Kostnaðarþátttöku létt af 99% grunnskólabarna

Flest sveitarfélög útvega nemendum almenn skólagögn
Flest sveitarfélög útvega nemendum almenn skólagögn mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það hafa verið stórstígar framfarir á síðustu árum,“ sagði Siv Friðleifsdóttir, formaður Velferðarvaktarinnar, um niðurstöðu nýrrar könnunar sem Maskína gerði að beiðni Velferðarvaktarinnar um kostnaðarþátttöku grunnskólanema í skólagögnum.

Könnunin sýnir að á næsta skólaári munu 99% íslenskra barna búa í sveitarfélögum sem greiða fyrir þau námsgögn á borð við ritföng og pappír.

„Það er mikilvægt að bágur efnahagur heimilis komi ekki niður á námi og lífi barnanna,“ sagði Siv í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. „Nú er búið að spara fjölskyldum þessa lands þessi ferðalög í ritfangaverslanir á haustin til þess að tína eftir innkaupalistum í körfurnar. Ég hef sjálf reynslu af slíku og man hvernig þetta var. Maður fór á haustin með barninu og var í kraðakinu í ritfangaversluninni og stóð þarna í klukkutíma biðröð eftir því að fá að greiða. Ég held að margir foreldrar hafi þessa reynslu.“