„Besti bíll sem ég hef ekið“

Polestar 2. Vel hannaður og ótrúlega skemmtilegur bíll. Léttur, lipur …
Polestar 2. Vel hannaður og ótrúlega skemmtilegur bíll. Léttur, lipur og hraður en á sama tíma yfirvegaður og tignarlegur. Eggert Jóhannesson

Góðir bílar hafa sterka áferð, sterkan svip og eru sveipaðir áru einhverrar skýrrar hugmyndafræði. Góðir bílar þurfa að vera hannaðir af fólki sem hafði skýra stefnu, skýra sýn um hver útkoman ætti að vera. Góðir bílar vekja tilfinningar og hugrenningatengsl sem láta mann iða í framsætinu og nánast ofanda af spenningi og hugsun. Það sem góðir bílar hafa og lélegir bílar hafa ekki er meining, skilaboð, áferð og sterkur blær.

Polestar 2 hefur alla þessa hluti og því góður bíll.

Ég er þannig þenkjandi að því sterkari hugmyndafræði sem er á bak við bíl því betri er hann. Það er svo mikil meining í þessum nýja Polestar, svo mikil úthugsun og hönnunargredda að ég varð eiginlega skotinn í bílnum og fékk hann á heilann. Ég gúglaði, horfði á myndbönd, las greinar, hlustaði á viðtöl, skannaði Wikipediu, skoðaði myndir. Um leið og ég fékk að prófa bílinn tóku skilningarvitin við og ég snerti, skoðaði, hugsaði. Þegar sást ekki til mín þá þefaði ég af bílnum. Ég er ekki að grínast. Ég lagði nefið upp að stýrinu, upp að áklæðinu, upp að mælaborðinu og þefaði af öllum krafti. Ég var eins og vitfirringur. Hefði ég leyft mér að tapa sjálfum mér alveg hefði ég örugglega endað á því að bragða á bílnum, en svo langt gekk ég sem betur fer ekki.

Bílbeltin eru sportleg og ríma við bremsuklossana. Gulu beltin eru …
Bílbeltin eru sportleg og ríma við bremsuklossana. Gulu beltin eru þó aðeins í dýrari sporttýpunni Eggert Jóhannesson

Einlægur mínimalismi

Það sem kjarnar best hugmyndafræðina á bak við Polestar er naumhyggja. Skerandi, kaldur, sann-norrænn mínimalismi. Ekki sami mínimalisminn og í Teslu til dæmis. Bandaríkjamaður hannaði Teslu en Svíi hannaði Polestar, það er reginmunur þar á. Mínimalisminn hjá Polestar er einlægur, hreinn og sannur. Og út á við er Polestar mjög einlæglega mínimalískt merki. Fyrst þegar ég fletti Polestar upp á YouTube smellti ég á viðtal og hlustaði á einhvern úr hönnunardeild fyrirtækisins útskýra sitt „prósess“, sitt „ritúal“ þegar hann hannar bíla. Hann var með sítt svart hár, latneskt yfirbragð, hafði stóra hringi á fingrum, klæddur í svört föt frá toppi til táar og bar sig eins og níhilískur þungarokkari. Honum var tíðrætt um „design language“ og notaði orð eins og „flush“, „manifesto“ og „sculpture“. Ég var dáleiddur. Þessi maður hafði skýra sýn.

Til þess að skilja Polestar þarf maður að skilja framkvæmdastjóra Polestar. Thomas Ingenlath er sænskur hönnuður sem hannaði Volvo í áratugi og leiddi sumpart nútímavæðingu Volvo og innreið merkisins inn á lúxusjeppamarkaðinn. Framkvæmdastjóri Polestar er því hönnuður, ekki bissnessmaður. Hjá Polestar snýst allt um áferðina, lúkkið og sýnina. Verkfræðin, krafturinn, hagkvæmnin og þægindin eru líka til staðar, eins og ég rek á eftir, en það eftirminnilegasta við Polestar 2 er án efa hönnunin og áferðin. Hún er því sem næst fullkomin.

Handan efnisheimsins

En þá að bílnum. Polestar 2 er eins og nafnið gefur til kynna önnur útgáfa þessa nýja sænska merkis. Polestar sem bílaframleiðandi er eiginlega að öllu leyti afsprengi Volvo og ber þess merki. Áður hannaði Polestar aukahluti í bíla og fór fyrir kappakstursliðum í Svíþjóð. Árið 2015 keypti Volvo Polestar og lagði grunn að því að bílaframleiðsla Polestar gæti hafist. Polestar 1 kom út árið 2017 og var flottur en dýr. Hann kom ekki út á Íslandi og ég þekki engan sem hefur prófað hann. Polestar 2 er ódýrari, hentar betur fyrir íslenskan markað og ég hef prófað hann. Og ég fullyrði: Þetta er besti bíll sem ég hef ekið.

GPS-kerfið er fyrir aftan stýrið. Ótrúlega flott og þægileg
GPS-kerfið er fyrir aftan stýrið. Ótrúlega flott og þægileg Eggert Jóhannesson

Ég hef ekið hraðskreiðari bílum, dýrari bílum og tæknilega betri bílum. En enginn þeirra vakti hjá mér sömu tilfinningar og Polestar 2. Að aka þessum bíl er hreinn unaður. Hröðunin er mikil eins og búast má við í rafknúnum sportbíl, en ekki svo mikil að hún verður að óyfirveguðu karaktereinkenni alls bílsins. Í beygjum er hann kattliðugur og á einhvern hátt svo þéttur og þjappaður. Verkfræðingarnir hjá Polestar eru augljóslega fluggáfaðir þó að þeim sé ekki flaggað í markaðsefni framleiðandans eins og síðhærða níhilistanum.

Ég fékk ekki einu sinni að prófa dýrari útgáfuna af Polestar 2, sem á að vera enn betra að aka, en ég var þrátt fyrir það algjörlega í skýjunum. Mér leið eins og ég væri að fljúga litlu og nettu geimskipi í gegnum loftsteinager á flótta undan óvinveittum geimverum í vísindaskáldsögu. Ég skaust um göturnar í gamla Vesturbænum, þar sem beygjurnar og hæðamismunurinn gera manni kleift að ímynda sér í andartak að keyrt sé um hlykkjótta fjallvegi í svissnesku ölpunum. Aðskilnaðurinn að reynsluakstrinum loknum var þungbær og ekki bætti úr skák þegar ég settist inn í fjórtán ára gamla ryðskrjóðin minn og keyrði heim með tárin í augunum.

Það sem upp úr stóð við aksturinn var klárlega stýringin. Þvílík lipurð. Kannski var bíllinn bara svo ómótstæðilega heillandi að mér bara sýndist sem svo að það væri gott að aka honum. En ég ætla að leyfa mér frekar að trúa því að það hafi raunverulega bara verið svona gott að keyra hann.

Ég leið um göturnar eins og draugur, eins og bæði ég og bíllinn værum ekki lengur hluti hins efnislega heims. Bíllinn og loftið voru eitt. Polestar og ískalt, hvíta, stingandi, norræna vetrarloftið voru eitt. Mér leið eins og ég væri að leika í einhverri rækilega súrrealískri rakspíraauglýsingu á móti Tildu Swinton.

Gírstöngin er smekkleg og það er gott að klikka á …
Gírstöngin er smekkleg og það er gott að klikka á milli gíra Eggert Jóhannesson

Hönnun: 11/10

Ég sagði áðan að það sem skilur á milli gæða og ekki-gæða sé hugmyndafræði, skýr sýn, meining og skilaboð. Bílar sem hafa það eru góðir og bílar sem hafa þetta ekki eru lélegir. Góðir bílar eru líka þéttir. Lélegir bílar eru óþéttir, holir og þurrir. Polestar er þéttur og samanþjappaður. Þess vegna er hljóðið þegar hurðum bílsins er lokað þétt og dempað. Hljóðið sem kemur þegar stefnuljós er gefið er þétt, dempað og vel hannað. Smáatriðin verða að aðalatriðum. Einnig klikkar gírstöngin mjög vel þegar maður setur í bakkgír og maður vill helst ekki gera annað en skipta um gír.

Ég þreyttist heldur ekki á þeirri upplifun að ganga að bílnum, sjá ljósin kvikna er ég gekk upp að honum og heyra og finna bílinn aflæsast á sömu millisekúndu og ég tók í húninn. Guðdómlega óröskuð og saumlaus upplifun.

Þakið er úr gleri og gerir bílinn léttan og nútímalegan.
Þakið er úr gleri og gerir bílinn léttan og nútímalegan. Eggert Jóhannesson

Og allur bíllinn var svona. Þegar ég opnaði skottið vildi ég helst loka því strax bara til þess að opna það aftur. Að spenna bílbeltin var einhvern veginn mjög impónerandi. Að vafra um á valmyndinni í bíltölvunni var eins og að snerta silkivafða mahóníspýtu. Polestar 2 nær þér áður en þú keyrir hann yfirhöfuð í fyrsta sinn og hann sleppir þér aldrei. Aldrei.

Ef lesendum finnst ég ekki hafa talað nógu mikið um bílinn þá hafa þeir rangt fyrir sér. Ég er búinn að lýsa því í smáatriðum hvaða tilfinningalegu áhrif það hafði á mig að reynsluaka honum í 48 klukkutíma. Ég varð frá mér numinn af æsingi þegar ég ók honum og hef hugsað um fátt annað síðan.

Aðrir bílar sem ég prófa blikna í samanburði. Sérstaklega þegar kemur að verðinu. Þegar ég sá að hann kostaði ekki nema frá 6.750.000 þá gapti ég. Ég myndi hiklaust borga 11.990.000 fyrir Polestar 2 og sofa mjög vel nóttina á eftir.

Það eru til hraðskreiðari, flottari, sögufrægari og vinsælli bílar – ég veit það alveg – en samt er Polestar 2 besti bíll sem ég hef ekið. Ég hef aldrei upplifað aðra eins stemningu í einum bíl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina