c

Pistlar:

21. janúar 2024 kl. 18:30

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Minni tilfinningar - meiri skynsemi?

Hugsanlega hrökkva margir við þegar hlutirnir eru orðaðir með þessum hætti. Við erum vön því að tilfinningar og þá sérstaklega samúð, það að finna til með öðrum, sé gott og göfugt og að þannig beri að nálgast úrlausnarefni samfélagsins. En er það svo einfalt? Er það ekki svo, að miklar tilfinningar og samúð getur verið ýmsum takmörkunum háð? Jafnvel fengið okkur til að hugsa órökrétt og taka óskynsamar ákvarðanir sem gera hlutina jafnvel verri en ella?samkend

Alla jafnan finnum við mest til með þeim sem standa okkur næst. Ástvinir, vinir, nágrannar eða jafnvel samlandar okkar, það er fólkið sem við í flestum tilvikum tengjumst og eigum auðvelt með að finna til samkenndar með. Je suis Charlie, sögðu Frakkar eftir skotárásina á skopblaðið Charlie Hebdo árið 2015. Þannig tókust þeir á við þá sorg að slík hryðjuverk skyldu eiga sér stað í þeirra fallegu höfuðborg. Eitthvað sem Frakkar töldu fráleitt fram að því. Þótt blaðamenn Charlie Hebdo gengju oftar en ekki fram af fólki var almennt talið að rétturinn til að hneyksla væri einnig mikilvægur fyrir tjáningarfrelsið.

Það gerist öðru hvoru að samúð nýtist við að þjappa saman fólki eins og við sjáum núna vegna ástandsins í Grindvík. Hafin er söfnun til handa Grindvíkingum meðal almennings, sem er kannski fremur táknræn en annað, vegna þess að við ætlumst til þess að tryggingar og ríkissjóður borgi hið raunverulega tjón. Um leið verðum við örlítið meir í hjartanu þegar við sjáum að Færeyinga hafa hafið söfnun fyrir Grindvíkinga. Við svörum með því að kalla þá frændur okkar og við minnumst með hlýhug rausnarskapar þeirra frá fyrri tíð.

Hollt að þjást sagði prófessorinn

Færeyingar hafa oft staðið með okkur Íslendingum, hvort sem það er vegna náttúruhamfara eða bankahruns. Aðrar frændþjóðir okkar sýndu okkur meira kaldlyndi í bankahruninu. Þáverandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, sagði meira að segja sögur af því hvernig leiðtogar Norðurlandanna töluðu niður til okkar í fínum boðum í bók sinni, Sögur handa Kára. Það var umhugsunarvert að Noregskonungur sýndi, að sögn Ólafs Ragnars, Íslendingum meiri hluttekningu en hinir lýðræðislega kjörnu fulltrúar. Annar stjórnálafræðingur, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, rakti mörg tilvik í skýrslu sinni til fjármálaráðherra hvernig fjármálamenn þessara frændþjóða okkar nýttu sér veika stöðu íslenskra fyrirtækja og nutu þá gjarnan tilstyrks hins heimatilbúna kerfis. Þá fundu menn að engin er annars bróðir í leik, þegar kemur að peningum og fjármálakerfinu.

Hér heima voru til menntamenn sem vildu þjáningu og yfirbót eftir bankahrunið. Í umræðuþættinum Silfur Egils sagði Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri, að það væri beinlínis hollt fyrir íslenskan almenning að bera Icesave-byrðarnar! „Það er siðferðilega hollt fyrir íslenska þjóð að taka á sig Icesave skuldbindingarnar. Þar með tekur almenningur þátt í því að þrífa til eftir hrunið og leggja drög að nýrri uppbyggingu. Þar með er einnig tryggt að þjóðin gleymir ekki því sem gerðist, að minnsta kosti ekki á meðan hún ber byrðarnar af því,“ sagði heimspekiprófessorinn. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson benti þá á að tækju Íslendingar á sig þessar skuldbindingar yrði óhjákvæmilegt að skera mikið niður í ríkisrekstrinum og þá fækka störfum eins og þeim sem Guðmundur Heiðar gegndi.samk2

Efasemdir um samkennd

Margir okkar gáfuðustu stjórnmálamanna, vísindamanna, aktívista og heimspekingar virðast telja að eina vandamálið við samkennd (e. empaty, sumir vilja nota orðið samhygð) sé að við höfum ekki nóg af henni.

Ekkert er fjarri því, segir Paul Bloom, heimspekingur og prófessor í sálfræði við Yale háskólann, þar sem hann stundar rannsóknir sínar. Í bók sinni, Gegn samhygð (Against Empathy: The Case for Rational Compassion) sem kom út árið 2016 segir Bloom að samhygð sé ein helsta ástæða fyrir ójöfnuði og siðleysi í samfélaginu. Hann kýs því minni tilfinningar og meiri skynsemi. Við höldum oft að það, að geta fundið til með öðrum sé hástig góðmennskunnar en Bloom segir að í raun sé samkennd langt frá því að hjálpa okkur að bæta líf annarra. Þvert á móti sé samkennd duttlungafull og óskynsamleg tilfinning sem höfðar til þröngra fordóma okkar. Hún trufli dómgreind og leiðir oft til grimmdar sem verður að teljast heldur kaldhæðnisleg niðurstaða. Það er því fólki fyrir bestu að treysta ekki um of á slíkar tilfinningar heldur styðja sig frekar við almenna skynsemi. Hann bendir á að illvirki séu ekki framin af skynsemi en þess oftar af blindum ástríðum eða öfgafullum tilfinningum. „Hugsaðu um ofbeldi, hryðjuverk, svik og annað slíkt. Á bak við þessi verk voru ekki skynsamlegar ástæður heldur tilfinningar,“ segir Bloom.

Niðurstaða Bloom er sú að samkennd geri okkur ekki endilega að betra fólki. Hún feli í sér að athyglin beinist að ákveðnu fólki hér og nú. Þetta gerir það að verkum að okkur þykir meira vænt um þá sem eru í kastljósinu hverju sinni. Um leið gerir það okkur ónæm fyrir langtímaafleiðingum gjörða okkar og blindar sýn okkar á þjáningu þeirra sem við höfum ekki eða getum ekki fundið samúð með einhverra hluta vegna. Auðvitað er kenningaheimur Bloom dýpri en svo að honum verði gerð skil í einni stuttri grein eins og þessari og að sjálfsögðu er hann ekki gegn mannúð og samkennd. Í umfjöllun breska dagblaðsins Guardian um bók Bloom var bent á að þetta væri svolítið eins og að vera á móti kettlingum, nú eða börnum að mótmæla eins og hjálögð mynd úr miðbæ Reykjavíkur sýnir. En Bloom syndir í það minnsta gegn straumnum eins og sannur fræðimaður á að gera.pale3

Eykur hlutdrægni

„Samkennd er hlutdræg og ýtir okkur í átt að þjóðernishyggju og kynþáttafordómum. Hún tekur þann eina fram yfir marga. Það getur kveikt ofbeldi; Samúð okkar með þeim sem eru okkur nákomnir er öflugt afl til stríðs og grimmdarverka í garð annarra. Það þreytir andann og getur dregið úr krafti góðvildar og kærleika,“ segir Bloom.

Með þessari röksemdafærslu telur Bloom sig geta fært sannfærandi rök fyrir því að sumar verstu ákvarðanir sem teknar eru af einstaklingum og þjóðum. Eins og til dæmis það hverjum eigi að gefa peninga, hvenær eigi að fara í stríð, hvernig eigi að bregðast við loftslagsbreytingum og hverja eigi að fangelsa, séu of oft knúnar áfram af heiðarlegum en samt röngum tilfinningum. Með nákvæmni og vitsmuni sýnir hann fram á hvernig samkennd brenglar dómgreind okkar á öllum sviðum lífsins allt frá góðgerðarstarfsemi og kærleika til réttarkerfisins, læknishjálpar og menntunar og til uppeldis og hjónabands. Án samkenndar, fullyrðir Bloom, yrðu ákvarðanir okkar skýrari, sanngjarnari og, já - að lokum siðferðilegri.

Við höfum kannski ágæt dæmi um hvernig þessi tilfinningasama samkennd blindar fólki sýn. Er til dæmis ekki umhugsunarefni hvernig samkynhneigt fólk getur fylkt sér að baki málstað Hamas í ljósi þess hve skelfilega er farið með samkynhneigða á Gaza undir stjórn Hamas? Og um leið að mótmæla ísraelsku þjóðfélagi sem er þrátt fyrir allt eina örugga skjól samkynhneigða í Mið-austurlöndum.

Þetta dæmi úr nútímanum minnir á leikritið „Biedermann og brennuvargarnir“ eftir svissneska
rithöfundinn Max Frich sem var skrifað eftir seinni heimsstyrjöldina. Þar skýtur broddborgarinn Biedermann í góðmennsku sinni skjólshúsi yfir tvo menn sem viðurkenna strax fyrir honum að þeir eru brennuvargar. Hann veit að hverju stefnir en í vandræðalegri góðmennsku sinni kýs hann að gera ekki neitt og að endingu lætur hann brennuvörgunum í té eldspítur og hús hans brennur til grunna. Það þarf ekki mikla bókmenntaþekkingu til að skilja táknfræði sögunnar.