Nýr Mustang verður tengiltvinnbíll

Ford Mustang af árgerðinni 2015 á sýningu í LosAngeles í …
Ford Mustang af árgerðinni 2015 á sýningu í LosAngeles í Bandaríkjunum. AFP

Banadríski bílaframleiðandinn Ford er nú á lokastigum prófana fyrir nýjan Mustang og undirbýr sjöundu kynslóð þessa sögufræga módels.

Í ein 58 ár hefur Mustang glatt bílaáhugamenn og svo virðist sem nýjasta uppfærslan, sem væntanleg er á næsta ári, verði ein sú merkilegasta í sögu fáksins fljúgandi. Á myndum sem birtust í blaðinu Autocar má sjá æði hrátt ytra byrði bílsins og virðist Ford vera að reyna að þróa – frekar en að umbylta – þekktu útliti bílsins, löngum og kraftmiklum línum hans. Mustanginn verður seldur samhliða nýja Mustang Mach-E rafjepplingnum, sem þegar er kominn í sölu og hefur vakið verðskuldaða athygli.

Nýr Mustang verður fjórhjóladrifinn með V8-vél sem knýr afturhjólin en með framhjólin knúin af rafmótor. Þá verður hægt að skipta á milli hreins rafaksturs og blandaðs aksturs eins og þurfa þykir svo lengi sem rafhlaða og eldsneytistankur leyfa.

Eins og fram kemur í einkaleyfi sem búið er að samþykkja fyrir nýja Mustanginn verður hvert hinna fjögurra hjóla drifið áfram af sérmótor með sérstakri tækni sem gerir bílnum kleift að minnka spól og auka hröðun. Til viðbótar má nefna að rafmótorarnir verða staðsettir hvor við sitt hjólið að framan sem sparar pláss og gerir auðveldara að veita afli til hvors framöxuls fyrir sig. Meira vildi talsmaður Ford ekki segja og því bíða bílaáhugamenn um heim allan með öndina í hálsinum eftir frekari fréttum af nýjum Mustang. oddurth@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: