Renault Kangoo valinn sendibíll ársins

Renault Kangoo.
Renault Kangoo. Ljósmynd/Renault

Ný kynslóð hins geysivinsæla sendibíls Renault Kangoo, sem kemur á markað á næsta ári, hlaut í nóvember alþjóðlega titilinn Sendibíll ársins 2022, eða „The International Van of the Year award“ (IVOTY), sem dómnefnd 24 evrópskra bílablaðamanna valdi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá BL, sem fer með umboð fyrir Renault á Íslandi.

Þar segir að Renault Kangoo hafi orðið hlutskarpastur í flokki minni sendibíla ásamt Mercedes-Benz Citan sem kepptu um titilinn með tólf öðrum sendibílum sem dómnefnd skoðaði á árinu. Þetta er í fjórða sinn sem sendibílar Renault hljóta verðlaunin, en þau hlutu áður Master 1998, Trafic 2002 og Kangoo Z.E. 2012.

Hindrunarlaust aðgengi

Ein helsta nýjungin í skipulagshönnun nýrrar kynslóðar Renault Kangoo er víð og hindrunarlaust aðgengi sem myndast við opnun rennihurðarinnar á hlið bílsins og farþegahurðarinnar framan við hana því enginn hurðarstafur er þar lengur á milli.

Er hliðaraðgengið nú alls 1,45 m breitt sem auðveldar mjög notendum bílsins að hlaða bílinn vörum en alls getur gólfplássið í bílnum verið 3,9 fermetrar án framsætis farþegamegin. Bíllinn tekur allt að 600 kg hleðslu sem hægt er að auka í 800 kg með því að fjarlægja á auðveldan hátt framsætið farþegamegin. Með ásetningu dráttarkróks má Renault Kangoo draga allt að 1,5 tonn.

Bætt farþegarými

Farþegarýmið hefur enn fremur verið endurhannað til aukinna þæginda fyrir ökumann. Meðal annars hafa hólf fyrir geymslu ýmissa hluta verið aukin í alls 60 lítra, hægt er að koma fyrir tveimur aukasætum við hlið ökumanns og með niðurfellingu miðjusætisins verður til vinnuaðstaða undir blöð, teikningar eða fartölvu. Þá er nýr Renault Kangoo enn fremur búinn EASY-Link afþreyingar- og margmiðlunarkerfinu sem stjórnast af 8“ skjá, farsímadokku með 15W þráðlausri hleðslu, tveimur USB-innstungum og jafn mörgum 12 volta innstungum. Einnig er sendibíllinn með lykillaust aðgengi, baksýnisaðstoð, virka neyðarhemlun, sveifluaðstoð fyrir kerru, virka hraðastýringu og akreinaraðstoð svo nokkuð sé nefnt.

Vélar í boði

Nýr Renault Kangoo verður í fyrstu boðinn með afkastamiklum og sparneytnum vélum þar sem val er um annað hvort 1,3 lítra TCe bensínvél eða 1,5 lítra Blue dCi dísilvél, sem boðnar eru með 6 gíra beinskiptingu eða 7 gíra EDC sjálfskiptingu.

100% rafknúinn Renault Kangoo

Eins og fráfarandi kynslóð verður nýr Renault Kangoo einnig boðinn í 100% rafknúinni útfærslu frá og með næsta vori. Sendibíllinn verður búinn 90kW rafmótor og 45kWh rafhlöðu sem veitir ökumanni allt að 300 km akstursdrægni á hleðslunni og möguleikann til að hlaða allt að 170 viðbótarkílómetrum á rafhlöðuna á aðeins 30 mínútum.

Til BL vorið 2022

Renault Kangoo kemur á markað á helstu lykilmörkuðum Evrópu snemma árs 2022 og Renault Kangoo Electric næsta vor og verða báðar gerðir sýndar um sama leyti hjá BL við Sævarhöfða

mbl.is