru orðnar þokkalega aðgengilegar fótgangandi eftir mikla uppbyggingu af hálfu heimamanna. Oftar en ekki var þó gengið á gömlum stígum sem mótast höfðu í aldanna rás, oft þurfti að klöngrast smávegins en allt var það fyrirhafnarinnar virði.sagres1

Strandlengjan er einstök náttúrsmíði, klettakastalar sorfnir í sjó með stórfenglegum sjávarhellum og einstakar baðstrendur inn á milli í fögrum klettavíkum. Víða er þarna kjöraðstæður fyrir sjóbrettafólk sem hafði hreiðrað um sig í sumum víkunum, að því er virtist algerlega í eigin heimi og hálfgerð hippastemmning ríkjandi og Volkswagen rúgbrauð helstu samgöngutækin! Að sumu leyti er þetta svæði óuppgötvað af fjöldaferðamennsku nútímans en vissulega er mikið um ferðamenn á svæðinu og eru þjónusta við þá helsta lifibrauð heimamanna sem eru gestrisnir og þægilegir í umgengni. Svæðið er hins vegar stórt og átroðningur hvergi mikill.

Mikil uppbygging í ferðaþjónustu

Flogið er inn til Farao en þar er þokkalega stór flugvöllur sem þjónustar syðsta hluta Portúgal. Flugvöllurinn var reistur 1960 en komst í eigu einkaaðila 2010 og hefur verið í miklum vexti síðan og þjónustan endurskipulögð frá grunni. Um 9 milljónir farþega fara um flugvöllinn árlega sem þjónustar nú fjölda flugfélaga, meðal annar easyjet sem við flugum með.

Við ferðuðumst á vegum bresku ferðaskrifstofunnar Explore sem stofnuð var 1981 og býður upp á fjölbreytta ferðamáta í yfir 100 löndum. Eins og nafnið gefur til kynna er reynt að auka upplifun farþega og þeir þá jafnframt látnir hafa fyrir hlutunum. Ferðaskrifstofan reyndist okkur vel og öll þjónusta eins og best var á kosið. Fyrir vikið dvöldum við með 15 fulltrúum breska heimsveldisins undir stjórn Veroniku, fararstjóra okkar sem er pólsk en af suðrænum uppruna. Þetta reyndust góðir ferðafélagar og gott ef þeim fannst ekki dálítið sport í að hafa tvo Íslendinga í hópnum.sagres2

Fiskur í hvert mál

Við mættum seint að kvöldi eftir tengiflug í gegnum Gatwick og vorum sótt á flugvöllinn þar sem beið rúmlega klukkutíma akstur til bæjarins Sagres sem er að uppruna fiskimannabær þarna á suðvestasta odda Portúgals. Höfnin reyndist þokkalega lífleg og nýlegur og öflugur varnargarður rammaði inn starfsemina og myndaði skjól fyrir Atlantshafsöldunni sem brettafólkið elskar en fellur ekki að annarri starfsemi. Unnið var að endurbyggingu eins hafnargarðsins og verkamenn af afrískum uppruna unnu kappklæddir í hitanum (um það bil 20 gráðum) við að setja saman járnabindingar. Fiskur er fyrirferðamikill á matseðlum heimamanna og þeir stoltir af sínu sjávarfangi eins og við Íslendingar. Fiskmarkaður var við höfnina sem einnig sinnir bátsferðum með ferðamenn, sem geta valið sér ferðamáta eftir aldri og dirfsku.sagres4

Sagres er ekki stór bær, með rétt um 2000 íbúa en nokkur hótel og veitingastaði. Næturlífið er bundið við nokkra bari og matsölustaði sem mynda lítinn klasa í miðju bæjarins sem dreifir dálítið úr sér enda byggðin frekar gisin. Við fengum inni í litlu hönnunarhóteli í eigu arkitektahjóna og reyndist það hin besti dvalarstaður. Helsta stolt heimamanna er stórt virki sem stendur út á nálægum tanga og varði svæðið fyrir ágangi sjóræningja og annarra innrásarherja.

Dagsferðirnar voru skipulagðar þannig að við vorum keyrð á áfangastað, gengum í 5 til 6 tíma með reglulegum stoppum og ferðahraðinn miðaðist við að geta skoðað og virt fyrir sér landslagið. Í dagslok vorum við sótt og keyrð heim og hópurinn gerði svo upp daginn með sameiginlegri máltíð á nálægum veitingastað. Þetta var rútína sem vandist fljótt! Eins og áður sagði er strandlengjan þarna einstök og líklegt að hún eigi eftir að verða fyrir frekari innrás ferðamanna í framtíðinni. Víða er þegar mikil ferðamannauppbygging eins og í bænum Lagos sem telur um 35 þúsund, manns. Þar er nú glæsileg bátahöfn og miðbærinn hefur upp á mikið að bjóða, bæði þegar kemur að sögu og matarhefð. Þarna reyndist vera margt að skoða og þessi hluti Portúgals einstakur á margan hátt.