Aldursforseti fær höfuð til að snúast

Viktoría gamla á leið til bílaskránnar í Einbeck.
Viktoría gamla á leið til bílaskránnar í Einbeck.

Menn eiga því ekki alveg að venjast að sjá bíl frá 19. öld á ferð í umferðinni. Rykið hefur verið dustað af einum slíkum á fornbílasafni í Einbeck suður af Hannover í Þýskalandi.

Bíllinn er af gerðinni Benz og var smíðaður árið 1894. Hann hefur verið aðalnúmerið á PS Speicher-safninu í Einbeck. Um hann hefur verið vel hugsað og hann er sagður í fínu standi til aksturs. Á safninu hefur hann verið geymdur í risastórum glerskáp.

Nú er við því að búast að bíllinn, nefndur Viktoría gamla eftir heiti undirvagnsins, birtist á vegunum. Í vikunni sem leið voru smíðuð skrásetningarnúmer fyrir hann og fékk bíllinn lögreglufylgd á verkstæði af því tilefni. Númerið sem skráð var á hann hljóðar svo: EIN-PS 10H. Mætti af því skilja að vélin hafi verið aðeins eitt hestafl en svo er ekki; þau eru sex sem eini strokkur þriggja lítra vélarinnar skilaði, en hámarkssnúningshraði hennar er 700 snúningar á mínútu.

Bílar af þessari gerð voru smíðaðir á árunum 1893 til 1900 og var safngripurinn frá Einbeck sá 99. í röðinni og nýskráður í júlí 1894. Fyrsti eigandi hans var verksmiðjueigandi að nafni Alexander Gütemann, en hann sendi einkabílstjóra sinn eftir honum í Benz-verksmiðjuna í Mannheim hinn 18. júlí 1894.

Í 11 ár var hann mjög mikið notaður eða þar til annars konar Benz leysti hann af hólmi. Var vélin tekin úr og notuð til að snúa vélum í fyrirtæki Gütemanns. Lét hann síðar gera bílinn upp og vélina líka og í sínu upprunalega gervi tók hann þátt í ralli til heiðurs Carl Benz árið 1933.

Bíllinn var í eigu fjölskyldunnar í fjórar kynslóðir, þar til safnstjórinn Karl-Heinz Rehkopf og Gabriele kona hans fengu hann á safnið í Einbeck árið 2008. Í millitíðinni hefur hann tvisvar verið sendur til þátttöku í fornbílarallinu frá London til Brighton á Englandi. Þá hlaut hann sigurverðlaun í sínum flokki á Völuströnd í Kaliforníu (Pebble Beach). Það er þó fyrst nú að hann hefur fengið skráningu til aksturs í venjulegri umferð. Þegar liggur fyrir að hann muni taka þátt í fornbílasýningu sem hefst í Einbeck 28. júlí næstkomandi. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: