c

Pistlar:

22. apríl 2023 kl. 18:31

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Saga Portúgal - landafundir

Henry eða Hinrik er nafn á tveimur áhrifavöldum í portúgalskri sögu. Við nefndum hinn burgúndíska Hinrik í síðasta pistli um sögu Portúgals en hann hóf leiðina að sameiningu þess ríkis sem við þekkjum í dag sem Portúgal. Það var síðan sonur hans, Afonso Henriques, sem endanlega krýndi sjálfan sig sem konung Portúgals árið 1139 og lýsti um leið Guimarães sem höfuðborg en hún var þá lítið þorp í héraðinu Braga, norðan við Porto. Tími hennar sem höfuðborgar stóð ekki lengi en hún er þekkt fram á þennan dag sem „vagga þjóðarinnar“ af Portúgölum.portugal1

Það er hins vegar ekki fyrr en árið 1179 sem páfinn í Róm viðurkenndi opinberlega Afonso I sem konung Portúgals. Endurheimtunin eins og hún er kölluð (Reconquista) hélt síðan áfram í Algarve í suðurhluta landsins sem var loksins unnin af márum árið 1249 og Lissabon varð höfuðborg í framhaldi þess árið 1255. Síðan þá hafa landamæri Portúgals haldist nánast óbreytt og eru ein lengstu landamæri Evrópu. Portúgalar eiga aðeins eina nágranaþjóð á Íberíuskaganum, Spán. Saga landanna er auðvitað samofin hvort sem við horfum til sameiningar innan landamæra, brottrekstur máranna eða siglingar og landafundi. Um skeið voru slíkir stórveldistaktar að þjóðirnar skiptu með sér heiminum með strikum á landakorti.

Eftir að konungsríkið Portúgal var endanlega mótað varð það mikilvægt í stjórnmálum Evrópu (og sérstaklega íberískra) og háði nokkur stríð gegn Spáni, stofnaði bandalag við England (lengsta bandalag í heimi, sem varir til dagsins í dag) og hóf „uppgötvunaröld“ eða réttara sagt öld landafunda. Og þá komum við að Infante Dom Henrique de Avis, hertoga af Viseu, sem er betur þekktur undir nafninu Hinrik sæfari, en hann var portúgalskur prins fæddur í Porto og lék lykilhlutverk í landafundum Portúgala á fimmtándu öld.

Nýöldin og landafundir

Segja má að öll 15. öldin fari í að undirbúa nýöld sem er það tímabil í mannkynssögunar sem tekur við af miðöldum (myrku) og mótar endurreisnartímann sé hann yfir höfuð talinn sérstakt tímabil. Hvað mótaði nýöld? Jú, með falli Konstantínópels (Miklagarðs) 1453 færðist miðja hins gamla rómverska veldis aftur vestur og efldi endurreisnina á Ítalu og Róm hefst til vegs á ný með páfaveldið innanborðs. Annað kennileiti nýaldar er árið 1492 þegar Kristófer Kólumbus kom til nýja heimsins en óhætt er að segja að lönd Íberíuskagans hafi stýrt þeirri vegferð allri. Mótmæli Marteins Lúters og klofningur kirkjunnar eru einnig lykilþáttur í mótun nýaldar en kaþólska kirkjan hefur átt eitt sitt sterkasta vígi á Íberíuskaganum.

Á 15. öld byggðu því Portúgalar upp víðfeðmt heimsveldi sem náði til landsvæða um allan heim eða allt frá Suður-Ameríku til Eyjaálfu. Í þann mund er Marteinn Lúther var að negla mótmælaskjal sitt á kirkjudyrnar í Wittenberg hófu Portúgalar siglingar sínar um heimshöfin og hófu hið víðfeðma landnám sitt.portukort

Portúgalskir sæfarendur byrjuðu á því að kanna ströndina og þeir ævintýragjörnustu fikruðu sig niður strönd Marokkó. Í fyrstu með það í huga að færa endurheimtina (Reconquista) til norðurhluta Afríku. Í framhaldinu færði ævintýraþráin portúgalska sjómenn út á hafið þegar þeir uppgötvuðu eyjarnar út af strönd Afríku, Kanaríeyjar, Madeira, Azoreyjar og Grænhöfðaeyjar. Í kjölfarið könnuðu Portúgalar strönd Afríku, settu verslunarhafnir og reyndu að finna siglingaleiðina til Indlands, sem þeir gerðu að lokum árið 1498, undir stjórn landkönnuðarins Vasco da Gama (1460-1524) var portúgalskur sæfari sem sigldi fyrstur sjóleiðina til Indlands fyrir suðurodda Afríku, Góðrarvonarhöfða (e. Cape of good hope) og þaðan upp með austurströnd Afríku og að strönd Indlands.

En útþráin var óseðjandi og portúgalskir sæfarendur héldu áfram að kanna og leita að viðskiptum um allan heim. Frá Afríku fóru þeir yfir Indlandshafið, að ströndum Arabíu og náðu að lokum allt til Japans. Víða settu þeir upp einskonar útstöðvar sem margar þróuðust yfir í nýlendur síðar. Árið 1500 komust portúgalskir sæfarendur til Suður-Ameríku og hófu landnám Brasilíu. Það er eignað Pedro Alvares Cabral að hafa uppgötvaði Brasilíu sem varð portúgölsk nýlenda í framhaldinu og er stærsta málasvæði portúgölskunnar í dag.history

Sól heimsveldisins hnígur til viðar

Heimsveldi Portúgala byrjaði hins vegar að hnigna þegar Hollendingar, Englendingar og Frakkar hófu að gera sig gildandi á úthöfunum. Sæfarendur þaðan hófu að umkringja eða leggja undir sig hinar dreifðu portúgölsku verslunarstöðvar og yfirráðasvæði og drógu smám saman úr vald þeirra. En Portúgalar háðu örlagaríka orrustu við Alcácer-Quibir í Marokkó árið 1578. Sebastian Portúgalskonungur hugðist þá ná Marokkó undir sig og kristna landið. Hann hélt til Marokkó með 20 þúsund manna lið og allmargar fallbyssur. Marokkóbúar tóku á móti honum undir stjórn Abd al-Malik og bróður hans Ahmad og höfðu 50 þúsund manna her, ekki eins vel búinn og sá portúgalski en Marokkómenn þekktu aðstæður betur og tókst að umkringja portúgalska herinn. Í orrustunni missti Portúgal konung sinn og missti sjálfstæði sitt til Spánverja í framhaldinu. Sú niðurlæging stóð allt til 1640, þegar landið fékk loks sjálfstæði sitt á ný.

Eftir það varð Portúgal aldrei það stórveldi sem það var áður. Portúgal missti nokkrar nýlendur, þar á meðal þá stærstu (Brasilíu) og viðskiptaleiðir. Um leið urðu Portúgalar fyrir þungum búsifjum heimafyrir þegar höfuðborgin Lissabon eyðilagðist í gríðarlegum jarðskjálfta árið 1755. Seinna beið Portúgal að vera hernumið í Napóleonsstríðunum. Upp frá því var Portúgal smáveldi í Evrópu, hafði aðeins nokkrar nýlendur í Afríku og Asíu og varð aldrei aftur það efnahagslega stórveldi sem sæfarendur landafundanna höfðu fært þeim.