Vígalegur sportjeppi mættur

Svipur Jaguar-bíla er nokkuð afgerandi og einkennist helst af bogadregnu …
Svipur Jaguar-bíla er nokkuð afgerandi og einkennist helst af bogadregnu vélarhúddinu, áberandi framenda þar sem haldið er í sígilt útlit og mjúkum línum í hliðum. Árni Sæberg

Það eru tæp sjö ár liðin frá því að bílaumboðið BL hóf að flytja inn Jaguar eftir að hafa nælt sér í umboðið fyrir vörumerkið sem við þekkjum að mestu úr bíómyndum. Þar er að vísu undanskilin Jaguar-bifreið Nóbelsskáldsins sem það lagði fyrir framan sveitasetur sitt með sundlauginni samhliða því sem það lofaði lífið austan járntjaldsins – en það er nú önnur saga.

Sportjeppinn Jaguar F-Pace, sem jafnframt er fyrsti sportjeppinn (SUV) frá Jaguar, var vinsælastur Jaguar-bifreiða fyrstu tvö árin eftir að sala þeirra hófst hér á landi, en hefur á liðnum árum þurft að lúta í lægra haldi fyrir frænda sínum, rafmagnsjeppanum I-Pace sem notið hefur vinsælda eins og margir aðrir rafmagnsbílar.

Jaguar kynnti þó nýlega til leiks nýja útgáfu af F-Pace; aldrifinn F-Pace SE R-Dynamic, sem kemur í tengiltvinnútfærslu (e. Plug-in Hybrid). Vitað er að margir Jaguar-unnendur hafa beðið eftir þessari útgáfu bílsins, en þetta er fyrsti tengiltvinnbíllinn frá Jaguar. Bíllinn er nú þegar fáanlegur hér á landi.

Líkt og búast mátti við er bifreiðin ríkulega búin öllum helsta þæginda- og öryggisbúnaði og sver sig vel inn í vandaða framleiðslu Jaguar. F-Pace SE R-DYN PHEV er búin fjögurra strokka bensínvél og 105 kW rafmótor. Það er kraftmikil blanda sem gefur um 404 hestöfl og 640 Nm tog með 8 gíra sjálfskiptingu. Hröðunin frá 0-100 km/klst. er aðeins 5,3 sekúndur. Uppgefin drægni á rafmagni eingöngu er um 65 km, en rafhlaðan er 17,1 kWst. Uppgefinn tími á 80% hleðslu er 30 mínútur.

Jaguar F-Pace SE R-DYN PHEV er búin fjögurra strokka bensínvél …
Jaguar F-Pace SE R-DYN PHEV er búin fjögurra strokka bensínvél og að auki 105 kW rafmótor. Það er kraftmikil blanda sem gefur um 404 hestöfl og 640 Nm tog með 8 gíra sjálfskiptingu. Árni Sæberg

Haldið í sígilt útlit

Eins og sjá má á myndunum hér á síðunni er þetta glæsilegur bíll. Framleiðandinn er vissulega þekktur fyrir fágaða og vandaða bíla og þrátt fyrir að Jaguar sé nú hluti af Land Rover, sem einnig framleiðir lúxusbíla, hefur Jaguar náð að halda einkennum sínum sæmilega. Svipur Jaguar-bíla er nokkuð afgerandi og einkennist helst af bogadregnu vélarhúddinu, áberandi framenda þar sem haldið er í sígilt útlit og mjúkum línum í hliðum.

Meðal staðalbúnaðar Jaguar F-Pace SE R-DYN PHEV má nefna tólf mismunandi stillingar á upphitanlegum framsætunum, Meridian-hljómflutningskerfi sem m.a. er stjórnað á rúmlega 11 tommu PiVi-afþreyingarsnertiskjá, hita í stýri, framrúðu, rúðupissi og hliðarspeglum, nálgunarvara að framan og aftan auk þess sem bíllinn er búinn 20 tommu tvílitum álfelgum, rafdrifnum afturhlera og sjálfvirkum Premium LED-aðalljósum með einkennandi dagljósum. Til viðbótar við þetta allt saman geta eigendur bætt við ýmiss konar aukabúnaði, svo sem glerþaki, 360° myndavélakerfi, langboga og fleira.

Líkt og búast mátti við er bíllinn ríkulega búinn öllum …
Líkt og búast mátti við er bíllinn ríkulega búinn öllum helsta þæginda- og öryggisbúnaði og sver sig vel inn í vandaða framleiðslu Jaguar. Allar stillingar eru vel aðgengilegar ökumanni meðan á akstri stendur. Árni Sæberg

Fínn upp og niður Kambana

Reynsluakstur F-Pace SE R-Dynamic gefur góða tilfinningu fyrir bílnum. Við akstur innan borgar reynist bíllinn afar þægilegur í flesta staði. Viðbragðið er fínt og upplifunin af akstri er almennt góð. Bílnum var einnig ekið um Suðurland og hann sæmir sér vel á þjóðvegum landsins. Það er stundum ágætis viðmið, eða mælikvarði á þægindi, að aka bíl upp og niður Kambana fyrir ofan Hveragerði til að sjá hvernig hann hagar sér. Við akstur niður Kambana, á sæmilegum hraða, er bíllinn stöðugur niður helstu beygjur og maður finnur ekki mikið fyrir hraða eða sveigjum. Akstur upp Kambana síðar sama dag, aftur á sæmilegum hraða, gefur einnig góða raun. Hann er kraftmikill en ef finna má að einhverju þá mætti viðbragðið í gírskiptingunni vera örlítið betra og við inngjöf hikstar bíllinn lítillega. Við akstur á svo öflugum bíl ætlast maður til þess að skiptingin gangi snurðulaust fyrir sig, sérstaklega þegar stillt er á sportakstur sem á að gefa meiri kraft. Maður getur þó skipt yfir í beinskiptan sem virkar betur í slíkum aðstæðum og þá gengur skiptingin að því er virðist hraðar fyrir sig. Erlendir bílablaðamenn hafa bent á það sama.

Heilt yfir var aksturinn ljúfur og bíllinn stóð undir væntingum.

Við akstur innanbæjar er bíllinn þægilegur. Stýrið er nákvæmt og svarar vel, beygjuradíusinn er knappur og viðbragðið alla jafna snarpt. Fjöðrunin er fín og ýtir undir stöðugleika bílsins. Maður finnur það í hringtorgi, við óteljandi hraðahindranir á höfuðborgarsvæðinu og eins þegar keyrt er á misgóðum þjóðvegum. Allt viðmót er vandað og maður upplifir sig eins og maður hafi eitthvert alvöru erindi á götuna – sem er jú kostur. Ökumaður fær fljótt tilfinningu fyrir því hvernig best er að stilla aksturslag bílsins eftir því hvort maður er að keyra innanbæjar eða á þjóðvegi. Það skiptir ekki höfuðmáli, en eykur vissulega upplifun og gæði ef maður er með þær stillingar á hreinu.

F-Pace er ekki fjölskyldubíll í þeim skilningi, enda markhópurinn frekar …
F-Pace er ekki fjölskyldubíll í þeim skilningi, enda markhópurinn frekar eldra fólk sem á uppkomin börn. Það fer þó vel um tvo fullorðna einstaklinga í aftursætum bílsins og glerþakið gerir mikið fyrir útsýnið. Árni Sæberg

Að njóta tækninnar

Viðmótið innan bílsins gefur góða upplifun. Efnisval og umgjörð innréttinga er til fyrirmyndar, sætin eru þægileg og rúmgóð fyrir ökumann og farþega. Hönnun á innréttingum er öll til fyrirmyndar, þeir Jaguar-menn kunna þetta vel.

Snertiskjárinn er flottur og býður upp á óteljandi möguleika til að stilla bílinn og viðmót hans eftir hentugleika. Það er dálítill galli að maður þurfi að ýta nokkuð fast á skjáinn (miðað við snertiskjái almennt) en það venst hratt og innan fárra daga er maður farinn að spila á skjáinn eins og píanó. Eins og með aðra bíla þá á maður ekki að láta tæknina koma sér úr jafnvægi heldur njóta hennar.

Ætla má að helstu keppinautar bílsins séu Volvo XC60, BMW X3 og Alfa Romeo Stelvio, og það mætti bæta Audi Q8 og Lexus RX við þennan lista af vönduðum bílum sem eru í boði. Nýja útgáfan af Jaguar F-Pace stendur undir væntingum og veitir öðrum lúxus-sportjeppum harða samkeppni og mun vekja áhuga þeirra sem vilja tengiltvinnbíla.

Farangursrýmið er rúmlega 480 l fyrir aftan aðra sætaröð en …
Farangursrýmið er rúmlega 480 l fyrir aftan aðra sætaröð en um 1.300 l ef aftursætin eru felld niður. Árni Sæberg

Jaguar F-Pace SE R-Dynamic

Um 400 hestöfl

5,3 sek. í 100 km hraða

640 Nm tog með 8 gíra sjálfskiptingu

Eyðsla: 6,3-6,7 l/100 km í blönduðum akstri

Losun CO2: Um 37 g/km

Heildarþyngd um 2,7 tonn

Hámarksþyngd í drætti um tvö tonn

Uppgefin drægni á rafmagni eingöngu er um 65 km við bestu aðstæður

Umboð: BL

Verð: 14,6-15,2 m.kr.

 

Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 21. nóvember 2023

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: