Leiðrétta drægi Kona

Hyundai Kona.
Hyundai Kona.

Mistök voru gerð hjá þeim óháða og sjálfstæða aðila sem annaðist framkvæmd opinbers prófs á drægi rafbílsins Hyundai Kona þar sem stuðst var við nýja samræmda mælistaðalinn WLTP.

Mistökin leiddu til rangrar heildarniðurstöðu og þar með samþykktar á röngu uppgefnu drægi sem Hyundai leggur ríka áherslu á að verði leiðrétt, að því er fram kemur í tilkynningu bílsmiðsins til umboðsaðila sinna.

Allir nýir bílar á Evrópumarkaði undirgangast staðlaða prófun á uppgefnu drægi undir eftirliti yfirvalda og framkvæmd af sjálfstæðum prófunaraðila.

Þegar Hyundai Kona EV var prófaður til að sannreyna drægi bílsins var samsetning prófþáttanna ekki rétt. Mistökin fólust í því að bíllinn var prófaður í of langan tíma í umferð í þéttbýli þar sem meðalhraði og orkunotkun er lægri að meðaltali en við aðrar og ólíkar aðstæður sem prófið inniheldur líka. Mistökin gerðu að verkum að heildardrægi bílsins var ofmetið.

Eftir leiðréttingu á útreikningum prófsins er heildardrægi rafbílsins Hyundai Kona með 39 kWh rafhlöðu (eru ekki í bílum frá Hyundai á Íslandi) 289 km. Drægi með 64kWh rafhlöðu eins og þeirri sem er í bílum frá Hyundai á Íslandi er 449 km en ekki 482 km eins og kynnt hefur verið til þessa.

Mistökin uppgötvuðust þegar ósamræmi kom í ljós milli opinberu niðurstöðunnar og þeirra prófana sem Hyundai hefur gert á drægi bílsins. Ljóst er hvar í prófunarferlinu mistökin voru gerð og mun Hyundai fylgja málinu eftir til að fá fullnægjandi skýringar á mistökunum. Af hálfu Hyundai er mikilvægt að uppgefið drægi Kona EV, sem samþykkt hefur verið af yfirvöldum, verði leiðrétt. Mistökin snerta engin önnur bílamódel Hyundai.

Hyundai á Íslandi hefur þegar hafið vinnu við að hafa samband við þá viðskiptavini sem fengið hafa afhentan nýjan Kona EV og þá sem bíða afhendingar til að upplýsa viðskiptavini sína. Kynningarefni verður þegar í stað leiðrétt til samræmis við fyrirmæli Hyundai Motor.

mbl.is