Vígalegur og þægilegur lúxusjeppi

Mikill bragur er yfir bílnum og þar sem sést til …
Mikill bragur er yfir bílnum og þar sem sést til EQE SUV fer ekki á milli mála að þar er á ferð bifreið úr röðum topp-bílaframleiðanda. Arnþór Birkisson

Það var á björtum maídegi sem undirrituð gekk upp að Mercedez-Benz-umboðinu á Íslandi og fékk afhenta lyklana að sínum fyrsta Benz til reynsluaksturs, nánar tiltekið EQE SUV. Sjaldan hefur reynsluakstur komið sér betur því svo virðist sem ég hafi kallað fram eigin örlög með því að minnast á að gamli Ford Focusinn minn kynni brátt að gefa upp öndina í síðasta bíladómi mínum. Var það því afar kærkomið að hafa bíl til afnota á ný, hvað þá að fá að skipta út strætóferðunum fyrir Benz.

Í fyrstu kemur EQE fyrir sjónir sem hefðbundinn og stílhreinn jeppi en þegar nær er litið má sjá að hönnuðir Mercedes-Benz hafa hugað gaumgæfilega að ótal smáatriðum sem skapa eina lúxusheild. Mikill bragur er yfir bílnum og enginn vafi á að þarna er á ferð bíll úr röðum topp-bílaframleiðanda – án þess þó að heildarútkoman sé „of mikið“.

Bíllinn er mjúkur, hljóðlátur og nokkuð fimur á vegi.
Bíllinn er mjúkur, hljóðlátur og nokkuð fimur á vegi. Arnþór Birkisson

Minnir á Louis Vuitton

Sem dæmi er grill bílsins skreytt mörgum Mercedes-lógóum og minnir einna helst á Louis Vuitton-mynstrið fræga, en líkt og með handtöskurnar er línan á milli glyss og glæsileika fín. Tekst þó afar vel til í þessu tilfelli þar sem restin af ytri sérkennum bílsins er ögn látlausari og stílhreinni og því meira en réttlætanlegt að líkja Benzinum og merkjatöskunni saman.

Að sinni ákvað ég að láta á það reyna að fá liðsauka til að setjast undir stýri og keyra bílinn svo ég gæti séð hann á vegi og varð síður en svo fyrir vonbrigðum. Það gleður augað verulega að sjá að hvert einasta smáatriði er þaulhugsað og hannað með ásetningi.

Til að mynda hafa ljós bílsins, sem eru mjó og hvöss, ýmislegt skemmtilegt að geyma sem bílstjórinn kann aldrei að taka eftir en aðrir vegfarendur fá svo sannarlega að njóta. Þegar bíllinn er ræstur kvikna mismunandi partar aðalljósanna hver af öðrum – nánast eins og til að byggja upp eftirvæntingu. Eru ljósin þar að auki afbragðsgóð og skila meira en 1,3 milljón pixlum í hvoru aðalljósi og laga sig stöðugt að breyttum umferðar-, vega- eða veðurskilyrðum. Eru afturljósin sömuleiðis skemmtileg með þrívíðri skrúfulaga hönnun og er útkoman bæði áhugaverð og töff.

EQE veldur ökumönnum með felgublæti engum vonbrigðum en felgur hans eru 21 tommu álfelgur sem eru fallegar og eilítið framtíðarlegar. Þá er ávallt gaman að sjá að hugað hafi verið að samræmi í hönnun bílsins að innan og utan en loftristirnar í EQE eru svipaðar í laginu og felgurnar. Þá er bíllinn einnig gæddur innfellanlegum silfurhandföngum að utan sem skjótast út er hendi er rennt meðfram þeim eða ef bílnum er aflæst. Innfellanleg handföng og sjálfvirkar læsingar virðast sífellt verða tíðari í nýrri bílum og tekst hönnuðum misvel upp í útfærslu á þeim. EQE er svo sannarlega til fyrirmyndar hvað þetta snertir og slapp blaðamaður algerlega við klunnalegar og vandræðalegar tilraunir til að opna, loka og læsa bílnum – sem er svo sannarlega ekki sjálfgefið í snjallbílum!

Grill bílsins er skreytt fíngerðu Mercedes-stjörnumynstri sem minnir ef til …
Grill bílsins er skreytt fíngerðu Mercedes-stjörnumynstri sem minnir ef til vill sumpart á Louis Vuitton-mynstrið fræga Arnþór Birkisson

La-Z-Boy-hásæti

Á framhlið bílsins er að finna lítið hólf, sem er satt best að segja ekki ósvipað þvottavélarhólfi. Eftir smá hausaklór og snögga leit á Google kom aftur á móti í ljós að um er að ræða hólf til að fylla á rúðuvökvann. Er það svo sem ekki í frásögur færandi en það var á þessu stigi máls sem það rann upp fyrir mér að ekki er hægt að opna húddið á Mercedes-Benz-bílum einn og óstuddur – eins og margir í hærra skattþrepi en undirrituð vissu eflaust þegar.

Innrétting bílsins og almennt viðmót bera þess merki að þægindi voru höfð í fyrirrúmi við hönnun hans. Sæti bílsins eru hreint út sagt ótrúlega þægileg og auðveldlega stillanleg og sitja afar hátt uppi, og er því nánast eins og maður keyri um sitjandi í La-Z-Boy-hásæti. Er einnig gaman að sjá að hönnuðirnir hafa fengið að leika sér eilítið því sætisstillingartakkinn er eins í laginu og sætið sjálft og er hægt að stilla mismunandi hluta sætisins með því að þrýsta á samsvarandi parta takkans. Þá hafa þeir ekki látið þar við sitja heldur er handfangið inni í bílnum eins í laginu og takkinn og sætið. Augljóst er að áhersla hefur verið lögð á að nægt pláss sé til reiðu fyrir bílstjórann og er í raun eins og ætlunin sé að bílstjórinn geti hreiðrað um sig í bílnum lengi í senn.

Þægindi eru í fyrirrúmi í bílnum og eru sætin á …
Þægindi eru í fyrirrúmi í bílnum og eru sætin á við hægindastóla. Arnþór Birkisson

Rúmgóður og kósí

Á hægri hönd bílstjóra í miðjustokk er að finna þrjú stór og rúmgóð hólf. Eitt með hleðslu fyrir síma og höldur fyrir bíllykla og drykkjarmál. Afar djúpt hólf er einnig undir sætisarminum og opin hirsla undir miðjustokkinum. Eitt er þó út á hirslurnar ófáu að setja og það er að sumar þeirra eru örlítið óaðgengilegar en til að mynda þarf maður að teygja sig inn um nánast falið hólf til að setja símann á hleðsluflöt. Þá eru sætin einnig örlítið aðskilin og eru nánast eins og hólf vegna alls búnaðarins í miðjustokknum sem skilur þau að. Þarf það þó alls ekki að vera slæmt og getur jafnvel verið örlítið kósí í löngum bílferðum að bílstjóri og farþegi séu nánast hvor í sínu híðinu.

Þá er pláss og þægindi ekki síðri í aftursætum EQE og er nóg fótapláss og höfuðpláss til að geta teygt úr sér á löngum ferðalögum. Pláss í skottinu er mikið og gott sem blaðamaður lét á reyna í Húsasmiðjunni til að sækja efni í yfirstandandi framkvæmdir heima við. Var lítið mál að fella niður sæti bílsins til að koma fyrir 2,3 metra löngu timbri, en undir sjálfu skottinu er einnig minna „falið“ skott þar sem hægt var að skella öðrum innkaupum og smádóti á meðan. Er því alveg ljóst að bíllinn hentar undir allt hafurtask hversdagsins, ferðatöskur, barnavagna og meira að segja kúlupanil úr byggingarvöruverslun.

Má í raun þakka tilkomu rafmagnsdrifsins fyrir hver rúmgóður EQE SUV er en fjarvera gírkassans skilar auknu plássi fyrir bæði farþega og farangur. Mercedez-Benz hefur ekki endilega verið að flýta sér inn á rafbílamarkað en virðist þess í stað ætla að gera það vel og halda í gildi og staðla framleiðandans.

Hönnuðirnir hafa leikið sér eilítið við hönnun sætisstillingartakkans.
Hönnuðirnir hafa leikið sér eilítið við hönnun sætisstillingartakkans. Arnþór Birkisson

Eins og smjör á vegi

Ber akstur EQE SUV þessa sannarlega merki en jeppinn rennur eins og smjör á vegi. Er bifreiðin mjúk, hljóðlát og fim og var ekki laust við að manni liði á köflum eins og í aksturshermi. Hröðun reynsluakstursbílsins er 6,6 sekúndur sem er nokkuð gott. Er það þó fyrst og fremst aðdáunarvert hve hnykkjalaus og óaðfinnanleg hröðun bílsins er og eiginlega eins gott að mælaborðið ávítar mann fyrir hraðakstur. Hámarksvélarafl er 292 hö. og tog er 765 Nm og drægni bílsins er allt að 551 km. Stærð rafhlöðunnar er 90 kWst og rafhlöðugeta um 18,3-21,8 kWst/100 km. AC-hleðslugeta, eða heimahleðsla, er 11 kW og DC-hleðslugeta 170 kW.

Tvennu er þó ábótavant í akstri en það er fyrst og fremst gírstöngin sem er áföst stýrinu á hægri hönd bílstjórans, líkt og löng hefð er fyrir hjá þessum framleiðanda. Stönginni svipar mikið til rúðuþurrku-, eða stefnuljósastangar og getur það reynst æði óhugnanlegt og jafnvel hættulegt að skella óvart í bakkgír við það að þrýsta stönginni niður af gömlum vana í rigningu. Sömuleiðis geta fjölmargar bílastæðamyndavélar bílsins gert manni lífið leitt en þær sýna hann frá öllum mögulegum hliðum og sjónarhornum þegar reynt er að bakka eða leggja bílnum. Gætu jafnvel skörpustu bílstjórar orðið ruglaðir í ríminu og því öllum fyrir bestu ef bílstjórar með jafnvel snert af athyglisbresti finni leið til að slökkva á truflandi myndasýningunni.

Bíllinn er góður kostur fyrir foreldra sem eyða miklum tíma …
Bíllinn er góður kostur fyrir foreldra sem eyða miklum tíma í skutl og þurfa nægt pláss undir allt það dót sem fylgir fölskyldulífinu. Arnþór Birkisson

Lagast að þörfum bílstjórans

Ávallt er skemmtilegt þegar hægt er að stilla heimilisbílinn eftir eigin höfði og þörfum og það er afar vel hægt að gera í EQE SUV. Bíllinn lærir inn á þarfir bílstjórans og stillir til að mynda sætið að líkama bílstjórans er hann kveikir á bílnum. Helst er þó vert að minnast á hljóðkerfi bílsins sem ég leyfi mér að segja að myndi heilla jafnvel smámunasömustu tónlistarnörda. Burmester 3D Surround-hljóðkerfið stendur svo sannarlega undir væntingum og því öruggt að segja að hljóðáhugamenn ættu að íhuga að fjárfesta í jeppanum – jafnvel ef aðeins fyrir hljóðkerfið. Hægt er að velja á milli stillinga eftir því hvaða áherslur hver og einn hefur í hlustun, hvort sem það er sterkur bassi, bakgrunnstónlist eða strengjaómur. Einnig geta þeir sem kunna og vilja gert sínar eigin stillingar svipað og framleiðendur í tónlistarhljóðveri – en blaðamaður mun seint gerast fræg fyrir tónlistarkunnáttu sína og lét því stöðluðu stillingarnar duga.

Almennt er það leiðandi stefna í bílnum að laga hann að eigin þörfum. Auðvelt er að nota hann án þess að kynna sér mismunandi takka og stillingar hans en þeir sem kjósa að kynna sér og aðlaga ökutækin sjálfum sér hafa ríkan möguleika þar á og því í raun valkvætt hversu mikið ökumaður kýs að kynnast bílnum.

Viðmót skjásins og allir takkarnir á stýrinu kunna að vera eilítið yfirþyrmandi í fyrstu en með því að kynna sér þá (eða biðja liðlega starfsmenn umboðsins um að kenna sér) er alls ekki of flókið að læra á stillingarnar til að fá sem mest út úr bílnum.

Mikið pláss er í bílnum og ýmis rúmgóð og vel …
Mikið pláss er í bílnum og ýmis rúmgóð og vel staðsett hólf. Arnþór Birkisson

Tæknistillingar sem létta lífið

Í lánsbílnum voru tveir skjáir, einn fyrir miðju og annar á mælaborði. Innra MBUX-margmiðlunarkerfi bílsins er ágætlega þjált í notkun en útlitð fannst mér á köflum eilítið úrelt og ekki falla að restinni að bílnum, en það er að sjálfsögðu smekksatriði. Stillingarnar voru engu að síður auðfundnar og auðskiljanlegar. Kerfið inniheldur ótal tæknistillingar sem aðstoða í akstri og greina þarfir og hreyfingar bílstjórans og bregðast við. Til dæmis eltir lesljósið þann sem notar það án snertingar og þakglugginn opnast sömuleiðis og lokast án þess að maður þurfi að ýta á hnapp. Var innra leiðsögukerfi Merceds ágætt en ég var engu að síður fljót að breyta yfir í Apple CarPlay og bölva bílahönnuðinum sem fann upp á því að miðstöðvarstillingar eigi heima á skjá en ekki tökkum, enda ótrúlega pirrandi að þurfa að ýta á meira en einn hnapp til að kveikja á einfaldri stillingu.

Mercedez-Benz EQE SUV tekur sig vel út í virðulegum dökku …
Mercedez-Benz EQE SUV tekur sig vel út í virðulegum dökku lit. Arnþór Birkisson

Frábær kostur fyrir þá sem hafa efnin

Verð bílsins er mismunandi eftir hvaða gerð er valin og er auk þess hægt að bæta við ýmsum aukabúnaði, svo sem MBUX-hyperskjá þvert yfir mælaborðið. Er skjárinn með sér sjónvarpsskjá fyrir farþegasætið en klók akstursaðstoð bílsins tryggir að bílstjórinn freistist ekki til að horfa á skjáinn í staðinn fyrir veginn. Það kostar þó aldeilis sitt, eða 1.260.000 kr.

Verðið er því í hærri kantinum sem kemur ekkert endilega á óvart þegar Mercedes-Benz og aðrir lúxus-bílaframleiðendur eiga í hlut. Heilt yfir er EQE SUV frábær kostur fyrir þá sem hafa efni á honum en þeir sem eru að leita eftir meira fyrir minna geta eflaust fundið svipaða eiginleika í ódýrari bílum – en heildar-lúxusinn sem fylgir Benzinum verður ólíklega falur fyrir minna.

EQE-SUV Benzinn er nefnilega óneitanlega lúxus-jeppi sem stendur undir orðspori framleiðandans. Ökumaður trónar yfir umferðinni í háum sætum bifreiðarinnar sem er í senn vígaleg, hátæknileg og þægileg. Mikið pláss er í bílnum bæði í framsætum, aftursætum og skotti og ýmis rúmgóð hólf eru vel staðsett um allan bílinn. Hljómkerfi bílsins er í fremsta flokki og er hann öruggur, hraður og tilkomumikill á vegi.

EQE-SUV virðist í raun sér í lagi hentugur á Íslandi þar sem flestir fara akandi leiðar sinnar vegna veðurs og takmarkaðra almenningssamganga. Vel er hægt að ímynda sér hann sem ákjósanlegan kost fyrir foreldra sem eyða miklum tíma í skutl innanbæjar og þurfa þægilegan bíl með nægt pláss undir allt það dót og drasl sem fylgir fjölskyldulífinu. Sömuleiðis má ímynda sér að hann sé hentugur í ferðalög út á land enda nægt pláss undir fjölskyldufarangur og unga ferðalanga í aftursætinu. Foreldrum sem ekki vilja gefa eftir í stíl eða gæðum gæti vel hugnast EQE SUV enda er hann glæsilegur án þess að vera of spjátrungslegur.

Helstu stjórntæki eru við fingurgóma ökumanns og alls kyns aðstoðarbúnaður …
Helstu stjórntæki eru við fingurgóma ökumanns og alls kyns aðstoðarbúnaður reiðubúinn að hjálpa við aksturinn. Arnþór Birkisson

EQE SUV 350 4MATIC

Hámarksvélarafl: 292 hö

Tog: 765 Nm

Raforkueyðsla frá 18,3 til 21,8
kWst/100 km

Stærð rafhlöðu: 90 kWst

Drægni: 551 km

Hröðun: 6,6 sekúndur

AC-hleðslugeta: 11 kW

DC-hleðslugeta: 170 kW

Dráttargeta: 1.800 kg

21" álfelgur

Allt að 1.686 l farangursrými

MBUX hágæða margmiðlunar-
kerfi

Verð á reynsluakstursbíl:
17.290.000 kr.

Verð frá: 13.890.000 kr

Umboðsaðili: Mercedes-Benz
á Íslandi/Askja

Frágangurinn er allur til fyrirmyndar.
Frágangurinn er allur til fyrirmyndar. Arnþór Birkisson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: