Toyota eykur hlut í Subaru

Nýir Subarubílar bíða afhendingar.
Nýir Subarubílar bíða afhendingar. AFP

Japanski bílsmiðurinn Toyota hefur aukið hlut sinn í stallbróðurnum Subaru úr 17 í 20%.

Þetta gæti meðal annars þýtt að Subaru birtist í ársreikningi Toyota sem samstarfsfyrirtæki.

Samvinna Toyota og Subaru á sviði bílaframleiðslu hófst árið 2005 og þykir stækkun eignarhlutar Toyota í Subaru því meira sem formsatriði.

Fyrirtækin tvö hafa nú staðfest, að þau eru í samstarfi um þróun arftaka sportbílsins GT86/BRZ. Hann gæti komið á götuna árið 2021 og lofað er meiri akstursánægju í honum en njóta má í Toyota Supra.

Auk þessu eiga bílsmiðirnir með sér samstarf um þróun rafbíla, nýtt og háþróað fjórhjóladrif og sjálfaksturstækni. 

mbl.is