Suzuki kynnir nýjan jeppa

Suzuki Across kemur á götuna í september.
Suzuki Across kemur á götuna í september.

Suzuki kynnti í fyrstu viku júlímánaðar nýjan jeppa, að nafni Across. Hann er tápmikill og sportlegur að sjá.

Bíllinn er búinn háþróaðri tengiltvinn aflrás, hinni fyrstu sem er að finna í bíl frá Suzuki. Across er smíðaður hjá Toyota og er fyrsta afurð samstarfs japönsku fyrirtækjanna tveggja um þróun og bílsmíði.

Ekki þarf að koma á óvart þótt svipur þyki með Suzuki Across og Toyota RAV4. Segja má að skyldleikar þeirra séu miklir og það útaf fyrir sig er sagt tryggja gæði nýja jeppans.

Búist er við að fyrstu Across bílarnir renni af færiböndunum í september næstkomandi. Er hann góð viðbót við bílaframboð Suzuki sem samanstendur af S-Cross, Vitara, Swift og Ignis.
 
Rætt er um að Across dragi 75 kílómetra á rafmagninu einu. Hann er búinn rafeindastýrðu drifi á öllum fjórum hjólum. Í aflrásinni er að finna 2,5 lítra bensínvél og tvo rafmótora sem sameiginlega skila allt að 306 hestöflum til hjólanna. Það er honum talið til tekna að farangurshólfið er 506 lítra. Bitnar stærð þess hvorki á þægindum farþega né bílstjóra.

mbl.is

Bloggað um fréttina