Jeep Grand Cherokee Spurt: Ég ætla að skipta um bíl og er að velta fyrir mér Jeep Grand Cherokee Laredo, árgerð 2005- 2007. Einhver sagði mér að einhver vélin í þessum bílum væri með gallaðar ventlastýringar. Er eitthvað til í því?

Jeep Grand Cherokee

Spurt: Ég ætla að skipta um bíl og er að velta fyrir mér Jeep Grand Cherokee Laredo, árgerð 2005- 2007. Einhver sagði mér að einhver vélin í þessum bílum væri með gallaðar ventlastýringar. Er eitthvað til í því? Var að lesa umsögn um eldri árgerðir af þessum bílum á vefsíðunni þinni (Bílaprófanir). En langar að vita hvernig þeir nýrri hafi reynst. Eru þeir ekki allir fjórhjóladrifnir? Hvernig er þjónustan fyrir þessa bíla? Ég er spenntur fyrir V8 4,7 lítra vélinni. Hvernig hefur hún reynst? Hvað ætti maður að gera ráð fyrir mikilli eyðslu?

Svar: Grand Cherokee kom með 235 ha 4,7 V8-vél 1999 og út árgerð 2004. Árgerð 2002, til og með árgerð 2004, var fáanleg með 265 ha 4,7 V8 (HO = High Output). Árgerð 2005 er hins vegar alveg nýr og breyttur bíll en samt fáanlegur með þessari 4,7 HO-vél en með verulega bættum mengunarvörnum frá og með árgerð 2008. Þeir sem hafa farið að leiðbeiningum um forvarnarviðhald og sinnt reglulegu eftirliti og olíuskiptum hafa nánast undantekningarlaust góða reynslu af Grand Cherokee 4,7 og 4,7 HO (sem er skemmtilegri). Fjórhjóladrifið er sítengt (QuadraTrac) með takkavirku lágu drifi. Vél- og drifbúnaður hefur reynst mjög vel. Það kann að vera að einhver vandamál með ventlastýringar hafi verið í eldri árgerðum þótt ég kannist ekki við það sem neinn faraldur. Þetta er einn mest seldi bíllinn í Bandaríkjunum fyrr og síðar. Hann væri það ekki ef hann væri einhver gallagripur en vegna þess hve eigendur eru margir er enginn furða þótt jarmurinn í þeim heyrist langar leiðir – enda eru Bandaríkjamenn einstakir nöldrarar varðandi bíla. Eyðslan í blönduðum akstri er 16-17 lítrar (eyðslan er talsvert minni sé notað V-Power-bensín). Mín niðurstaða: – Þessir jeppar eru raunverulegur lúxus, enda „alvöru bílar“ og ódýrir miðað við gæði og búnaðarstig. Bíljöfur í Kópavogi sérhæfir sig í þjónustu við Jeep/Chrysler-bíla. IB og Jeppasmiðjan á Selfossi hafa veitt góða þjónustu varðandi viðgerðir og varahluti auk þess sem Bílabúðin í Kópavogi hefur átt eða pantað flesta hluti í þessa bíla.

Ford Econoline: Engin lausgangsstýring

Spurt: Econoline 7,3 lítra turbo-Diesel. Forhitar eðlilega og góð í gang. Á að bæta við inngjöf í lausagangi og draga úr þegar hún hitnar. Eftir að skipt var um sleflagnir og þéttingar virkar þessi sjálfvirka inngjafarstýring ekki og verður því að standa aðeins á gjöfinni á meðan vélin er að hitna. Það er nánast eins og eitthvað hafi bara dottið úr sambandi. Ég er búinn að yfirfara allar tengingar í kringum forhitunarbúnaðinn og allt sem ég sé nálægt eldsneytiskerfinu, en án árangurs. Vélin gengur samt vel eftir að hafa hitnað. Hvað getur valdið þessu?

Svar: Á þessum 7,3 Navistar-vélum (gamli Nallinn á undan PowerStroke) er hröðun lausagangsins framkvæmd með segulrofa á olíuverkinu (Fast Idle Solenoid). Hann fær rafboð frá skynjara á milliheddinu nálægt vatnshosunni. Hefurðu ekki bara gleymt að tengja þennan pung eða leiðslan frá skynjaranum losnað af? (Í PowerStroke er forhituninni og lausaganginum stýrt með vélartölvunni).

Stirt stýri í Opel

Spurt: Stundum er vökvastýrið í Opelnum mínum stirt fyrst þegar bílnum er ekið af stað. Þá þarf töluvert átak til þess að snúa stýrinu. Hvað getur valdið þessu?

Svar: Vanti ekki vökva á stýrið er hjöruliður á stýrisstönginni ónýtur.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)