Eins og að keyra iPhone

Ekki er á nokkurn hátt á Volvo EX30 að finna …
Ekki er á nokkurn hátt á Volvo EX30 að finna né sjá að um sé að ræða ódýrasta og minnsta Volvo-jeppann á markaðinum og tekur hann sig afskaplega vel út í vorsólinni Eggert Jóhannesson

Það verður eflaust seint úkljáð hvort Android eða iPhone sé betri sími enda smekksatriði hvor gerðin fellur betur að þörfum notenda. Það verður þó að viðurkennast að iPhone-símarnir eru einfaldir og þjálir í notkun – í raun svo auðveldir að því hefur verið haldið fram að jafnvel smábörn geti lært á þá upp á eigin spýtur.

Það sama mætti segja um Volvo EX30 þó eflaust sé best að halda börnunum frá stýrinu. Bíllinn meikar nefnilega sens eins og iPhone-sími og býr yfir vægast sagt þjálum og náttúrulegum flýtileiðum, eiginleikum og stillingum ásamt stílhreinu útliti með mínimalísku yfirbragði. Leyfir undirrituð sér jafnvel að fullyrða að fæstir þurfi að líta á leiðbeiningarnar að jepplingnum til að átta sig á því hvar allt það helsta sé – sem er ekki sjálfsagt í nýjum snjallbílum.

Ef skandí-krimmi væri bíll

EX30 sækir augljósan innblástur í einfaldleika og sjálfbærnistísku Norðurlandanna en hönnun hans vísar í „mid-century módern“ stíl, skandinavíska hönnun og náttúru norðursins – ef skandí-krimmi væri bíll væri hann Volvo EX30.

Þá er EX30 hannaður með það að sjónarmiði að hafa minnsta kolefnisfótspor allra Volvo-bíla frá upphafi og er því að miklu leyti gerður úr endurnýjanlegum og endurunnum efnum. Um 25 prósent alls áls og 17 prósent alls stáls og plasts sem notað er í EX30 eru endurunnin og um 30 prósent klæðningarinnar úr endurunnu plasti, auk þess sem endurunnin og endurnýjanleg efni eru notuð í yfirborðsfleti.

Þar að auki eru stílhrein og sportleg sæti bílsins úr endurunnu pólíester, en það dregur þó alls ekki úr lúxusfílingnum inni í bílnum. Þvert á móti hefur hann öll einkenni fyrsta flokks bíls – á afar sanngjörnu verði. Í raun má segja að EX30 dragi svip sinn frá Teslunni bæði í útliti og eiginleikum og geri það satt best að segja aðeins betur. EX30 er því tilvalinn fyrir þá sem vilja stílhreinan og mínimalískan snjallbíl en kaupa ekki „gimmik“ auðkýfingsins Elons Musks.

Það leikur enginn vafi á því að um er að ræða lúxusfjölskyldubíl þegar EX30 er annars vegar þegar tekið er mið af eiginleikum hans, akstursupplifun og ekki síst hraða. Þrátt fyrir að vera minnsti jeppi Volvo til þessa er ekki fyrir því að finna inni í bílnum sem er einstaklega rúmgóður bæði í lofthæð og ummáli. Stílhreinu útliti bílsins getur aftur á móti fylgt eilítil leit að helstu atriðunum líkt og bollahaldara undir kaffimál sem er með mikilvægari nauðsynjum í bifreið að mati undirritaðrar, sem þurfti þó ekki að örvænta lengi þar sem bollahaldarinn er falinn undir hægri sætisarmi bílstjórans. Má segja að það sé ríkjandi stefna í bílnum að fela alla vasa og hólf til að halda ökutækinu eins snyrtilegu og auðið er. Því er einnig að finna falið hanskahólf undir skjá bílsins sem opnast þegar þrýst er á takka á skjánum. Faldir krókar og kimar bílsins gleðja því hjörtu snyrtipinna en það getur tekið nokkrar tilraunir að finna.

EX30 nýtir allt pláss vel til að halda öllu snyrtilegu …
EX30 nýtir allt pláss vel til að halda öllu snyrtilegu og er sérstakur geymslustaður fyrir alla startkapla og auka rúðupiss undir húddi. Eggert Jóhannesson

Hraður með norðurljósastillingu

Býr bíllinn einnig yfir ljósa- og hljóðstillingum þar sem hægt er að velja á milli nokkurra valmöguleika eftir því hvernig skapi bílstjórinn er í eða hvers kyns stemningu hann kýs sér hverju sinni. Einn valmöguleikanna kallast Northern Lights en það var skemmtileg tilviljun að sekúndum eftir að undirrituð setti stillinguna á í bílnum dönsuðu hin raunverulegu norðurljós yfir himininn í Borgarfirðinum. Var það vægast sagt töfrum líkast að fylgjast með mögnuðum ljósunum í gegnum þakrúðu bílsins sem og á skjánum. Auk norðurljósastillingarinnar er hægt að velja á milli; regnskógar, eyjahafsstrandar, miðsumars og rökkurs.

EX30 er einnig búinn hágæða hljóðkerfi, eða hljóðstöng, sem liggur þvert yfir mælaborðið og veitir framúrskarandi hljóðupplifun í bílnum sem er í þokkabót einstaklega hljóðlátur á vegi. Hljómburður bílsins notast við hönnun rýmisins til þess að framkalla réttan óm og dreifa hljóðinu en ekki eru hátalarar í hurðum ökutækisins líkt og er vaninn í flestum bílum.

Ekki er hægt að tala um ágæti EX30 án þess að minnast á hraða. Bíllinn státar af hvorki meira né minna en 420 hestöflum og fer úr 0 í 100 á 3,6 sekúndum í fjórhjóladrifinni útgáfu, sem er algjör óþarfi fyrir fjölskyldubíl. Volvo á aftur á móti skilið mikið lof fyrir að leggja áherslu á hraða bílsins – bara af að því þeir geta það.

Prufuaksturinn fór aftur á móti fram á afturhjóladrifinni útgáfu og var hröðun hennar 5,3 sekúndur og hámarksvélarafl 272 hö. sem er enn afskaplega gott. Drægni bílsins er einnig afbragðsgóð eða allt að 476 km á rafmagni, en rafhlöðugeta hans er um 69 kWst og tekur 26 mínútur að hlaða hann úr 10 prósentum upp í 80 prósent í DC-hleðslustöð en um 8 klst. að fullhlaða í heimahleðslu.

Takkaleysið næstum því fyrirgefið

Tölvuskjár bílsins er hágæða skjár og svipar mjög til hefðbundins iPad-skjás þar sem hann er ílangur en ekki breiður líkt og oftast er raunin í bílum. Skjárinn er aftur á móti Google-drifinn en tengist auðveldlega við Apple CarPlay. Bíllinn er nær alveg takkalaus og reiðir sig nánast alfarið á skjáinn fyrir utan tvo takka fyrir bíllæsinguna og bílrúðurnar, sem eru staðsettir nálægt hægri hönd bílstjórans. Eins og flestir sem þekkja undirritaða vita fer það sérstaklega í taugarnar á mér þegar nýir bílar hafa gjörsamlega fjarlægt alla takka úr farþegarýminu en í tilfelli EX30 er takkaleysið næstum því fyrirgefið.

Volvo hefur nefnilega tekist að fjarlægja flesta takka og setja þá upp á skjánum með slíku sniði að bílstjórinn þarf ekki að taka augun af veginum of lengi. Allar helstu nauðsynjar eru beint við fingurgóma hans en ítarlegri stillingar, sem er æskilegra að leita að í kyrrstöðu, er einnig auðvelt að finna. Málin geta þó flækst eilítið ef ökumaður vill fikta í ljósastillingum sjálfur, en þær mættu vera aðeins auðfundnari.

EX30 er þó að mestu leyti afar snjall án þess að taka of frekjulega fram fyrir hendurnar á bílstjóranum. Undirritaðri til mikillar gleði kom í ljós á leið upp í Borgarfjörð að kvöldi til að bíllinn nemur mótkomandi umferð og kveikir og slekkur á háu ljósunum sjálfur.

Þá er einnig hleðsluflötur fyrir snjallsíma við hægri hönd bílstjórans, en ekki er hægt að hlaða fleiri en einn síma í einu þó að pláss sé fyrir tvo. Hreint út sagt er innra kerfi bílsins auðskiljanlegt, sem hefur reynst mörgum hönnuðum snjallbíla hægara sagt en gert.

Þó er vert að minnast á nokkur atriði sem gera það að verkum að EX30 á agnarögn í land til þess hægt væri að kalla hann alveg snjallan. Fyrst og fremst mætti fínpússa snjalllæsingu bílsins eilítið því hugmyndin sjálf er afar skemmtileg – þegar hún virkar. Bílnum er hægt að læsa með þumalputta og aflæsa aftur ef lykillinn er nálægt bílnum en getur endað með niðurlægjandi og örvæntingarfullum tilraunum til að opna bílhurðina úti á miðju bílastæði.

Því skal einnig haldið til haga að bíllinn á það til að vera smá frekjulegur í akstursskiptingaaðstoð og var fullafskiptasamur í hvert skipti sem ég geispaði eða leit á skjáinn til að fikta í stillingum. Sjálfvirka bílastæðalagningin sem Volvo býður upp á kemur sér aftur á móti afar vel um leið og ökumaður leyfir sér að sleppa og treysta. Einnig varar bíllinn bílstjóra við gangandi, hjólandi og akandi vegfarendum áður en stigið er út úr bílnum en sá eiginleiki bjargaði eflaust lífi Hopp-hjólreiðamanns sem átti leið fram hjá heimili blaðamanns í miðbænum.

Takkaleysi bílsins er næstum því fyrirgefið en Volvo hefur tekist …
Takkaleysi bílsins er næstum því fyrirgefið en Volvo hefur tekist að fjarlægja flesta takka og setja þá upp með sniði sem virkar. Eggert Jóhannesson

Nýtt uppáhald

Pláss í bílnum er afbragðsgott og stundum auðvelt að gleyma að um sé að ræða minnsta jeppa bílaframleiðandans. Plássið í skottinu er einnig ríflegt en hægt er að fjarlægja falskan botn úr því og auðvitað leggja niður sætin til að koma fleiru fyrir. Leiðin í prufuakstursferðinni lá upp í Hítardalinn í Mýrasýslu og passaði skottið, sem rúmar 318 lítra, akkúrat undir helgarferðarfarangur fjögurra fullorðinna ásamt innkaupum.

Má því ætla að bíllinn henti best fyrir litla fjölskyldu eða par. Hann er þó eflaust æskilegri fyrir fjölskyldur þar sem börnum á heimilinu fer fækkandi fremur en fjölgandi.

Þá var einnig gaman að finna ýmsar „faldar“ myndrænar lýsingar og skreytingar í bílnum. Til að mynda er falin mynd af skógarlendi og elg í aftursætinu sem smærri ferðalöngum gætu þótt gaman að koma auga á, en þar að auki má finna myndræna lýsingu á því hvað kann að passa í skottið, eins og ferðatöskur, barnavagnar og vélmenni, til að gleðja fullorðna fólkið.

EX30 nýtir allt pláss vel til að halda öllu snyrtilegu og því þarf ekki lengur að geyma auka rúðuvökva og startkapla í skottinu, heldur er sérstakur geymslustaður fyrir alla „leiðinlegu“ hlutina undir húddi bílsins.

Heilt yfir litið er Volvo EX30 hágæða hátæknibíll á meira en sanngjörnu verði fyrir það sem kaupandinn fær út úr kaupunum. Þó að enn megi fínpússa nokkur smáatriði verður ekki frá því litið að bíllinn ber ekki einungis með sér útlit lúxusbíls heldur eiginleika snjöllustu snjallbíla og hraða hröðustu sportbíla.

Ekki er á nokkurn hátt á honum að finna né sjá að um sé að ræða ódýrasta og minnsta Volvo-jeppann á markaðinum og kæmi hann vel til greina til fjárfestingar þegar gamli Ford Focusinn minn gefur á endanum upp öndina.

Stílhreinni gerast farþegarýmin varla. Skandinavíska naumhyggjan kemur vel út.
Stílhreinni gerast farþegarýmin varla. Skandinavíska naumhyggjan kemur vel út. Eggert Jóhannesson

Volvo EX30 Recharge Ultra LRRWD

Aflrás: Afturhjóladrifinn

Rafsvið: allt að 476 km

Raforkueyðsla: 17 kWst/100
km

Hámarksvélarafl: 272
hö./200 kW

Hröðun: 0-100 km/klst: 5,3
sekúndur

Hámarkstog: 343 Nm

Hámarkshraði: 180 km/klst

Farangursrými: 318 lítrar

Verð frá: 6.890.000 kr.

Verð á reynsluakstursbíl:
8.390.000 kr.

Umboðsaðili Volvo á Íslandi/
Brimborg

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: