Volvo flýtir komu jepplingsins XC40

XC90 er flaggskip hinnar nýju sóknar Volvo. Þetta eintak er ...
XC90 er flaggskip hinnar nýju sóknar Volvo. Þetta eintak er notað til prófunar á sjálfsaksturstækni. AFP

Volvo hefur verið í mikilli sókn með nýjum bílum síðustu misserin. Flaggskip hinnar nýju sóknar hefur verið jeppinn XC90 en nú staðfestir sænski bílsmiðurinn að nýtt módel sé að bætast við, jepplingurinn XC40.

Í fyrra sendi Volvo frá sér tvö ný módel, S90 og V90, og fyrir utan hinn boðaða XC40 er Volvo þessa dagana að hleypa af stokkum V90 Cross Country, sem kemur á götuna síðar á árinu. Við þann bíl eru bundnar miklar vonir í Noregi því þegar hafa rúmlega 800 manns skráð sig fyrir slíkum bíl þar í landi.

XC90 er flaggskip hinnar nýju sóknar Volvo. Hér er hann ...
XC90 er flaggskip hinnar nýju sóknar Volvo. Hér er hann á bílasýningunni í Detroit í Bandaríkjunum í byrjun janúar sl. AFP


Ekki hafði staðið til að koma með XC40 fyrr en á næsta ári, 2018, en þróunarstjóri Volvo, Henrik Green, segir prófunum nær lokið og því takist að koma honum á götuna með komandi hausti.

XC40 fer inn í þann geira bílaframleiðslunnar sem vex hvað hraðast um þessar mundir. Meðal keppinauta hans verða Audi Q2/Q3, BMW X1 og Mercedes GLA, svo einhverjir séu nefndir. Hann verður fyrsti bíllinn sem byggður er á nýjum undirvagni fyrir smærri bíla, CMA, sem Volvo hefur þróað í samvinnu við kínverska bílrisann Geely. Útlit er fyrir að XC40 verði smíðaður í bílsmiðjum sænska bílaframleiðandans í Kína. agas@mbl.is