Gaman að sjá viðbrögðin hjá þeim sem prófa

Herjólfur hjá Tesla segir reynsluakstursbílana koma vel undan erfiðum vetri. …
Herjólfur hjá Tesla segir reynsluakstursbílana koma vel undan erfiðum vetri. Á Íslandi eru kjöraðstæður fyrir rafmagnsbíla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óhætt er að segja að Íslendingar hafi beðið óþreyjufullir eftir komu bandaríska rafbílaframleiðandans Tesla. Er þess skemmst að minnast þegar hópur íslenskra Tesla-eigenda setti myndband á YouTube þar sem þeir biðluðu til Elons Musks að opna útibú í landinu.

Stóra stundin rann upp 9. september og síðan þá hefur verið nóg að gera í sýningarsalnum á Krókhálsi 13. Greinilegt er að viðtökurnar hafa verið góðar því fyrir skemmstu birtu fjölmiðlar myndir af glænýjum Tesla-bifreiðum sem biðu í löngum röðum á hafnarsvæðinu, nýkomnar til landsins. Má reikna með að áður en langt um líður verði Tesla-bifreiðar orðnar algeng sjón á götum Reykjavíkur.

Herjólfur Guðbjartsson er framkvæmdastjóri hjá Tesla á Íslandi og segir hann að ekki hafi farið framhjá rafbílaframleiðandanum hve áhugaverður íslenski markaðurinn væri. „Mikil hugarfarsbreyting hefur átt sér stað hjá Íslendingum og almenningur er áhugasamur um að skipta yfir í rafmagnsbíla. Þá er raforkan hrein og sjálfbær, og má segja að á Íslandi séu kjöraðstæður fyrir rafmagnsbíla.“

Einfalt pöntunarferli

Tesla hefur fyrir löngu vakið mikla athygli fyrir hugvitssamlegar lausnir og nýstárlega nálgun við bílasölu og -framleiðslu. Þannig er sá munur á Tesla á Íslandi og öðrum seljendum nýrra bíla að Tesla í Krókhálsi er útibú sjálfs bílaframleiðandans en ekki bílaumboð. Viðskiptin fara því fram milliliðalaust, og með tæknivæddari hætti en íslenskir neytendur eru vanir því hægt er að panta nýja Teslu yfir netið, á www.tesla.com, með næstum jafn einföldum hætti og að panta pítsu. Þarf einfaldlega að velja módel, lit, felgur og aukahluti, og gefa upp korta- eða bankaupplýsingar og eru kaupin þá klár.

„Það er útgangspunktur í starfseminni að einfalda bílakaupin og hafa upplifun viðskiptavinarins ekki óþarflega flókna. Þegar komið er á vefsíðuna okkar fær viðskiptavinurinn ekki langan lista af alls konar aukahlutum til að bæta við eða sleppa,“ útskýrir Herjólfur. „Meðal þeirra valkosta sem kaupendur hafa er að velja á milli tvenns konar drifkerfa, fimm lita, þriggja tegunda af felgum, allt að fimm útfærsla af innréttingu, og hvort bíllinn er með eða án fullrar sjálfkeyrslugetu. Þá má fjármagna kaupin ýmist í gegnum samstarfsaðila okkar eða að viðskiptavinurinn fær fjármögnun annars staðar frá ef það hentar honum betur.“

Mikið gegnsæi einkennir allt ferlið og í hverju skrefi fer ekki á milli mála hvað hlutirnir kosta. „Tesla leggur ríka áherslu á að allir sitji við sama borð, og er sama verðið í boði fyrir alla,“ segir Herjólfur, en sem dæmi um verð á aukabúnaði og litum kostar aukalega 127.000 kr. án vsk. að fá Model 3 í svörtum lit frekar en hvítum, og 127.000 kr. án vsk. að skipta úr svartri innréttingu í hvíta. Á öllum bílum Tesla á Íslandi kostar full sjálfkeyrslugeta um 762.000 kr aukalega, án vsk.

Herjólfur segir allar gerðir Tesla-bifreiða í boði á Íslandi og að afgreiðslutíminn svipaður og annars staðar í heiminum. Hver bíll er sérpantaður eftir höfði kaupandans og smíðaður jafnharðan í einni af verksmiðjum Tesla. „Alla jafna má reikna með að afgreiðslutíminn sé í kringum 2-3 mánuðir. Tesla á og rekur sína virðiskeðju alveg frá A til Ö svo að boðleiðir eru stuttar og ferlið gengur hratt fyrir sig frá pöntun til smíði og afhendingar.“

Áhugasamir panti tíma

Straumur fólks hefur legið í sýningarsal Tesla frá opnun og segir Herjólfur að áhugasamir þurfi helst að panta tíma fyrir reynsluakstur ella hætta á að þurfa að bíða eftir að bíll losni. Hann segir þá sem fengið hafa að prófa oft vera að keyra rafmagnsbíl í fyrsta sinn og gaman sé að sjá viðbrögðin. „Sumir hafa fengið forskot á sæluna og keyrt Teslu erlendis, og aðrir voru löngu búnir að gera upp hug sinn um að kaupa rafmagnsbíl og voru einfaldlega að bíða eftir að Tesla kæmi,“ segir Herjólfur. „Upp til hópa er fólk mjög hrifið og sumir ganga svo langt að segjast ekki getað hugsað sér að keyra neitt annað í framtíðinni.“

Til að bæta þjónstuna við Tesla-eigendur er nú unnið að því að setja upp fjórar háhraðhleðslustöðvar hringinn í kringum landið, og mun þeim fara fjölgandi eftir því sem fram líða stundir. Þessar stöðvar eru margfalt öflugri en venjulegar hraðhleðslustöðvar, aðeins hægt að nota þær til að hlaða Tesla-bifreiðar, og er notkun þeirra ókeypis fyrir Model S og Model X, en eigendur Model 3 greiða fyrir hleðsluna.

Hvernig eru svo bílarnir að reynast við íslenskar aðstæður? Veturinn hefur verið kaldur og erfiður og því gefst ágætis tækifæri til að láta Teslurnar sanna sig við krefjandi skilyrði: „Okkar bílar eru að koma vel undan vetri. Þeir eru með mjög öflugri spól- og skriðvörn, og þar sem rafhlöðurnar eru í gólfinu er þyngdarpunkturinn mjög lágur, sem gerir þessar bifreiðar einstaklega stöðugar á veginum,“ svarar Herjólfur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »