Hitti fótboltahetjuna sína eftir langvinn veikindi

Mollý litla komst í mikla geðshræringu þegar hún hitti hetjuna …
Mollý litla komst í mikla geðshræringu þegar hún hitti hetjuna sína. Ljósmynd/skjáskot

Hin tíu ára írska Molly McNally hefur upplifað meiri erfiðleika á stuttri ævi en flestir jafnaldrar hennar en hún var greind með sjaldgæft krabbamein árið 2013, aðeins fimm ára gömul. Í kjölfarið var hún í meðferðum í 27 mánuði meira og minna samfleytt á Crumlin-sjúkrahúsinu í Dublin á Írlandi.

Eitt sem einkenndi baráttu hennar við sjúkdóminn var að sama hversu veik hún var þá studdi hún liðið sitt í gelískum fótbolta „The Dubs“ (stytting á Dublin GAA) af miklum ákafa og gegnum súrt og sætt. Hetjan hennar, Bernard Brogan, var alltaf í sérstöku uppáhaldi en gelískur fótbolti er eins konar blanda af rúgbí, handbolta og fótbolta og afar vinsæll á Írlandi.

Þegar Molly litla var sem veikust hitti hún hetjuna sína árið 2014 eftir írsku Leinster-úrslitakeppnina í íþróttinni og varð þar til sérstök vinátta milli veiku stúlkunnar og fótboltahetjunnar.

Brogan var svo beðinn um taka þátt í að koma Mollý litlu á óvart í aðdraganda lokakeppni gelíska fótboltans síðastliðinn sunnudag en foreldrar hennar, þau Emma og Gerry McNally ásamt systkinum hennar, tóku þátt í skipulagningu fundar þeirra tveggja.

Eftir að Mollý hafði jafnað sig af geðshræringunni af að hitta hetjuna sína í stofunni heima (sjá myndband) fóru þau saman í O'Dwyers-íþróttafélagið þar sem vinir hennar æfa gelískan fótbolta.

Brogan sýndi krökkunum þar nokkur boltabrögð. Það sem gerði daginn sérstaklega eftirminnilegan fyrir hana var að hún var nýbúin að fagna bæði tíu ára afmæli sínu og þriggja ára sjúkdómshléi.

„Síðast þegar ég hitti Mollý var hún mjög lasin og orkulítil. Það var frábært að hafa tækifæri til að koma aftur í dag og fagna afmæli hennar og sjá að henni líður miklu betur,“ sagði Brogan við foreldra hennar.

„Ég átti ekki von á að geta sýnt Mollý og félögum hennar þessar æfingar og brögð síðast þegar ég hitti hana. En við erum vinir fyrir lífstíð og ég veit að hún verður alltaf stærsti stuðningsmaður liðsins.

 Heimild: Mummypages.ie

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert