c

Pistlar:

27. mars 2023 kl. 20:46

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Spilling hér og þar

Sinn er siður í landi hverju, segir máltækið. Sú saga hefur gengið innan hjálparstarfs Íslendinga að eitt sinn hafi verið búið að tryggja fjármagn til að grafa brunna í ónefndu Afríkuríki. Í framhaldi þess hafi brunnarnir verið hannaðir og leitað réttra leyfa. Þá kom hins vegar í ljós að að það myndi taka langan tíma að fá tilskilin leyfi hjá þarlendum embættismönnum. Því var spurt hvort ekki væri hægt að standa hraðar að málum? „Jú, jú, en það kostar,“ var svarið sem fékkst. Þetta er velþekkt víða um heim, ef þú vilt að eðlilegur gangur sé á málum þarf að borga aukalega fyrir það. Kunningi pistlaskrifara starfaði í Indlandi um skeið og átti þá stundum samskipti við kerfið þar. Oft var hann spurður að fyrra bragði hvort hann hefði „any mean to speed up the process.“ Hann sá hvað klukkan sló, ef ekki var greitt var ómögulegt að segja til um hvenær erindið fengi afgreiðslu.spill

Í bók sinni „Mystery of Capital“ skoðaði hagfræðingurinn Hernando De Soto skilvirkni í mörgum vanþróuðum löndum en þó sérstaklega með tilliti til þess hve miklar eignir íbúar í þessum löndum eiga sem standa fyrir utan hagkerfin þeirra og eru óskráðar. Rannsóknir De Soto sýndu að lagakerfi þessara landa eru flókinn, óaðgengileg og eignarétturinn illa varinn. Fyrir vikið er mun „ódýrara“ fyrir fátækustu þegnanna að standa fyrir utan lögin og starfa ólöglega. Þar með er ekki verið að segja að þeir ríkari standi á hærri siðferðilegum stalli, aðstæður þeirra og aðferðir eru bara aðrar. Það segir sig hins vegar sjálft að ef grunnur samfélagsins er slíkur þá er erfitt að halda nokkru skikki á málum og önnur spilling grasserar. Þetta erum við nánast stöðugt minnt á í umfjöllun um vanþróaðri ríki þar sem lýðræði stendur veikum fótum.clair

Réttarríkið í Egyptalandi

Fyrir tveimur árum var myndin Le Caire Confidentiel sýnd í Ríkisjónvarpinu. Um var að ræða spennumynd frá 2017 eftir Egyptann Tarik Saleh í anda film noir. Myndin fjallaði um lögreglumann í Kaíró sem er fenginn til að rannsaka morð á þekktri söngkonu. Skemmst er frá því að segja að spillingin reyndist alsráðandi í Kaíró samkvæmt myndinni. Það kom fljótlega í ljós að valdamiklir einstaklingar í borginni vildu ekki að málið væri leyst. Því var það að „góða löggan“ var eftir nokkrar mínútur búin að láta múta sér þrisvar og stela peningum á morðstað! Umræddur lögreglumaður starfaði á lögreglustöðinni í skjóli spillts frænda síns sem mat öll mál út frá ágóðavon sinni. Saksóknari lokaði og opnaði rannsóknina eftir því sem vindar peningaveldisins blésu. Ef lögreglan var komin út fyrir sitt svæði varð hún að greiða lögregluþjónum þess hverfis þóknun. Fyrir allt er greitt undir borðið, engin gerir neitt án þessa að lófarnir væri smurðir. Spillingin er svo allsráðandi að það gerir engin kröfu um að sannleikurinn kæmi í ljós eða réttlætinu væri fullnægt. Söguhetjan er í raun andhetja, hann álpast til að halda morðmálinu opnu og spillingin flæðir, að lokum dregst landið inn í byltingarástand og nokkur morð til eða frá hætta að skipta máli. Hugmyndir um réttarríki, þar sem lögregla og saksóknari vinna hlutlægt er svo fjarlægt að það gæti eins átt sér stað í öðru sólkerfi. Stéttaskiptingin er æpandi, vinnuafl frá Súdan er lægst sett, nánast eins og þrælar og í raun réttlaust. Svona er nú ástandið víða í Afríku.spillingin

Ekki hægt að treysta þeim sem þú mútar!

Flestir Íslendingar sem starfa erlendis hafa svipaðar sögur að segja, það verði að greiða fjármuni yfir borðið eða hygla þeim sem hafa leyfisveitingar á sérstakan hátt. Um daginn heyrði ég frásögn Íslendings af því að spilling í Úkraínu væri svo slæm að það væri ekki einu sinni hægt að treysta þeim sem væri búið að múta! Nýlegar frásagnir af stórfeldum mútum til þingmanna Evrópuþingsins sýna að meira að segja í þessari háborg vestræns siðferðis eru sláandi dæmi um mútustarfsemi til æðstu embættismanna.

Íslendingar hafa átt talsverð viðskipti í Afríku og allir sem þar hafa starfað segja svipaðar sögur, ef menn sætta sig ekki við greiðslur undir borðið eigi sér engin viðskipti stað. Þetta var landlægt og óvíst að eitthvað hafi dregið úr þrátt fyrir viðleitni alþjóðasamtaka og heimamanna að bregðast við. Fyrir tveimur áratugum síðan var íslenskt útgerðarfyrirtæki með starfsemi á vesturströnd Afríku. Gerður hafði verið samningur við þjónustufyrirtæki á staðnum en blekið var ekki þornað þegar viðkomandi vildi breyta samningnum sér mjög í vil. Íslendingarnir tóku það ekki í mál, sögðu að það væri nýbúið að undirrita samninginn. Heimamaðurinn yppti öxlum og fór sína leið. Skömmu síðar byrjaði allt að fara úrskeiðis hjá Íslendingunum, þjónusta versnaði, vörur tíndust en verst var að nú byrjaði lögreglan að stöðva þá í tíma og ótíma út af allskonar smáatriðum. Að lokum var staðan óbærileg og Íslendingarnir hentu inn handklæðinu, samþykktu breyttan samning og allt féll í ljúfa löð.

Spilling er ekki bundin við Afríku en hún er alvarlegt vandamál þar og dregur úr möguleikum þess að efnahagur landanna rísi og lýðræðisleg framvinda verði. Fyrir ekki löngu síðan gerði íslenskur þingmaður tilraun til að safna saman spillingarsögum á Íslandi sem eru birtar hér til samanburðar.