Fimm ráð sem bæta byrjun skólaársins

Sumarleyfum er að ljúka og eflaust margir foreldrar afar sáttir ...
Sumarleyfum er að ljúka og eflaust margir foreldrar afar sáttir við að regla sé að komast á líf barna og fjölskyldna á nýjan leik eftir sumarfríin. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Flestir grunnskólar byrja hérlendis í þessari viku. Töluvert margir foreldrar sleppa nú við að kaupa skólagögn þar sem sífellt fleiri sveitarfélög hafa slegist í hóp þeirra sem sjá um slík innkaup fyrir sín grunnskólabörn.

En svo þarf að raða saman tómstundadagskrá, sérstaklega ef barnið er í tvenns konar tómstundum og ef það eru fleiri en eitt grunnskólabarn á heimilinu, og skoða hvernig það/þau á/eiga að komast þangað og heim aftur. Þetta getur verið heilmikið púsluspil á haustin og stundum aftur í janúar ef stundataflan breytist.

Fjölskyldan tók saman fimm atriði sem geta gert lífið einfaldara í byrjun skólaárs. Stundum þarf ekki flókna hluti til að koma skikki á hluti sem geta orðið þvælst fyrir litlum og stórum.

Búðu til fjölskyldudagatal

Settu alla fasta liði fjölskyldunnar inn á dagatalið, tómstundir, hver á að skutla/sækja og hvenær. Skrifið einnig afmæli, læknisheimsóknir og annað sem ekki gerist reglulega inn á dagatalið og prentið reglulega út ný dagatöl þegar hin úreldast og yfirstrikin eru orðin of mörg. Hengið upp á stað þar sem allir sjá, til dæmis í eldhúsinu.

Rafræn dagatöl eru ágæt en Fjölskyldan mælir með gamaldags útprenti t.d. á ísskápinn, sérstaklega ef börnin eru ekki komin á unglingsaldur enn þá. Þó að þau eigi síma og hafi dagatal í símanum er oft betra að treysta á dagatal sem er öllum vel sýnilegt. 

Flestir grunnskólar á Íslandi byrja í þessari viku. Þessa breytingu ...
Flestir grunnskólar á Íslandi byrja í þessari viku. Þessa breytingu er að hægt að gera ánægjulegri en ella ef hugað er að smávægilegum undirbúningi. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Hugaðu að breyttum svefntíma barnanna ekki síðar en í dag

Ef skólinn er ekki byrjaður, en námskeið og sumarvinna að baki, er ósköp notalegt að sofa út en það þýðir að börnin fara seinna í háttinn og erfiðara er að koma þeim á fætur. Þetta er mynstur sem allir foreldrar þekkja. Setjið ungviðinu verkefni fyrir sem þau þurfa að sinna um morguninn þó svo þú þurfir sjálf/ur að fara í vinnu og fylgdu því eftir að þau fari á fætur. Ef þau eru í rútínu þegar skólinn byrjar verða ekki tóm leiðindi að koma þeim í skólann.

Ákveðið einfaldar eftir skóla reglur

Að sjálfsögðu er best að búa til allar reglur í samvinnu fjölskyldunnar þannig að börnin upplifi sig ekki undir stjórn einræðisherra.  Sem þau gera samt sennilega einhvern tíma hversu mikið sem foreldrar reyna að vera lýðræðislegir. Best er að setjast saman í rólegheitunum og ræða tímann eftir skóla, hvernig best sé að skipuleggja hann.  

Foreldrarnir geta þá útskýrt í rólegheitunum að það sé ekki hollt fyrir börn að vera of lengi í tölvum og símum, að það sé gott að klára heimalærdóminn áður börnin verða of þreytt, að það sé gott að njóta yndislesturs eftir skóla og að börn sem hafa aldur til eigi að hjálpa til með matargerð og frágang. Það er líklegt að svona reglur haldi ekki alltaf og það er í góðu lagi. En það getur samt verið gott að hafa rammann.

Skipulagðar máltíðir og nesti

Hálfnað er verk þá hafið er segir íslenskt máltæki og segja má að kvöldmáltíðin sé hafin þegar foreldrarnir vita hvað þeir ætla að hafa í matinn hverju sinni. Það getur hentað sumum fjölskyldum að gera vikuáætlun um helgar. Það hjálpar til við að skipuleggja innkaup, kemur í veg fyrir ónauðsynleg innkaup (þegar bara „eitthvað“ er keypt) auk þess sem vikuskipulag getur hjálpað börnunum að vita hvort þau geti og eigi að aðstoða í sambandi við kvöldmat.

Einnig hjálpar oft að ganga frá nesti, í þeim tilfellum þegar það á við, á kvöldin svo börnin viti nákvæmlega hvað þau eigi að taka með sér daginn eftir þegar allir eru að koma sér út.

Sem betur fer hlakkar flest börn til að byrja í ...
Sem betur fer hlakkar flest börn til að byrja í skólanum og hitta félagana á ný en þó eru undantekningar þar á. Það er mikilvægt að huga vel að börnum sem líður ekki vel í byrjun skólaársins. Ljósmynd/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Ekki líta fram hjá skólakvíða

Ekki gera ekki neitt ef barnið þitt er kvíðið fyrir skólabyrjun en mundu að lausnirnar þurfa ekki endilega að vera flóknar. Kvíði barna í byrjun skólaársins getur verið af ýmsum toga sé hann til staðar. Hann getur verið vægur vegna þess að barnið vill að ekki að sumarleyfinu sé lokið eða vegna þess að barninu þótti ekki nógu gaman í skólanum veturinn á undan. Hann getur tengst öðrum börnum, minnimáttarkennd, minni háttar stríðni, skorti á vinum og þess háttar yfir í stærri vandamál, alvarlegri kvíðaröskun og einelti sem barnið hefur upplifað eða verið gerandi í.

Ef barninu líður ekki vel þarf að meta alla þessa þætti í byrjun skólaárs og velta fyrir sér hvort minni háttar aðgerðir dugi. Svo sem eins og að ganga með barninu í skólann fyrstu dagana þótt það sé nógu stórt til að fara sjálft og veita því og vandamálum þess sérstaka athygli. Kannski duga ný falleg skólaföt eða skipulagður leiktími með skólafélaga til þess að gera allt gott hjá kvíðnu barni. Ef vandinn er alvarlegri er mikilvægt leita ráða hjá kennara og fagaðila. Slíkt er gott að gera í samráði við kennara því skólinn getur oft bent á leiðir til úrbóta. 

Stuðst var við grein á vefnum Mummypages.ie við þessi skrif. 

mbl.is