Bíllinn á lager en verð hækkar um áramótin

Friðbert Friðbertsson.
Friðbert Friðbertsson. mbl.is/Styrmir Kári

Síðustu ár hafa stjórnvöld stutt orkuskipti í samgöngum með sérstökum aðgerðum. Um áramótin fellur niður fyrri hluti virðisaukaskatts-ívilnunar stjórnvalda á tengiltvinnbílum (e. Plug-In hybrid) og  seinni hlutinn fellur niður þegar 15.000 slíkir bílar hafa verið nýskráðir.

Hvor hluti ívilnunarinnar er 480 þúsund, og má því búast við að verð bílanna muni hækka töluvert á komandi misserum.

Greint var frá þessu í Morgunblaðinu í dag þar sem fram kom að flestir tengiltvinnbílar bílaumboðanna Öskju og Toyota á Íslandi væru annaðhvort seldir upp eða fráteknir til áramóta.

Fjórhjóladrifinn tengiltvinnbíll á lager

Sama er ekki upp á teningnum hjá bílaumboðinu Heklu, en forstjóri umboðsins segir það eiga Mitsubishi Eclipse-tengiltvinnbílinn til á lager.

„Við eigum bíla,“ segir Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, og bætir við að hann sé til afgreiðslu strax.

„Mitsubishi Eclipse er nýr bíll sem hefur selst vel,“ segir Friðbert. Um sé að ræða fjórhjóladrifinn tengitvinnbíl, arftaka Mitsubishi Outlander sem hafi lengi vel verið mest seldi tengiltvinnbíll landsins.

Friðbert segir tengiltvinnbíla hafa verið sérstaklega vinsæla hjá fölskyldum sem aka fáa kílómetra á virkum dögum en nýta helgar til lengri ferða, íþrótta og útiveru.

„Þá er hægt að aka um á rafmagni innanbæjar og svo taka hefðbundnir orkugjafar við í lengri ferðum,“ segir hann.

„Það hefur verið mikil traffík og góð sala og fólk er áhugasamt um að nýta sér hafstætt verð á tengiltvinnbílum áður en ívilnanir verða felldar niður.“

Ísland orðið svakalegt „rafmagnsbílaland“

Friðbert segir fólk komið með töluvert meiri reynslu af rafmagnsbílunum sem lýsi sér í aukinni sölu. „Fólk kemst að því að þetta virkar og hleðslustöðvum fjölgar,“ segir hann og nefnir að drægnin sé orðin meiri og úrval betra. „Þú kemst allt sem þú þarft að komast á bílnum þínum.“

Þá séu hreinir rafmagnsbílar að sækja í sig veðrið.

„Ísland er náttúrlega á svakalegri siglingu sem rafmagnsbílaland. Norðmenn eru á undan okkur en við erum númer tvö í röðinni þegar kemur að nýskráningum á fjölda rafmagnsbíla.

Það er bara hið besta mál.“

mbl.is