30 milljónir Passat

Volkswagen Passat hefur náð því marki að seljast í 30 milljlónum eintaka. Þeim áfanga náði bíllinn í síðustu viku. Var þar á ferð silfurgrár Passat GTE Variant.

Enginn bíll í stærðarflokki Passat hefur selst svo vel en hann kom fyrst á götuna 1973, sama ár og Bretar gengu inn í Evrópusambandið, Víetnamstríðinu lauk og sænska hljómsveitin Abba tróndi á vinsældarlistum með laginu Ring Ring. Og í bílaframleiðslu komu til skjalanna annálaðir bílar eins og Honda Civic, Mazda 929, Mitsubishi Lancer og Toyota Starlet.

Passat var hannaður meðal annars með útivistarþarfir fjölskyldna í huga og bauð þannig upp á ríflegt farangursrými. Bíllinn var ýmist tveggja eða fjögurra dyra. Lengdin var 4,190 metrar, mitt á milli Polo og Golf á þeim tíma. Rýmið varð stærra er langbaksútgáfa sá dagsins ljós árið eftir.

Önnur kynslóðin sá dagsins ljós 1981 og nú er sú áttunda við lýði en hún kom á götuna haustið 2014. Í millitíðinni hafa mörg módelafbrigði séð dagsins ljós og andlitslyftingar. Hefur Passat séð tíu megin breytingar frá 1973. Til að anna eftirspurn fyrir bílnum var Passat um tíma framleiddur í 10 bílsmiðjum í þremur heimsálfum. Er hann að finna á götum í rúmlega hundrað löndum.

Í dag er Passat 4,887 metrar að lengd og 46 ára nútímabíll. Tímamótabíllinn er silfurgrár tengiltvinnbíll, Passat GTE Variant. Er hann táknrænn fyrir rafvædda bíla VW á næsta áratug aldarinnar.

Þrátt fyrir allt er Passat ekki vinsælasti bíllinn í sögu Volkswagen. Þann titil ber stallbróðir hans VW Golf, sem selst hefur í 35 milljónum eintaka. Í þriðja sæti er svo VW Bjalla sem seldist í 21,5 milljónum eintaka.

Eftir sem áður er Toyota Corolla heimsins vinsælasti bíll en hann hefur selt í 40 milljónum eintaka og er enn við hestaheilsu.

mbl.is