c

Pistlar:

8. apríl 2023 kl. 12:24

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Mannfjöldaklukkan tikkar en Evrópubúum fækkar

Samkvæmt mannnfjöldaklukkunni eru íbúar heimsins núna um 8.026 milljónir talsins. Enn er Kína fjölmennust þó ekki muni nema um 35 milljónum íbúa á þeim og Indverjum. Mannfjöldi í heiminum vex nú um 0,84% á ári og lækkar þessi tala hratt en hún var 1,05% árið 2020, 1,08% árið 2019, 1,10% árið 2018 og 1,12% árið 2017. Núverandi fólksfjölgun er áætluð um 67 milljónir manna á ári. Árlegur vöxtur náði hámarki seint á sjöunda áratugnum, þegar hann var um 2%. Hækkunin hefur nærri helmingast síðan þá og mun halda áfram að minnka á næstu árum ef fer sem horfir.mannf

Fólki í heiminum mun því halda áfram að fjölga á 21. öldinni, en mun hægar miðað við fortíðina sem er vel því stjórnlaus fólksfjölgun er helsta áskorunin gagnvart lífríki jarðar eins og hefur verið bent á hér í pistlum. Fjöldi jarðarbúa hefur tvöfaldast (100% aukning) á 40 árum frá 1959 (3 milljarðar) til 1999 (6 milljarðar). Nú er áætlað að það taki næstum 40 ár í viðbót að aukast um 50% til viðbótar og verða 9 milljarðar árið 2037. Nýjustu spár um mannfjölda benda til þess að jarðarbúar muni ná 10 milljörðum árið 2057.

Veruleg fækkun í Evrópu

Með hverri nýrri spá er gert ráð fyrir minni fjölgun fólks og víða í þróuðum ríkjum er hægt að tala um bremsun á fæðingum. Samkvæmt nýrri mannfjöldaspá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, mun íbúum ESB-ríkja fækka um tugi milljóna á öldinni eins og Morgunblaðið gerði að umræðuefni í vikunni. Er gert ráð fyrir að íbúum ríkja Evrópu fækki um 6% frá ársbyrjun 2022 til ársins 2100. Þar sem þessi spá nær mjög langt fram í tímann er óvissan vitanlega mjög mikil bendir Baldur Arnarsson, blaðamaður Morgunblaðsins, á í greininni. Samkvæmt Eurostat er reiknað með að íbúafjöldi í ríkjum ESB nái hámarki árið 2026, þegar um 453 milljónir manna muni búa í þessum ríkjum, alls 27 að tölu. Síðan byrji íbúum að fækka og verði íbúatalan komin niður í 420 milljónir árið 2100.

Stríðið í Úkraínu er sagt hafa áhrif á íbúafjölgunina til skemmri tíma. Fjöldi flóttamanna frá Úkraínu hafi enda flutt til ríkja sambandsins. Hefur verið áætlað að yfir átta milljónir manna hafi flúið landið en gera má ráð fyrir að stór hluti þeirra flytji heim þegar átökunum lýkur sem verður vonandi sem fyrst.mannfj

Eldra fólki fjölgar mikið

Eldra fólki mun fjölga mikið samkvæmt samantektinni. Þar blasir við að fækkunin verður fyrst og fremst í tveimur aldurshópum; hjá nítján ára og yngri og hjá 20 til 64 ára. Hlutfall yngsta hópsins af íbúafjöldanum muni lækka úr 20% í 18% og hlutfall 20 til 64 ára lækka úr 59% í 50%. Hins vegar mun fólki sem er á aldrinum 65-79 ára fjölga, úr 15% í 17%, og fólki í aldurshópnum 80 ára og eldri fjölga enn meira, úr 6% í 15%. Þessar breytingar hefðu margvíslegar afleiðingar í för með sér. Meðal annars þýðir fækkun fólks á aldrinum 20 til 64 ára að færri skattgreiðendur eru til að standa undir velferðarkerfinu.

Allt þetta mun hafa áhrif á samfélagsgerðina eins og við sjáum í átökum í Frakklandi um eftirlaunaaldur. Þar er rekið fyrirkomulag gegnumstreymissjóða, þannig að ekki er lagt fyrir heldur næstu kynslóð ætlað að borga. Gallar við slíkt kerfi afhjúpast þegar fólki fer að fækka eins og er að birtast núna í Frakklandi. Þá er betra að hafa íslenska kerfið.