c

Pistlar:

31. maí 2023 kl. 21:13

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hampiðjan áhugaverð viðbót í kauphöllina

Viðskipti hefjast með hlutabréf Hampiðjunnar á aðallista Nasdaq Iceland nú í næstu viku en Hampiðjan hefur verið skráð á First North markaðinn frá árinu 2007. Nú stendur yfir hlutafjáraukning samhliða því að stjórnendur og eigendur félagsins kynna það fyrir nýjum hluthöfum. Stærð og umfang félagsins ætti að gera það að áhugaverðum fjárfestingakosti en ekki síður tæknistig þess. Segja má að innkoma Hampiðjunnar sýni vaxandi trú sjávarútvegsins á kauphöllinni og vaxandi áhuga fjárfesta á sjávarútvegstengdri starfsemi.hamp

Fyrirhugað er að um 60% af ágóða almenna útboðsins verði nýttur til endurskipulagningar á langtímaskuldum Mørenot og að 40% verði nýtt í fjárfestingar til að nýta samlegðartækifæri tengd kaupunum. 85 milljón nýir hlutir í fé­laginu verða boðnir til sölu í al­mennu út­boði, sem jafn­gildir 13,37% af heildar­hluta­fé eftir hluta­fjár­hækkun.

Al­menna út­boðið skiptist í tvær á­skriftar­bækur. Annars vegar á­skriftar­bók A, þar sem 17 milljón nýir hlutir verða boðnir til sölu á föstu verði 120 kr. á hlut, og hins vegar á­skriftar­bók B, þar sem 68 milljón nýir hlutir verða boðnir til sölu á lág­marks­verði 120 kr. á hlut. Lág­marks­verðið í al­menna út­boðinu, 120 kr. á hlut, jafn­gildir 14% af­slætti á vegið meðal­verð (VWAP) hluta­bréfa Hamp­iðjunnar á First North Iceland síðasta mánuðinn. Gert er ráð fyrir að hlutabréf Hampiðjunnar verði tekin til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallarinnar þann 9. júní næstkomandi.

IFS Greining metur virði hlutafjár Hampiðjunnar 22% yfir 120 króna lágmarksverðinu í yfirstandandi hlutafjárútboði félagsins.

Norsk kaup og væntingar um aukna samlegð

Hampiðjan var stofnuð árið 1934 og er í dag leiðandi alþjóðlegt fyrirtæki í framleiðslu og sölu veiðarfæra, búnaði til fiskeldis og fyrir útsjávariðnaðinn. Félagið er með starfsemi á 21 landsvæði í 51 dótturfyrirtækjum sem hafa alls 76 starfsstöðvar, en þær ná allt frá ysta odda Alaska til suðureyja Nýja-Sjálands.

Á síðasta ári keypti Hampiðjan norska fyrirtækið Mørenot A/S og hafði það töluverða skuldsetningu í för með sér. Fjármagna þarf frekari uppbyggingu og afkastagetu Hampidjan Baltic til að geta sinnt þörf Mørenot fyrir net, kaðla og ofurtóg. Stjórnendur Hampiðjunnar segja mikla stækkunarmöguleika í Litháen.hampur2

Hampiðjan sér fram á mikla samlegð í kaupunum á Mørenot og er gert fyrir að heildartekjur 2027 muni nema um 420 – 440 milljón evrum og EBITDA hlutfall á bilinu 16,5% - 17,5% eftir að tækifæri til samlegðar hafa verið nýtt að mestu. Rekstrarvirði Mørenot var metið á 15,7 milljarða íslenskra króna í viðskiptunum. Seljendurnir eignuðust 9,4% hlut í Hampiðjunni en gengi til Norðmanna var 112 kr. á hlut, sem var þá 20,4 % hærra en gengi hluta­bréf­anna við lok­un markaða á þeim tíma.

Velta samstæðu Hampiðjunnar með Mørenot á síðasta ári nam 333 milljónum evra eða sem svarar 50 milljörðum króna. EBITDA framlegð var um 40 milljónir evra eða 6 milljarðar króna. Framlegð lækkar með kaupum á Mørenot en þar hefur rekstur verið erfiður undanfarin ár en stjórnendur Hampiðjunnar stefna á að ná framlegð upp. Starfsmannafjöldi Hampiðjunnar er í dag um um 1.250 en 750 hjá Mørenot sem leiðir til þess að samanlagður starfsmannafjöldi verður um 2.000 manns í 18 löndum.

Félagið veitir þjónustu og selur vörur til fyrirtækja í sjávarútvegi, fiskeldi og olíuiðnaði. Norska félagið velti 129 milljónum evra í fyrra eða sem nemur 19,2 milljörðum króna miðað við gengi dagsins. EBITDA-hagnaður Mørenot nam 10 milljónum evra eða um 1,5 milljörðum íslenskra króna. Heildareignir Mørenot námu um 181 milljónum evra eða um 27 milljörðum íslenskra króna í árslok 2021 aðlagað að IFRS. Eigið fé félagsins nam um 58,6 milljónum evra eða 8,7 milljörðum króna miðað við núverandi gengi íslensku krónunnar.hamp3

Stærst á heimsvísu

Hampiðjan hefur vaxið mikið á undanförnum árum með samrunum og yfirtökum samhliða sterkum innri vexti. Samkvæmt pro forma upplýsingum fyrir samstæðu Hampiðjunnar og Mørenot árið 2022 hafa rekstrartekjur samstæðunnar tæplega sexfaldast síðan 2013 og EBITDA rúmlega fimmfaldast, sé leiðrétt fyrir einskiptisliðum segir í útboðslýsingu.

Á tímabilinu 2015 til 2022 má rekja um 60% af aukningu í tekjum Hampiðjunnar til ytri vaxtar en 40% til innri vaxtar. Þegar litið er á EBITDA má rekja um 50% af aukningu til ytri vaxtar og 50% til innri vaxtar.

„Hampiðjan hefur verið leiðandi á veiðarfæramarkaði á heimsvísu og félagið talið það stærsta á heimsvísu innan þess geira. Með kaupunum styrkist sú staða umtalsvert og gefur okkur tækifæri til að enn frekari vaxtar,“ sagði Hjörtur Erlendsson forstjóri félagsins. Þrátt fyrir sterka stöðu félagsins er það ekki með nema 16% markaðsstöðu á Norður-Atlantshafi sem stjórnendur félagsins meta sem mikil tækifæri. Þróun framlegðar félagsins sést á eftirfarandi mynd.hamp4

Stoðir félagsins eru fiskveiðar (60%), fiskeldi (30%) og útsjávariðnaður (10%). Stjórnendur félagsins segja að miklir möguleikar felist í að ná fram samlegðaráhrifum með hagræðingu og samþættingu, ásamt því að auka vörusölu á þeim svæðum sem fyrirtækin, hvort um sig, hafa ekki haft góðan aðgang að. Það gildir einu hvort horft er á veiðarfæri, fiskeldisvörur og þjónustu við fiskeldið eða hátæknitóg fyrir olíuiðnað því það sama á við öll þessi svið hvað tækifæri framtíðarinnar varðar.