c

Pistlar:

11. september 2023 kl. 9:39

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Vindmyllur og fiskeldi - hratt eða hægt?

Margir vilja tímasetja iðnbyltinguna við aldamótin 1800 og að vagga hennar hafi verið í Bretlandi sem náði fyrir vikið efnahagslegri forystu sem endist langt fram 19. öldina. Síðar barst iðnbyltingin til Belgíu, Frakklands og loks Þýskalands. Um 1870 fór Þýskaland að iðnvæðast. Landið var því seint af stað í iðnvæðingu miðað við nágranaríkin í vestri en náði fljótlega forystu á mörgum sviðum iðnaðar svo sem efnaiðnaði og rafiðnaði. Miklu munaði að Þjóðverja gátu lært af mistökum þeirra sem fóru fyrst af stað og sátu ekki uppi með gamlar fjárfestingar þegar breytingar fóru að gerast hratt. Ekki verður allt séð fyrir, þannig höfðu Frakkar lagt gríðarlega áherslu á að byggja samgöngukerfi sitt upp út frá því að skipaskurðir yrðu miðja þess. Það var miklu ódýrara og auðveldara að stunda þungaflutninga á vatni en landi og þetta virtist skynsöm leið. Síðar komu járnbrautalestir til sögunnar, umbyltu forsendunum og buðu upp á bestu lausnina þar til bíllinn kom fram á sjónarsviðið og tók að þjóna styttri vegalengdum í flutningum.aðalv

Betra að fara sér hægt

Það er ekki endilega víst að þessi lögmál eigi við í samkeppnisþjóðfélögum nútímans þar sem hraði breytinganna verður alltaf meiri og meiri. Stundum er þó betra að fara sér hægt og að læra um leið af mistökum annarra. Iðnbyltingin kom hingað til Íslands einni og hálfri öld á eftir því sem var hjá Bretum en stundum var mesta glíman við að breyta hugarfarinu. En það getur verið ávinningur að vera á eftir eins og Þjóðverjar kynntust á sínum tíma.

Á tveimur sviðum gætum við Íslendingar notið þess að fara okkur hægt og læra af mistökum nágranna okkar. Það er annars vegar þegar kemur að fiskeldi í sjó og í rekstri fiskeldis og hins vegar þegar kemur að uppsetningu og rekstri vindmylla. Við höfum séð að margar nágrannaþjóðir okkar hafa stundað slíkan rekstur í allnokkurn tíma og nú gæti virst skynsamlegt er að læra af þeim en mörg mistök hafa verið gerð þar.

Ef rétt er að málum staðið getur fiskeldi verið okkur drjúg búbót og er það nú þegar. Fiskeldi er ekki ný atvinnugrein en hefur aldrei verið stunduð í stórum stíl við strendur landsins fyrr en núna. Nú er hins vegar svo komið að eðlilegt er að staldra við og meta stöðuna í fiskeldi, jafnvel setjast niður og ræða það sem hefur þegar átt sér stað og velta fyrir sér hvernig við viljum hafa framhaldið. Ráðamenn í ferðaþjónustunni játa núna að það reyndist að mörgu leyti farsælt að hægja á þróuninni og fjölda ferðmanna eins og varð raunin vegna gjaldþrots WOW og covid-farsóttarinnar þó enginn hafi kallað eftir þessum áhrifaþáttum. Þessi tvö eða þrjú ár sem slakaði á spennunni reyndust mörgum erfið en gerðu kleyft að endurskipuleggja og endurbæta margt í þjónustu við ferðamenn.aðalv

Vindmyllur á röskuðum svæðum

Það sama gæti átt við um vindmyllur en Ísland er eina landið hér á norðurhveli sem ekki hefur ráðist í mikla uppbyggingu á vindmyllum nú þegar. Reyndar eru aðeins tvær í rekstri uppi á Hafinu fyrir ofan Búrfellsvirkjun. Vindmyllur hafa umtalsverð sjónræn áhrif og enn eru menn að átta sig á og skilja tilvist þeirra. Einnig þarf að skilja hvernig rekstur þeirra hentar inn í núverandi orkuöflunarkerfi Íslendinga. Því gæti virst skynsamlegt að fara sér hægt og setja einungis upp vindmyllur á svæðum sem þegar hefur verið raskað, svo sem á áðurnefndu Hafi við Búrfellsvirkjun og hugsanlega við Blönduvirkjun. Vindmyllur þar gætu þá tengst við dreifikerfi sem þegar er til staðar og að hluta til orðið hluti af mannvirkjum á röskuðum stað. Einnig mætti sjá fyrir sér að setja vindmyllur upp á svæðum þar sem nú þegar er til staðar mikill iðnaður, svo sem við áberandi hafnir og stóriðjuver.

Það er ekkert sem rekur á eftir því að fara að dreifa vindmyllum um landið þó að önnur orkuöflun liggi í láginni en þessir valkostir sem hér hafa verið nefndir bjóða þó upp á nokkra möguleika.