c

Pistlar:

17. júlí 2023 kl. 21:30

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Porto - borgin og brýrnar

Venjulega er besta veðrið hér í Porto í mars, apríl og maí, sagði leigubílstjóri í Porto við okkur þegar talið barst að ferðamannastraumnum til þessarar vinsælu borgar í norðurhluta Portúgals. Porto nýtur vaxandi vinsælda meðal ferðamanna enda hefur hún upp á margt að bjóða, í miðju Duero vínhéraðsins en samnefnd á rennur einmitt í gegnum bæinn og mótar hann öðru fremur. Áin, en þó ekki síst háir árbakkar hennar, voru helstu faratálmarnir í eina tíð þó að þessi fyrri vandi hafi snúist í ávinning síðar meir og skapað sérkenni borgarinnar og vinsælasta hverfi hennar. Nú þegar fólk þarf að huga betur að hitastigi í ferðum sínum yfir hásumarið þá er gott að hafa kælingu frá Atlantshafinu. Þessa daga sem pistlaskrifari dvaldi í Porto var þægilegur gönguhiti, um 25 gráður og alla jafnan er veðrið þar milt. Á sama tíma var hitinn í Flórens á Ítalíu nálægt 35 til 38 stigum og hefur reyndar hækkað síðan. Hugsanlega þurfa ferðalangar framtíðarinnar að huga betur að þessu þó veður sé síbreytilegt.

Þess má geta að hugbúnaðarfyrirtækið LS Retail, sem var stofnað hér á landi og er undir íslenskri stjórn, rekur í dag þróunarskrifstofu í Porto með um 35 til 40 manns.aðal1

Menningarlegar krossgötur

Porto er á athyglisverðu menningarsvæði, þarna er vagga portúgalska ríkisins, borgin er fyrsta höfuðborg landsins og Porto var og er á krossgötum menningarstrauma Íberíu-skagans. Franska hefur löngum verið fyrsta erlenda tungumál kennt í skólum í Portúgal. Spænska og portúgalska eru lík mál en ekki með öllu einfalt fyrir íbúa þjóðanna að skilja hvorn annan. Stundum er sagt að Portúgalar eigi auðveldara með að skilja spænsku en Spánverjar portúgölsku. Þá eru ólíkar mállýskur í hinum einstöku héruðum landanna. Galisíubúar í norðurhluta Spánar eiga hægara með að skilja portúgölsku en Kastilíubúar í miðju Spánar en það breytir kannski litlu í dag þar sem allir læra ensku rétt eins og á við í samskiptum norðurlandabúa í dag. Á báðum stöðum finnst fólk sem þykir þetta miður sagði tungumálafróður bílstjóri hjá Uber við okkur í Porto. Hann sagði okkur í óspurðum fréttum að hann hefði farið á sínum tíma með Interrail upp til Noregs að elta stúlku en það er önnur saga en segir þó eitthvað um hvað stuðlar öðru fremur að tengslum milli þjóða.porto11

Brúin sem er táknmynd Porto

Porto er eins og áður segir klofin af Duero ánni en norðanmegin er þó gamli bærinn og stærsti hluti byggðarinnar. Á báða bóga eru háir bakkar og ekki einfalt að brúa ánna þess vegna. Upp úr 1870 stóð það Portúgölum fyrir þrifum hve léleg brú var til staðar og að endingu var ráðist í samkeppni um hönnun á nýrri brú yfir hafið sem er tæpir 400 metrar.

Niðurstaðan er fallegt og sögulega mikilvægt mannvirki og eitt helsta tákn Porto. Brúin er kennd við Luis I og er upplýst á kvöldin og tekur þá á sig gulan ljóma, sem gefur henni dramatískan og rómantískan blæ.

Það er auðvelt að hrífast af þessari brú enda er hún sá staður sem oftast er myndaður. Þessi fallega brú var eitt sinn með stærsta járnsboga í heimi, alls 395 metra langan. Þetta er margþætt víravirki, skemmtilega samofið sem sést betur við nánari skoðun. Brúin var hönnuð af belgíska fyrirtækinu Société de Willebroeck, sem fól verkfræðingnum Théophile Seyrig, lærisveini franska verkfræðingsins Gustave Eiffel, verkið. Ætternið kemur ekki á óvart þegar form brúarinnar er skoðað. Brúin var opnuð árið 1886, eftir fimm ára vinnu, en aðeins neðra þilfarið var þá tekið í notkun. Tveimur árum síðar tóku ökutæki að nota efra þilfarið og gerðu það allt til ársins 2003, þegar umferð ökutækja var skipt út fyrir léttlestarkerfi. Í dag er hún fyrst og fremst ætluð gangandi vegfarendum enda má segja að það sé komið talsvert af nýjum og öflugum brúm yfir ána sem sinni þungaflutningum betur.aðal4

Önnur brú og stækkun jarðlestakerfisins

Ofar í ánni var önnur brú byggð árið 2003, nefnd eftir Hinrik sæfara (Henry the Navigator) sem er einmitt fæddur í Porto og opnaði nýja heima á öld landafundanna sem var fjallað um hér. Sú brú er með hreinum línum að hætti nútímans og er með 280 metra boga. Það var óvenjulegt fyrir þá tegund brúa og varð hún einnig að fyrirmynd fyrir margar aðrar brýr sem byggðar voru um allan heim. Brúin hans Hinriks er tuttugu metrar á breidd, með fjórum akreinum, tveimur í hvora átt og tók við umferð sem flutt var frá efra þilfari Luís I brúarinnar eftir að léttlestarkerfið var opnað.

Nú samgöngumál eru til mikillar endurskoðunar í borginni og nú er unnið að stækkun og útvíkkun jarðlestakerfisins og á framkvæmdum að ljúka árið 2025 en víða um miðbæinn má sjá lokanir vegna framkvæmdanna. Nýjar lestarstöðvar og nýjar brautarlínur eiga að auka þjónustuna verulega og ljóst að borgarbúar hafa metnað til að hýsa stóratburði í framtíðinni. Það hefur reyndar tafið framkvæmdir að bergið hefur reynst vera talsvert harðara en gert var ráð fyrir. Það sem átti að ná að bora á viku tekur nú mánuð vegna þessarar fyrirstöðu. En borgaryfirvöld láta ekki deigan síga og ætla að halda áfram með framkvæmdirnar.aðal3

Fjörugur árbakki

Ribeira hverfið eða árbakkinn er án efa líflegasti hluti Porto þegar kemur að veitingastöðum og næturlífi. Upp af hverfinu eru svo kastalaborgir og kirkjur sem teygja sig inn í borgina. Frá Ribeira fara bátar upp og niður ána og þaðan má sjá púrtvínshúsin í Gaia. Þegar litið er upp og niður ána má sjá brýrnar sem tengja árbakkana saman. Alls eru þær sex, hver með sína sögu eins og áður sagði.aðal5

Ein helsta göngu- og verslanagatan er Rua de Santa Catarina. Þar er til siðs að stoppa í kaffi á Majestic Cafe, ekki af því að það sé ódýrt heldur er þetta glæsilegasta kaffihús Porto. Prúðbúinn dyravörður vísar fólki til sætis og þjónar eru stimamjúkir og einkennisklæddir. Ég lét eftir mér að fá mér túnfiskssamloku að hætti hússins. Majestic Cafe opnaði 1922 og í upplýsingariti sem lá frammi um sögu staðarins var minnt á að kaffihús eru í senn samastaðir byltingaforingja, listamanna og fínna frúa. Það á sannarlega við um Majestic Cafe.