Fjölskyldan saman á Menningarnótt

Menningarnótt hefst á morgun og í boði er mikið úrval viðburða eins og undanfarin ár. Fjölskyldan á mbl.is hafði samband við skipuleggjendur hátíðarinnar og bað þau að benda á nokkra viðburði sem eru sérlega spennandi fyrir fjölskyldufólk með börn. Að sjálfsögðu hafa börn oft og tíðum líka gaman af menningarviðburðum sem ekki eru sérsniðnir fyrir þau og því óþarfi fyrir fullorðna að sleppa þeim – heldur einmitt kynna breiddina fyrir börnum. En þó er ágætt að hafa nokkra fasta punkta í dagskránni inn á milli sem höfða sérstaklega til barna.

Sérstaklega er bent á að muna eftir strætó til að komast í og úr miðbænum en allar upplýsingar um samgöngur, götulokanir og fleira má finna á menningarnott.is/upplysingar.

Foreldrum unglinga sem eiga yngri systkini er ráðlagt að gefa þeim lausan tauminn og leyfa þeim að sjá það sem þau vilja með vinahópnum en vera í góðu sambandi við þau og vera samferða heim.

Fiskur og fólk á Grandanum
Sjóminjasafnið í Reykjavík opnaði nýverið hina nýja sýningu Fiskur & fólk: sjósókn í 150 ár, sem fjallar um sögu fiskveiða á Íslandi, frá því árabátarnir viku fyrir stórskipaútgerð á síðustu áratugum 19. aldar og allt fram yfir aldamótin 2000. Á neðri hæð safnsins er að finna sýninguna Melckmeyt 1659 sem fjallar um neðansjávarfornleifarannsókn á hollenska kaupskipinu Melckmeyt sem strandaði og sökk á Breiðafirði og liggur þar enn neðansjávar. Ókeypis aðgangur bæði á safnið og í varðskipið Óðin og allir velkomnir.

Eldsmíði og búningamyndataka á Landnámssýningunni Aðalstræti
Á Landnámssýningunni er að finna skemmtilegt búningahorn þar sem hægt verður að klæða sig upp eins og víkingur, bera vopn og skildi og smella af mynd við flottan bakgrunn. Einnig verður hægt að tefla og leysa þrautir og smakka á harðfiski með smjöri (á meðan birgðir endast). Við inngang safnsins verða staddir eldsmiðir kl. 15-22 sem láta hamarshöggin dynja þegar þeir móta járn eftir gömlum aðferðum. Kl. 17-20 verður Rúnar Ástvaldsson á sýningunni og tálgar út afar fallega fugla úr íslensku birki og verður hægt að kaupa fuglana af Rúnari þennan dag.

Precious Plastic Reykjavík á Grandanum
Precious Plastic Reykjavík mun standa fyrir opinni plastendurvinnsluvinnustofu fyrir börn og fullorðna. Áhugasömum stendur til boða að endurvinna plast í nýja nytjahluti. Unnið verður með plastpoka og annað tilfallandi plast og stefnt að framleiðslu pennaveskja og blómavasa með nokkrum einföldum skrefum.

Sykursæt stemning á Menningarnótt.
Sykursæt stemning á Menningarnótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Málmbræðsla á Hlemmi
Gestum og gangandi verður boðið að sjá með berum augum hvernig málmbræðsla hegðar sér og hvaða möguleikar eru í boði til að steypa upp. Fyrst og fremst verður unnið með og líklegt að forvitnir fingur fái að taka þátt.

Geimskipið jörð í Hljómskálagarðinum
Innsetningin Geimskipið jörð er verk þriggja ungra listakvenna sem mynda hópinn ENDUR HUGSA. Þar verður hægt að skoða alheiminn út frá þremur ólíkum sjónarhornum í þremur mismunandi hvelfingum. Hvelfingarnar munu hýsa gagnvirka stafræna stjörnuskoðun, fróðleg listaverk um ský og birtingarmynd geislavirkni í þokuhylki (e. cloud chamber). Listamenn ENDUR HUGSA velta upp stórum og smáum spurningum um framtíð manns og umhverfis með list sinni.

Ratleikur fyrir börn og fullorðna í Galleríi Fold
Leikurinn felst í að finna listaverk sem sýnd eru í galleríinu. Við hvert þeirra er lítil frásögn og í henni bókstafur sem er hluti af orði sem gestir eiga að finna út. Dregið er úr réttum lausnum og heppinn þátttakandi fær listaverkabók í verðlaun.

Fjölskyldan skemmtir sér saman á menningarnótt og allir eiga að …
Fjölskyldan skemmtir sér saman á menningarnótt og allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. mbl.is/Freyja Gylfa

Manga-veisla á Menningarnótt í Grófinni
Borgarbókasafnið í Grófinni heldur upp á menningarnótt og býður borgarbúum upp á japanska Manga-veislu kl. 13-19 þar sem haldið er upp á japanska menningu. Í boði verður fullt af skemmtilegum uppákomum fyrir bæði börn og fullorðna.

Krummi krunkar í Listasafni Íslands
Menningarnótt í Listasafni Íslands. Listasafnið iðar af lífi og býður til tónleika. Barnakór Ísaksskóla syngur falleg krummalög og allir krakkar fá afhenta viðburðadagskrá Krakkaklúbbsins Krumma í Listasafni Íslands.

Æskusirkusinn  - við útitaflið í Lækjargötu
Í Imbakassanum mætast heimur sirkussins og kvikmyndanna, þar sem krakkarnir í Æskusirkusnum sýna listir sínar innblásnar af þeirra uppáhaldskvikmyndum. Frægar söguhetjur munu reyna sig við hin ótrúlegustu sirkusbrögð – getur Sherlock Holmes jugglað, eða Bleiku dömurnar húllað? Pétur Pan svífur um loftið, hafmeyjan Aríel prófar nýfengna fætur og hver veit í hvaða ævintýrum hobbitarnir lenda að þessu sinni?

Ævintýraleg bókasmiðja í Safnahúsinu, Hverfisgötu
Aðgengileg bókverkagerð fyrir alla fjölskylduna þar sem kennd verða grunnhandtökin við gerð harmóníkusprettibókar og óvenjulegs origami sem opnast eins og bókverk. Bókverkið getur til dæmis innihaldið ævintýralega minningu, ævintýralegt fjársjóðskort eða dularfullar ævintýraverur frá ímyndaðri veröld sem spretta upp þegar bókin er opnuð. Allt efni í smiðjuna er á staðnum. Æskilegt er að börn séu í fylgd fullorðinna.

Íslenskir víkingar gleðja og stundum hræða börnin á Menningarnótt.
Íslenskir víkingar gleðja og stundum hræða börnin á Menningarnótt. mbl.is/Ómar Óskarsson

Garðtónleikar fyrir börn á Skólavörðustíg
Benóný Ægisson, tónlistartrúður og píanóleikari, og Leifur Gunnarsson bassaleikari flytja frumsamin og stæld og stílfærð barnalög í garðinum á Skólavörðustíg 4C (rautt bakhús). Börn á öllum aldri hjartanlega velkomin á meðan garðrúm leyfir.

Ratleikur fyrir fjölskylduna á Klambratúni
Skemmtilegur og fræðandi ratleikur á Klambratúni með áherslu á útlistaverkin umhverfis Kjarvalsstaði. Fjölskyldur geta skemmt sér saman við að leysa gátur og þrautir sem tengjast garðinum og þeim listaverkum sem þar er að finna. Þátttakendur byrja leikinn með því að fá upphafsvísbendingu og svarblöð í afgreiðslu Kjarvalsstaða.

Lengsta landslagið, opin smiðja fyrir fjölskyldur
Opin smiðja þar sem gestum gefst tækifæri til að skapa í sameiningu eitt langt landlagsmálverk. Málað verður á langan renning þannig að landslagið frá hverjum og einum þátttakanda tekur við af þeim næsta á undan.

Fjölskyldudagskrá í Hörpu
Ókeypis er á fjölskyldutónleika Sinfoníuhljómsveitar Íslands og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Hægt er að nálgast miða frá kl. 11:00 á tónleikadegi í miðasölu Hörpu. Að auki verða mörg önnur barnvæn atriði á dagskrá innan um og saman við fjölmörg atriði í húsinu, svo sem barnaprógram sem Dúó Stemma stendur fyrir, ballerínur frá Klassíska listdansskólanum sýna atriði úr Hnotubrjótinum, Maxímús Músíkús og vinkona hans Petítla Pírúetta heilsa börnunum og fleira.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert