Biluð Mazda 323 Spurt: Ég er með Mözdu 323F, 1500 sjálfskipta, ekna 116 þús. Árg. 2001. Hann stóð ónotaður nokkuð lengi fyrir nokkrum árum en hefur gengið vel nema 1.

Biluð Mazda 323

Spurt: Ég er með Mözdu 323F, 1500 sjálfskipta, ekna 116 þús. Árg. 2001. Hann stóð ónotaður nokkuð lengi fyrir nokkrum árum en hefur gengið vel nema 1. gírinn hefur verið lengi að taka við sér og stundum hefur komið svona yfirsnúningur áður en hann grípur. Nú hefur bæst við að vélin er kraftlaus sé hægt á og vill drepa á sér. Við inngjöf tekur hún við sér en þá gýs upp hitalykt. Standi vélin í 10 mín. fer hún í gang eðlilega. Ný kerti breyttu engu.

Svar: Varðandi sjálfskiptinguna: Láttu endurnýja vökva og síu í skiptingunni. Um leið þarf að kanna stirða loka í ventlaboxinu. Talaðu við þá hjá Smurstöðinni Klöpp við Vegmúla í Reykjavík. Varðandi vélina: Lýsing þín bendir til þess að fleira en eitt atriði gæti valdið þessu (hluti af dæminu getur verið vegna sjálfskiptingarinnar). Í fyrsta lagi skaltu útiloka rakamettun í eldsneyti með því að setja góðan slurk af ísvara (isopropanól) í bensíngeyminn og endurnýja bensínsíuna. Lagist ástandið ekki við ísvarann berast böndin að toppstöðunemanum (Crank sensor) sem er í haldara við neðri trissuna framan á vélinni. Sennilega færðu hann hvergi nema í umboðinu (prófaðu samt að tala við Samúel hjá Vöku). „Hitalykt“ er ráðgáta. Hverfi kælivökvi af kerfinu getur ástæðan verið lek heddpakkning – ef ekki getur hvarfakúturinn verið stíflaður – (hann færðu fyrir þriðjung hjá BJB í Hafnarfirði). Þeir á Klöpp geta fundið út úr því fyrir þig (væri súrefnisskynjari bilaður eða háspennukefli myndi bilunarljósið lýsa).

Um dekkjaval

Spurt: Langar að spyrja hvort þú haldir að muni í eyðslu á Cherokee jeppa við skipti á dekkjastærð 245/65 yfir í 275/65?

Svar: Tæplega. Eyðslan ræðst ekki af breidd sólans nema að litlu leyti. Breiðari dekk (275 mm) auka stöðugleika á þurru undirlagi en hafa meiri tilhneigingu til að fljóta í vatnsveðri sé munstur ekki því mun betra. Tegund dekkja og munstur ræður meiru: Örskorin heilsársdekk frá BFGoodrich, Toyo, (Benni) Michelin (N1), Bridgestone (Betra grip), Mastercraft (Sólning) hafa minnst vegviðnám og þannig mest áhrif á sparneytni. Verðið er misjafnt. Síðast þegar ég kannaði verð reyndust bestu kaupin, að mínu mati, í Toyo.

HiLux-bremsur

Spurt: 91 árg. af HiLux á 38“. Bremsurnar að aftan fá ekki nógan þrýsting. Prófaði að fjarlægja hleðslujafnarann en ekkert breyttist. Handbremsan virkar einnig illa. Bremsurnar taka eðlilega en ná ekki að læsa, heldur ekki handbremsan. Allir stimplar í dælum eru í lagi og enginn leki, nýir borðar að aftan og fullloftað og hert út í. Ég er ráðþrota.

Svar: Hleðslujafnarinn á að minnka þrýsting í framdælum og flytja hann á afturdælur til að diskabremsurnar að framan læsist ekki við neyðarstöðvun. Hleðslujafnarinn hefur ekki verið í lagi, án jafnarans minnkar þrýstingur í afturdælum – settu nýjan hleðslujafnara og sjáðu hvort það lagar ekki ástandið. Undarlegt þetta með handbremsuna – ertu viss um að kjálkarnir og togbúnaðurinn fyrir handbremsuna sé rétt saman settur – (þetta er draslbúnaður í Toyota) geta skálarnar verið gatslitnar (rifnar)?

Hvaða vökvi á að fara á kúplingu?

Spurt: Gamall MMC Lancer. Kúplingin tekur of ofarlega. Hvaða vökvi er notaður á hana og hvernig er hún lofttæmd?

Svar: Bremsuvökvi (DOT3). Loftnippill er á þrælnum ofan á kúplingshúsinu. Loftað eins og bremsur (með aðstoðarmanni).

Stykki sem oft gleymist að þrífa

Við vorhreingerningu bílsins virðast margir gleyma stýrishjólinu og gírhnúðnum. Sé dregið yfir þessa snertifleti með volgri tusku bleyttri í sápuvatni rekur marga í rogastans. Óhreinindin, sem geta safnast fyrir á þessum hlutum, geta verið með hreinum ólíkindum, jafnvel hjá þrifnasta fólki. Það gleymir að fleiri koma við sögu en það sjálft og þetta er kjörin gróðrarstía fyrir ýmislegt sem viðkomandi vill helst ekki vita af, frekar en það sem leynist á lyklaborði tölvunnar sem þrifið var fyrir 6 mánuðum.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)