Bílabúð Benna fagnar 45 árum

Bílabúð Benna fagnar 45 ára afmæli sínu í ár, en fyrirtækið var stofnað í maí 1975.

Í tilkynningu frá búðinni segir að upphafið á 45 ára sögu fyrirtækisins megi rekja til þess að Benedikt Eyjólfsson og Margrét Beta Gunnarsdóttir, þá bæði 17 ára gömul, höfðu komið sér upp aðstöðu fyrir bíla- og mótorhjólaviðgerðir, í óupphituðum skúr að Vagnhöfða 23.

Hann gekk undir heitinu „Græni skúrinn“ og þar var lagður grunnur að rekstri, sem nú hefur staðið í 45 ár. Að sögn Benedikts mun fyrirtækið fagna þessum tímamótum með margvíslegum hætti í ár.

 „Þetta verður sannkallað afmælissumar hjá okkur, því svo skemmtilega vill til að afmælisárið ber upp á sama tíma og planið var að frumsýna virkilega spennandi nýja bíla frá Opel og Porsche.“ segir Benedikt.

 „Þar má nefna tímamótabílinn Porsche Taycan 100% rafbíl, metsölubílinn Opel Corsa, sem kemur nú 100% rafdrifinn og síðast en ekki síst, 300 hestafla 4X4, Opel Grandland X E Hybrid, sem er hreint magnaður jeppi fyrir fjölskylduna Afmælissumarið mun því einkennast af mörgum veglegum viðburðum og tilboðum og við hlökkum til að hitta sem flesta af gömlum og nýjum viðskiptavinum,“ segir Benedikt.

mbl.is