Skiptir um nafn og verður sprækari

Toyota GR86 hinn nýi.
Toyota GR86 hinn nýi.

Toyota áformar að leggja hvað úr hverju GT86 sportbílnum og koma með annan í hans stað mun sprækari og öllu sportlegri bíl. Er honum ætlað að stimpla sig vel inn í flokki sportgötubíla.  

Bíllinn mun í módelnafni sínu breytast úr GT86 í GR86 sem standur fyrir Gazoo Racing, sportbílalínu Toyota sem í eru fyrir GR Supra og GR Yaris.

Toyota GT86 var hleypt af stokkum árið 2012 og hefur um ævidagana selst í rúmlega 200.000 eintaka. Hefur hann verið lofaður fyrir þægilega meðferð og aksturseiginleika, svo og fyrir hóflegt kaupverð.

Hinn nýi GR96 mun um margt njóta úr fyrirrennaranum  en er að sögn Toyota á nokkrum sviðum endurbættur sem bílsmiðurinn segir skila enn meiri akstursánægju. Talsvert var lagt í að létta GR bílinn, svo sem með áli í þaki og yfirbyggingu. Fyrir vikið mun hann verða léttasti fjögurra sæta bíllinn í stærðarflokknum.

GR86 verður kraftmeiri en forverinn með nýrri boxervél sem nú er 2,4 lítra. Lítið hefur annars verið látið uppi um tæknileg atriði bílsins sem seldur verður í Evrópu. Bandaríska útgáfan verður með 232 hestafla vél  sem togar af allt að 239 Nm afli sem skilar bílnum úr kyrrstöðu í hundraðið á 6,3 sekúndum, samanboriði við 7,4 sekúndur hjá  GT86.

mbl.is