Hyundai kynnir nýjan og breyttan Santa Fe

Hyundai Santa Fe, árgerð 2019, verður frumsýndur í stöðvum Hyundai ...
Hyundai Santa Fe, árgerð 2019, verður frumsýndur í stöðvum Hyundai í Kauptúni í Garðabæ á laugardag.

Hyundai á Íslandi kynnir næstkomandi laugardag, 10. nóvember,  milli kl. 12 og 16, fjórðu kynslóð hins stóra og rúmgóða fjórhjóladrifna sportjeppa, Santa Fe, flaggskip Hyundai í þessum flokki. Fer frumsýningin fram í stöðvum Hyundai í Kauptúni í Garðabæ.

Nýi bíllinn er örlítið stærri en forverinn auk þess sem hann hefur tekið útlitsbreytingum með aukinni straumlínulögun og nýjum og svipsterkari framenda, ættuðum frá borgarsportjeppanum Kona. Farþegarýmið hefur tekið stakkaskiptum með enn meiri áherslu á gæði í efnisvali auk þess sem fjöðrunarkerfið hefur verið endurbætt til samræmis við fleiri akstursstillingar sem hægt er að velja um, Comfort, Eco og sport.

Öflugur við erfiðar aðstæður

„Það leynir sér ekki að með nýjum Santa Fe varðveitir Hyundai vel þá sterku arfleifð sem bíllinn hefur áunnið sér allt frá árinu 2001 þegar hann var fyrst kynntur. Heildaryfirbragðið er kröfugt og endurspeglar fjölbreytta getu við mismunandi aðstæður. Nýr Santa Fe er búinn öflugri og enn umhverfisvænni 2,2 lítra, 200 hestafla túrbódísilvél við 8 gíra sjálfskiptingu í stað sex gíra skiptingar eins og forverinn auk þess sem bíllinn er kominn með H-trac fjórhjóladrifið sem hannað var fyrir Genesis, lúxusmerski Hyundai. Auk 2,2 lítra vélarinnar er hægt að panta Santa Fe með tveggja lítra dísilvél sem skilar 185 hestöflum og 2,4 lítra og 185 hestafla bensínvél,“ segir í tilkynningu.

Grunnverð Santa Fe með 2,2 lítra dísilvél er krónur 7.990.000 hjá Hyundai á Íslandi. Santa Fe hefur frá upphafi gegnt mikilvægu hlutverki við þróun Hyundai á öðrum og mismunandi gerðum sportjeppa, svo sem Tucson og Kona. Santa Fe er þeirra stærstur, með allt að 2,5 tonna dráttargetu, og búinn öllum helstu tækninýjungum Hyundai á sviði öryggis- og aðstoðarkerfa. Meðal helstu nýjunganna í fjórðu kynslóðinni má þó nefna aukna vöktun á umferð gangandi fólks og bíla fyrir aftan auk öryggisvöktunar þegar bílnum er bakkað. Þá er nýi bíllinn kominn með gagnvirkan hraðastilli sem tekur tillit til hraða bíla á undan og hægir á ef á þarf að halda til að tryggja örygga fjarlægð frá næsta bíl. Þá má einnig nefna stóran miðlægan snertiskjá þaðan sem stjórna má margvíslegum búnaði, svo sem vönduðum Krellhljómtækjum og öðrum afþreyingarkerfum bílsins.

mbl.is