Óku um landið á einstökum bílum

Hópurinn á ferð í rigningarúða. Fremst má sjá bráðfallegan Lagonda …
Hópurinn á ferð í rigningarúða. Fremst má sjá bráðfallegan Lagonda LG6, árgerð 1936.

Samtals 38 fágætir bílar komu til landsins í tveimur hollum í sumarlok til að aka hringveginn. Bifvélavirkjar fylgdu hópnum á þjónustubíl, reiðubúnir að koma fornbílunum aftur af stað ef eitthvað skyldi bila eða skemmast.

Sumir bíltúrar eru betri en aðrir. Þetta veit hópur hollenskra og belgískra bílaunnenda sem heimsóttu Ísland í ágúst og september og tóku með sér flota fallegra og sjaldgæfra fornbíla. Ferðin var skipulögð af hollenska fyrirtækinu Wheels On Tour sem hjónin Lex van Lammeren og Lisbeth Moomsma reka í sameiningu. Lex lét á sínum tíma að sér kveða í viðskiptalífinu í heimalandi sínu og opnaði síðar bílabúðina Wheels by Lex sem sérhæfir sig í fornbílum og sérvöldum eldri bílum.

„Við höfum farið í ökuferðir hér og þar um Evrópu, aðallega á Spáni, í Frakklandi, Þýskalandi og á Ítalíu, en þetta er í fyrsta skipti sem Wheels On Tour stendur fyrir ferð svona langt frá okkar heimaslóðum. Kom okkur á óvart hvað Ísland er þó nálægt Hollandi, og bara stutt flug yfir til Reykjavíkur,“ segir Lex. „Við vissum ekki hvers við ættum að vænta og reiknuðum allt eins með að það myndi ganga illa að fylla hópinn enda dýrari ferð en við höfum selt hingað til og lengra í burtu. Við höfum að hámarki 30 bíla í hverjum hópi og viti menn að á innan við mánuði höfðu verið tekin frá pláss fyrir jafnmarga bíla svo það varð úr að skipta hópnum í tvennt. Komu samtals 38 bílar til landsins í sumar, og óku hringveginn með viðkomu hjá helstu náttúruperlum.“

Lítið pláss fyrir farangur

Wheels On Tour skipulagði ferðina í þaula og fengu þátttakendur að upplifa mikinn lúxus á leið sinni um landið. Kostaði ferðin um 11.000 evrur á bíl, m.v. tvo í herbergi, á sumum af bestu hótelum landsins og kvöldverðum í hæsta gæðaflokki. „Þátttakendur fengu í hendurnar ítarlega handbók sem vísar þeim veginn í kringum landið. Bílarnir lögðu af stað eftir hentugleika, oft nokkrir saman í hóp, og komu svo allir á endanum á næsta hótel í lok dags til að snæða saman kvöldverð í góðum félagsskap,“ útskýrir Lex.

Meðal þess sem Wheels On Tour þurfti að gera var að annast flutning á 38 bílum til landsins og segir Lex að ný skipaflutningatenging Smyril Line frá Rotterdam til Þorlákshafnar hafi hjálpað til að gera ferðina að veruleika. Er skip Smyril Line hentugt fyrir bílaflutninga og þurfti aðeins að koma bílaflotanum niður að höfn í Rotterdam, og svo flytja ökutækin áfram frá Þorlákshöfn til endanlegs áfangastaðar þar sem eigendur þeirra tóku aftur við lyklunum. Ekki er nóg með það heldur þarf að gera sérstakar ráðstafanir þegar haldið er af stað með gamla bíla í aðra eins langferð og ekki er heldur mikið pláss fyrir farangurstöskur í bílunum sem margir eru svo nettir að þeir rúma varla nema einn eða tvo bakpoka:

„Með í för var sérstakur þjónustubíll og í honum tveir bifvélavirkjar með öll helstu verkfæri og varahluti. Ef eitthvað skyldi bila þá væru þeir fljótir á staðinn, að laga það sem laga þyrfti og gætu nálgast varahluti með hraði ef þeir ættu þá ekki þegar til í bílnum. Í svona ferðum notum við þjónustubílinn líka til að ferja farangur á milli hótela: gestirnir einfaldlega merkja töskurnar sínar, sem er svo safnað saman í lok dags, og bíða þeirra inni á herbergi við komuna á næsta hótel,“ segir Lex.

Undanþága frá aldurskröfum vegna íslenskra aðstæðna

Í ferðum Wheels On Tour er mikið lagt upp úr því að þátttakendur aki á klassískum bílum og línan dregin við árið 1980. „Við þurftum samt að gera undantekningu að þessu sinni því sumir höfðu áhyggjur af að veðrið myndi ekki endilega vera hentugt fyrir fornbíla og því nokkrir nýlegri bílar með í för þar á meðal sportbílar frá 10. áratugnum.“

En af hverju að hafa fyrir því að koma fornbíl alla leið til Íslands þegar það mætti einfaldlega taka góðan jeppa á leigu og fara á honum um hringveginn? Lex segir það skapa allt aðra upplifun að vera á glæsilegum fornbíl og margir hafi yndi bæði af því að sýna sig og sjá aðra á fágætu ökutæki. Eins sækist fólk eftir því að njóta akstursupplifunarinnar sem fylgir mörgum af þessum klassísku bílum. „Sumir hafa líka óneitanlega gaman af athyglinni og verður bíllinn oft kveikjan að samræðum við ókunnuga þar sem stoppað er.“

Aðspurður hvernig vegakerfið hafi lagst í hópinn segir Lex ekki yfir neinu að kvarta. „Við héldum okkur nær einvörðungu við hringveginn og sneiddum markvisst hjá malarvegum,“ segir hann en teymi frá Wheels On Tour heimsótti Ísland með góðum fyrirvara, ók hringinn og kortlagði akstursleiðina í þaula. „Við höfum ekið í löndum með mun lakari vegi og þykir ástandið á Íslandi sæmilegt. Hámarkshraðinn er töluvert minni en í Evrópu en það þýðir þá bara að ferðalagið verður afslappaðra og hægt að virða betur fyrir sér landslagið. Áttu allir okkar gestir það sameiginlegt að þykja mikið til náttúrufegurðarinnar koma og ævintýri að aka um svona hrikalegt landslag.“

Svo er það hluti af skemmtuninni að ferðast saman í hóp og segir Lex að góður andi sé við kvöldverðarborðið þegar ferðalangar hittast og deila áhugaverðum sögum. „Meðalaldurinn í hópnum er á bilinu 60-70 ár en nokkrir yngri sem slæðist með. Hópurinn er fjölbreyttur en flestir eiga það þó sameiginlegt að vera sestir í helgan stein eftir að hafa náð langt í atvinnulífinu og eiga því ekki nokkrum vandræðum með að halda uppi góðum samræðum sín á milli um ástríðuna fyrir bílum og uppátæki á löngum ferli.“

Fleiri bílaferðir eru á döfinni og er stefnan sett á Suður-Afríku næsta ár. Tekur Lex það fram að þar verði gætt mjög vandlega að öryggi hópsins enda þarf að fara varlega á sumum stöðum í þessu annars fallega og heillandi landi. „Við setjum svo aðra ferð til Íslands á dagskrá, að tveimur árum liðnum.“

Erlendir fornbílar óku hringinn á ferð sinni um Ísland.
Erlendir fornbílar óku hringinn á ferð sinni um Ísland. mbl.is/Árni Sæberg
Jaguar XK150DHC, árgerð 1960 á gráum en hrífandi sumardegi. Hópurinn …
Jaguar XK150DHC, árgerð 1960 á gráum en hrífandi sumardegi. Hópurinn var ánægður með akstursupplifunina og óviðjafnanlegt landslagið.
Erlendir fornbílar óku hringinn á ferð sinni um Ísland.
Erlendir fornbílar óku hringinn á ferð sinni um Ísland. mbl.is/Árni Sæberg
Í hópnum var m.a. þessi Ferrari 360 í óvenjulegum heiðbláum …
Í hópnum var m.a. þessi Ferrari 360 í óvenjulegum heiðbláum lit. mbl.is/Árni Sæberg
Porsche 911, árgerð 1986, nýtur útsýnisins.
Porsche 911, árgerð 1986, nýtur útsýnisins.
Kommið á áningarstað á Wheels on Tour hringferð Hollendinga um …
Kommið á áningarstað á Wheels on Tour hringferð Hollendinga um Ísland.
Áning á Wheels on Tour hringferð Hollendinga um Ísland.
Áning á Wheels on Tour hringferð Hollendinga um Ísland.
Erlendir fornbílar voru á ferð um Ísland, hér er það …
Erlendir fornbílar voru á ferð um Ísland, hér er það Porsche. mbl.is/Árni Sæberg
Lex van Lammeren.
Lex van Lammeren. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: