Breyttur og betri brautryðjandi

Breyttur og betri brautryðjandi
Breyttur og betri brautryðjandi

Toyota RAV4 fagnar 25 ára afmæli á þessu ári, en bíllinn markaði þáttaskil er hann kom á götuna 1994 og ruddi brautina fyrir jepplinga og smærri jeppa framtíðarinnar. Þar var kominn íverugóður hálfjeppi á undirvagni fyrir fólksbíl, fær í margan sjó og ekki að furða að hann hefur eignast margan vininn á Íslandi. Það segir líka sitt um ágæti RAV4, að frá 1994 hafa 8,5 milljónir eintaka af honum komið á götuna, þar af 810.953 stykki árið 2017. Lukka hans hefur verið sígandi.

Stífari með lægri þyngdarpunkt

Nú er fimmta kynslóð bílsins að koma til sögunnar og stigin eru skref til enn frekari ferðaþæginda í RAV4 með því að byggja hann upp af nýjum undirvagni, svonefndum TNGA, sem einnig Prius hvílir á. Með tilkomu hans hefur tekist að lækka þyngdarpunkt bílsins en samt sem áður hefur hæð undir lægsta punkt verið aukin um 1,5 sentímetra í 19. Með nýjum framtíðar undirvagni hefur tekist að smíða 57% stífari yfirbyggingu en það ásamt lægri þyngdarpunkti hefur bætt aksturseiginleikana til muna, að sögn Toyota. Öxulhafið hefur aukist en við það stækkaði innanrýmið á lengd og breidd og þar með fótarými. Fer til að mynda vel um nær tveggja metra mann í aftursætum.

Nýr RAV4 er hrjúfur að sjá en áður og jeppalegri. Og mun skera sig úr í hinni hörðu samkeppni í jeppa og fjórhóladrifsbíla. Með svipmót öflugs utanvegabíls, háreistur og hóflega langur. Aksturseiginleikarnir dágóðir svo sem vænta mátti af nýjum bíl sem stöðugt er reynt að gera betri. Á heildina litið virkar RAV4 fyrirsjáanlegur í meðförum og tryggur ökumanni, stefnufastur og skilvirkur í stýrum. Hann er ríkulega búinn hjálpar- og öryggisbúnaði eins og vænta mátti af nýjum fjölskyldubíl nú til dags. Meðal nýjunga eru öryggiskerfi sem greina fótgangandi fólk og hjólandi með góðum fyrirvara í myrkri.

Þróttmikill með tvíaflrás

Segja má að endurkoma hins magnaða tvinnjeppa sé rafmögnuð því nú verða allar útgáfur af RAV4 með 2,5 lítra vélinni búnar tvíaflsrás (hybrid). Með 222 hestöfl til brúks og 5,6 lítra bensíneyðslu á hundraðið á hann eflaust eftir að freista margra.

Með sína ríkulegu reynslu af tvinntækninni var Toyota einna fyrstur bílsmiða til að búa jeppa slíkri aflrás, en hún kom til sögunnar í fjórðu kynslóð RAV4; þeirri sem nýi bíllinn leysir af hólmi. Dísilútgáfa þess bíls seldist miklu mun verr en bensínbíllinn og því hefur Toyota ákveðið að bjóða nú einungis bensínvélar í aflrás hins nýja RAV4 tvinnbíl.

Eins og litli bróðirinn C-HR skartar hann áræðnum stíl, sýnist kraftalegur og harður í horn að taka, með vígalegt andlit sem lætur engan ósnortinn. Trýnið eins og stórskorinn gríma japansks Kabuki-þjóðdansara. Hönnunin frekar köntuð og hálf beinaber. Tímanna tákn má segja og notalegt. Innanrýmið er ekki eins stórbrotið en mjög stórt og hentugt engu að síður. Þar trónir aðgerðaskjár af skarplega hugsaðri staðsetningu uppi á hvalbaknum sem er viturlegra og betra fyrir bílstjórann en niður undir miðstokknum.

Undir vélarhúddinu er að finna 2,5 lítra bensínvél, í grunninn þá sömu og í fjórðu kynslóðinni en betrumbætt til aukins afls og meiri sparneyslu samtímis. Þar má sérstaklega nefna tvöfalda bensíninnspýtingu, beina og óbeina, þrýstingsmeiri og viðnámsminni sem býður upp á hagstæðari bruna. Allt leiðir þetta til 222 hestafla vélarkrafts frá fjórhjóladrifna bílnum og 218 frá framdrifsútgáfunni. Við það bætast afköst rafmótoranna sjálfhlöðnu, 6,5 amperstundir.

Vélin lætur lítið fyrir sér fara

Sjálfskiptingin dreifir átakinu jafnt og þétt til öxlanna. Því flæðir jeppinn ljúflega fram, nánast ofurmjúkt og afslappandi í þéttbýli. Þar kemur sér vel að geta ekið á rafmótorunum einum lengri og lengri spotta í senn. Á litlum hraða er aksturinn þá hljóðlaus. Ef þörf kallar eða geymirinn er að tæmast grípur bensínvélin öruggt og ákveðið inn í, hávaðalítið. Lætur hún lítið í sér heyra nema skipta þurfi um akrein eða klifra bratta sem kallar á aukna inngjöf og hraðari vélarsnúning. Því fylgdi meiri innri hávaði, en það var bara spurning um nokkrar sekúndur áður en allt féll í ljúfa löð aftur.

Átta hraða sjálfskiptingunni má líka stjórna handvirkt með blöðkum á stýrishjóli. Með svonefndum Dynamic Torque Vectoring-búnaði má færa allt að 50% torksins aftur í bílinn og einnig milli hliða. Þessi tæknibúnaður hefur verið forstilltur fyrir þrenns konar aðstæður, sand og for, aur og grjót og snjó. Með hnappi má sérstilla fjöðrunina fyrir utanvegarakstur, og ætti þessi bíll að henta til dæmis til ferða á hálendi Íslands. Þar kemur fjórhjóladrifið að góðu gagni, en það er einnig þeirrar náttúru að slökkva á sér við jafnan og venjulegan akstur í þéttbýli og á þjóðvegum úti; þá virkjar hún aðeins framhjólin.

Fjöðrun sem étur upp malarstíga

Að þessu sögðu má við bæta, að dempararnir séu tillitssamir, nærgætnir, svo vel fer fjöðrunin með ökumann og farþega. Sagði það til sín er ekið var um krókótta og afar mishæðótta malarstíga upp og niður fjöll að baki Barcelona. Hinn nýi undirvagn RAV4 er minni hlunkur en áður og lagt sitt af mörkum til þægilegrar íveru. Óhætt er að segja, að hinn nýi Toyota DRV4 er að getu og færni utanvegar orðinn valkostur við miklu dýrari jeppa.

Hvað með eldsneytið? RAV4 eyðir alltaf meira en t.d. Prius. Og maður verður eflaust að vanda sig skrambi vel við aksturinn eigi vélin að súpa undir mörkum. Þau eru uppgefin 7,5 lítrar á hundraðið innanbæjar og 4,5 lítrar utan þéttbýlis. Það verður að teljast ansi hófleg neysla af stórum bíl með rúmlega 200 hestafla vél.

RAV4 fer vel með ökumann og farþega, eins og ætlast var til afhönnuðum hans. Upphituð framsætin góð og stillanleg á ýmsa vegu. Til marks um íveruþægindi þá stóð ég óþreyttur upp úr bílnum eftir daglangan akstur á hraðbrautum og í sveitum upp og vestur af Barcelona á Spáni á dögunum; sat á heilum rassi daginn út í gegn.

Aðgengilegur og alhliða

RAV4 markaði þáttaskil 1992. Þá var allt í einu kominn bíll þar sem hvorki þurfti að klifra af áreynslu upp í sætin eins og á mörgum jeppanum né láta sig síga niður í þau. Á hæðina voru sæti brautryðjandans mitt á milli framangreindra bílgerða og með einfaldri hliðarfærslu sitjandans voru ökumenn og farþegar sestir. Án áreynslu fyrir veikburða hné og máttskertra fótleggi. Þessi kostur hefur verið mikill styrkleiki RAV4 frá upphafi og komið bæði öldnum sem ungum vel.

Eins og fyrri útgáfa af RAV4 er hinum nýja alhliða sportjeppa ætlað að höfða m.a. til þeirra sem eru mikið á ferðinni í þéttbýli eða aka um rólega, oft á rafmagni einvörðungu og njóta mjúkrar meðferðar. Vera má að þeir sem ætíð eru að flýta sér eða fara um hraðbrautir verði fyrir vonbrigðum vegna háværs vélarhljóðs og talsverðrar bensínnotkunar þegar takturinn er aukinn. Sem ætti þó tæpast að vera vandamál á Íslandi þar sem hámarkshraði er lágur vegna lélegra vega.

Sé spurt fyrir hverja RAV4 sé er svarið einfalt. Útlitið er aðlaðandi og við nánari kynni höfðar hann til marga. Rúmgóður fjölskyldubíll fyrir útivistarfólk, gagnlegri en forverinn vegna stækkunar innanrýmis og 580 lítra farangursgeymslu. Kjörinn til að draga til sín nýja kaupendur, sem Toyota hefur sett sér sem takmark auk þess að „hætta að smíða leiðinlega bíla“, eins og forstjórinn sagði. Gef honum ríflega fjórar stjörnur af fimm. Sé fyrir mér að hollvinir bílsins streymi í Garðabæinn og setji sinn gamla RAV4 upp í nýjan.

Ágúst Ásgeirsson

Toyota RAV4

»4 strokka 2,5 lítra bensínvél og rafmótor

»222 hestöfl, 163 kW

»221 Nm v/3600-5020 snúninga

»269 sm öxulhaf

»Frá 0-100 km/klst á 8,1 sek.

»180 km/klst hámarkshraði

»Fram- eða fjórhjóladrifinn eftir útfærslu.

»Eigin þyngd: 1.650 kg

»Farangursrými: 580 l

»Mengunargildi: 103 g/km

»Eyðsla: 4,5 l/100 utanbæjar

»Verð: 5,9 til 7 milljónir eftir útfærslu

Rúmgott er í aftursætum RAV4 svo sem ráða má af …
Rúmgott er í aftursætum RAV4 svo sem ráða má af því að maðurinn á myndinni er 1,93 metrar á hæð. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Sérstakur öryggisbúnaður greinir hjólreiðamenn og gangandi í myrkri með góðum …
Sérstakur öryggisbúnaður greinir hjólreiðamenn og gangandi í myrkri með góðum fyrirvara.
Tilkoma hins nýja RAV4 er rafmögnuð. Tígullegur á vegi, nytsamlegur. …
Tilkoma hins nýja RAV4 er rafmögnuð. Tígullegur á vegi, nytsamlegur. Einkar álitlegur pakki, öflugur að sjá og keyra. Vel fer um ökumann sem farþega í stærra innanrými en áður.
Dýnamískur RAV4 og liggur vel á öllum vegum með lækkuðum …
Dýnamískur RAV4 og liggur vel á öllum vegum með lækkuðum þyngdarpunkti.
Þægilegur stjórnklefi. Allir hnappar og öll ltól innan seilingar. Á …
Þægilegur stjórnklefi. Allir hnappar og öll ltól innan seilingar. Á sætum býðst annars vegar leðuráklæði eða úr taui. Snertiskjárinn gagnast betur uppi á mælaborðinu.
Sjálfskiptingunni má handstýra við krefjandi aðstæður.
Sjálfskiptingunni má handstýra við krefjandi aðstæður.
Slóðir sem þessar afgreiddi nýi RAV4 létt og vel. Spólaði …
Slóðir sem þessar afgreiddi nýi RAV4 létt og vel. Spólaði hvorki né tók niðri. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Glerlistaverk er það fyrsta sem kemur up í kolli við …
Glerlistaverk er það fyrsta sem kemur up í kolli við að skoða díóðuljósin framan og aftan á RAV4. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Vegirnir í grennd við Barcelona voru eiginlega of góðir. Fátt …
Vegirnir í grennd við Barcelona voru eiginlega of góðir. Fátt um tækifæri til að láta reyna vel á kosti hins nýja Toyota RAV4.
Toyota RAV4 á malarastígum í trjágljlúfri í grennd Barcelona.
Toyota RAV4 á malarastígum í trjágljlúfri í grennd Barcelona.
Trjóna RAV4 er gjörbreytt og grípandi. Minnir óþyrmilega á dansgrímu …
Trjóna RAV4 er gjörbreytt og grípandi. Minnir óþyrmilega á dansgrímu japansks Kabuki þjóðdansara. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Í ferðinni var heilsað upp á fulltrúa þeirrar kynslóðr RAV4 …
Í ferðinni var heilsað upp á fulltrúa þeirrar kynslóðr RAV4 sem nýi bíllin (t.h.) leysir af hólmi. Afar ólíkar eru trjónur þeirra.
Toyota RAV4 er þægilegur til ferða í þéttbýli eins og …
Toyota RAV4 er þægilegur til ferða í þéttbýli eins og hér í Barcelona. Liggi ekkert á má þá eiga hljóðláta stund með akstri fyrir afli rafmótoranna einna.
Hinn nýi Toyota DRV4 er að getu og færni utanvegar …
Hinn nýi Toyota DRV4 er að getu og færni utanvegar orðinn valkostur við miklu dýrari jeppa. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Toyota RAV4 telst ekki til stórra jeppa þar sem sætin …
Toyota RAV4 telst ekki til stórra jeppa þar sem sætin eru einungis fimm mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Lítill munur en engu að síður var RAV4 með drifi …
Lítill munur en engu að síður var RAV4 með drifi á öllum hjólum þýðari við ökumann og markvissari í beygjum. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Hönnun hins nýja RAV4 er kraftmeiri og meitlaðri en á …
Hönnun hins nýja RAV4 er kraftmeiri og meitlaðri en á forveranum. Rétt eins og höggmyndasmiður hafi farið höndum sínum um hann. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Brattir stuðararnir eru ekki kjötmiklir. Heldur er og vinnukonan á …
Brattir stuðararnir eru ekki kjötmiklir. Heldur er og vinnukonan á afturrúðunni óburðug. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Skrikvörn og annar hjálparbúnaður er einkar gagnlegur á lausmalarvegum.
Skrikvörn og annar hjálparbúnaður er einkar gagnlegur á lausmalarvegum.
Aflögð kirkja var brúkuð til að kynna nýja Toyota RAV4 …
Aflögð kirkja var brúkuð til að kynna nýja Toyota RAV4 tvinnbílinn. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Ekki er lengur um venjulegan baksýnisspegil að ræða á RAV4. …
Ekki er lengur um venjulegan baksýnisspegil að ræða á RAV4. Í staðinn er kominn lítill skjá sem tengdur er myndavél. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Hinn nýi Toyota RAV4 tvinnbíll á ferð í baklandi Barcelona.
Hinn nýi Toyota RAV4 tvinnbíll á ferð í baklandi Barcelona.
Hinn nýi Toyota RAV4 tvinnbíll á ferð í baklandi Barcelona.
Hinn nýi Toyota RAV4 tvinnbíll á ferð í baklandi Barcelona.
Hinn nýi Toyota RAV4 tvinnbíll á ferð í baklandi Barcelona.
Hinn nýi Toyota RAV4 tvinnbíll á ferð í baklandi Barcelona.
Hinn nýi Toyota RAV4 tvinnbíll á ferð í baklandi Barcelona.
Hinn nýi Toyota RAV4 tvinnbíll á ferð í baklandi Barcelona.
Vélin í hinum nýja Toyota RAV4 tvinnbíll kynnt á blaðamannafundi.
Vélin í hinum nýja Toyota RAV4 tvinnbíll kynnt á blaðamannafundi.
Farangursrýmið er 580 lítra og stækkar til muna séu aftursætin lögðð niður..
Hinn nýi RAV4 tvinnbíll var kynntur inni á veitingastað í …
Hinn nýi RAV4 tvinnbíll var kynntur inni á veitingastað í baksveitum Barcelona. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: