Nissan DoubleCab titrar Spurt: Er í vandræðum með 35“ breyttan (hækkaður 3" á grind) Nissan Diesel DoubleCab árg.'04 vegna titrings í stýri sem lagast ekkert þótt hjól séu jafnvægisstillt eða víxlað á milli fram- og afturhásinga.

Nissan DoubleCab titrar

Spurt: Er í vandræðum með 35“ breyttan (hækkaður 3" á grind) Nissan Diesel DoubleCab árg.'04 vegna titrings í stýri sem lagast ekkert þótt hjól séu jafnvægisstillt eða víxlað á milli fram- og afturhásinga. Á einu verkstæði var mér sagt að þessir bílar þyldu bara ekki að vera hækkaðir upp; grindin gliðnaði bara og stanslaust þyrfti að bæta við skinnum í stýrisendana til að lágmarka misslit á framdekkjum. Er þetta rétt?

Svar: Áður en því er slegið föstu að bíllinn þoli ekki upphækkun væri ráð að kanna hvort stimpill í bremsudælu að framan kunni að vera fastur – það er algeng ástæða titrings eins og þú lýsir. Það er ekki sama hvernig fjórhjóladrifsbílum er breytt. Upphækkun getur þýtt að sérstakra styrkinga sé þörf til að varna því að undirvagn aflagist við álag. Það gildir um margar tegundir pallbíla og jeppa, hefur lítið með upphaflegan styrk þeirra að gera en krefst þekkingar af þeim sem breytir.

Rav4: Xenon-ökuljós

Spurt: Er með Rav4 '06 árgerð sjálfskiptan. Hef verið að velta fyrir mér skipta út perunum í bílnum fyrir Philips BlueVision. Hafði þá hugsað mér að setja þær í þokuljósin líka. Hvernig fer ég að þegar ég skipti um peru í þokuljósunum, er það mikið vesen? Má nota sömu perur í þokuljósin og í aðalljósin. Hvernig er best að þrífa blöðin á rúðuþurrkunum?

Svar: Þú færð Xenon-sett (spenna og perur) hjá Poulsen, Stillingu og víðar. Það á ekki að vera mikið mál að skipta um perur í þokuljósunum en þau þarf að losa úr stuðaranum aftan frá. Þú getur ekki notað sömu perur í þokuljósin og í aðalljósin – þokuljósin eru dreifiljós sem lýsa stutt framfyrir en því meira til hliðanna. Í þeim eiga að vera sérstakar perur til að þau verði ekki of skær. Margir rugla saman dreifiljósum, sem sitja neðarlega, og kösturum sem eru í sömu hæð og ökuljós eða ofar og tengdir þannig að þeir lýsa einungis með háa geisla ökuljósanna. Þurrkublöð má þrífa með ísóprópanóli eða kveikjarabensíni. Nota má yngingarefni (Son of a Gun eða sambærilegt) á blöðin eftir þrif til að gera þau léttari/hálli.

Toyota Avensis: Biluð inngjöf

Spurt: Ég er með Avensis-vandamál sem umboðið hefur ekki getað leyst. Um er að ræða Avensis 2000 árg. '98. Þegar bílnum hefur verið ekið í um 30 mín eða svo á bensíngjöfin það til að festast uppi. Þá er það til ráða að svissa af bílnum og á hann aftur og þá losnar inngjöfin. Ég tek eftir því að ef bíllinn er ekki í gangi (þ.e. ekki svissað á hann), er bensíngjöfin hjólliðug, en um leið og svissað er á virðist hún vera aðeins stíf, þ.e. ekki alveg stiglaus. Hvað er til ráða?

Svar: Þessi bensíngjöf er rafvirk. Það þýðir að ekki er barki frá pedala í inngjafarspjald. Pedallinn er þrepalaus rofi tengdur með rafleiðslum rafsegulmótor sem knýr inngjafarspjaldið. Stundum bilar rofinn vegna óhreininda. Reynandi er að taka rofann/pedalan úr og hreinsa hann með blæstri. Dugi það ekki þarf að endurnýja hann. Um leið ætti að þrífa inngjafarspjaldið. Eftir að loftbarkinn hefur verið losaður frá er auðveldast að þrífa spjaldið og kverkina með isoprópanóli (ísvara) og tannbursta.

Auðveldari gangsetning díeselvélar

Ýmsar ástæður geta gert gangsetningu kaldrar díeselvélar erfiða: Rafgeymir nær ekki að snúa vélinni nógu hratt, forhitun getur verið biluð eða óvirk að hluta, spíssar lélegir, þjöppun ófullnægjandi og fleira. Stundum má auðvelda gangsetningu, þar til viðgerð hefur farið fram, með því að forhita oftar, til dæmis þrisvar í röð, áður en startað er.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)