Ert þú þyrluforeldri?

Of mikil yfirráð foreldra geta leitt til hegðunarvandamála hjá börnum
Of mikil yfirráð foreldra geta leitt til hegðunarvandamála hjá börnum Ljósmynd/Thinkstockphotos

Of mikil yfirráð foreldra geta leitt til hegðunarvandamála hjá börnum því þau börn sem eiga afskiptasama foreldra, svokallaða „þyrluforeldra“, eiga erfiðara með að stjórna tilfinningum sínum og hvötum eftir því sem þau eldast. Sem leiðir enn frekar til vandræða í skóla, samkvæmt nýlegum rannsóknum.

Rannsakendur tóku fyrir mæður ungbarna, sem stýra og stjórna hvernig barnið á að leika sér, og fylgdust síðan með hegðun barnsins næstu átta ár. Niðurstöður gáfu til kynna að tengja má stjórnsama foreldra við ýmiss konar vandamál hjá barninu síðar á lífsleiðinni.

Foreldrarnir meina vel

„Foreldrar sem stjórna um of lífi barna sinna meina oftast vel og vilja styðja barnið sitt,“ sagði Nicole Perry, prófessor við Minnesota Twin Cities háskóla, annar höfundur rannsóknarinnar.

„Hins vegar, til að örva tilfinningagreind og hegðunarviðmið barna sinna, ættu foreldrar að leyfa börnunum að upplifa alls kyns tilfinningar, góðar og slæmar, og veita þeim tækifæri til að takast á við þær upp á eigin spýtur. Beri tilfinningarnar börnin ofurliði mega foreldrar grípa inn í, leiðbeina barninu og hjálpa.“

Við athugun á ákveðnum þáttum; aldri barnsins, hegðunarmynstri sem smábarn og félagshagfræðilegri stöðu, mátti sjá beina tengingu milli afskiptasamrar móður og hæfileika barna þeirra til að stjórna tilfinningum sínum. Börnin, sem voru um fimm ára aldur, áttu erfitt með að takast á við þær og höfðu minna vald yfir eigin hvötum.

Ennfremur virtust fimm ára börn sem réðu illa við tilfinningar einnig hafa verri félagslega hæfni þegar þau urðu tíu ára. Slíkar aðstæður sýndu ákveðin tengsl við slæma frammistöðu í skóla. En börnin áttu við ýmsar tilfinningaflækjur að stríða og höfðu lítinn sem engan áhuga á skólaferli sínum.

Þó ber að taka fram að rannsóknin skoðaði hegðun mæðra á aðeins einum tímapunkti, og tók ekki tillit til breytinga í uppeldisaðferðum eða líkamlegrar heilsu barnsins.

Mikilvægt að öðlast færni til sjálfstjórnar

„Vandamálið er að ef einstaklingur öðlast ekki færni til sjálfstjórnar, hvernig á hann að fara að því þegar hann svo fer í skóla eða háskóla? Það má jafnvel líta á þetta sem einhvers konar misnotkun - að ræna barni tækifærinu til að öðlast sjálfstjórn,“ sagði Dieter Wolke, prófessor í þroskasálfræði við Warwick-háskóla. Hann tók þó jafnframt fram að þeim foreldrum sem stjórna börnum sínum um of gengur oftast gott eitt til.

En prófessor Janet Goodall frá Bath-háskóla hvatti til varúðarráðstafana, þar sem hún benti á að erfitt er að meta hversu mikil stjórnsemi af foreldranna hendi sé of mikil. Þar að auki telur hún að þar séu margir þættir sem spila inn í.

Hún bætti við að foreldrar ættu ekki að vera sakbitnir eða skammast sín: „Það sem mestu máli skiptir er að foreldrum er annt um börnin sín, og það sem börnin þeirra gera og það sem þau læra.“

mbl.is