Hundur keyrir bíl (myndband)

Porter er sauðslakur á því undir stýri.
Porter er sauðslakur á því undir stýri.

Það er nóg að gera hjá Mini þessa dagana. Fyrir stuttu fór stökkbreyttur Mini í heljarstökk afturábak (einmitt fyrir frægðina) og nú er búið að skipta út mennskum ökumönnum og setja hunda við stýrið í staðinn.

Um er að ræða verkefni sem unnið er í samvinnu við SPCA, samtök sem vinna gegn vondri meðferð dýra. Eftir því sem næst verður komist er tilgangurinn að sýna hversu gáfaðir hundar eru og því óþarfi að fara illa með þá.

Í myndbandinu sem hér sést er hundurinn Porter að keyra Mini á lokaðri braut, en þjálfari gengur með og kallar skipanir. Það er að vísu vafamál að hundurinn sé hið minnsta meðvitaður um hvað hann er að gera, en það sama má reyndar segja um fjölmarga mennska ökumenn.

mbl.is