Þessu svarar þú barni sem segir: „Ég get ekki“

Ljósmynd/Thinkstockphotos

„Ég-get-þetta-ekki!“ og aðrar sambærilegar setningar hafa flestir foreldrar og aðstandendur barna heyrt þau segja. Oftar en ekki svörum við með „hvaða, hvaða, reyndu bara aftur!“ en það er hægt að byggja upp sjálfstraust barna með einföldum hætti. 

Það er eðlilegt að vera óörugg/ur, bæði sem barn og fullorðin/n, og þær hindranir sem börn upplifa eru jafn miklar fyrir þeim og þær sem virðast stærri og flóknari fyrir fullorðna.

Stundum geta það verið ofur einfaldir hlutir sem gera það að verkum að barnið trúir ekki á sig sjálft og reynir að komast hjá því að gera hlutina. Eins og flestir foreldrar vita getur þetta snúið að nánast öllu; námi, leik, heimilisstörfum, samskiptum og fleiri þáttum í lífi barna. 

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Eðlilegt fyrir börn að efast

Við viljum gjarna sýna börnunum okkar að þau geti gert það sem þeim finnst erfitt og að við trúum því að þau geti gert allt sem þau ætla sér. Innan eðlilegra marka að sjálfsögðu. Hins vegar er eðlilegt að upplifa að maður geti ekki gert eitthvað þegar til dæmis manni mistekst, jafnvel nokkrum sinnum, þegar maður segir eitthvað rangt eða einfaldlega þegar áskorunin er of erfið.

Danski rithöfundurinn Sofie Münsters, sem hefur skrifað bókina „Kærlighed er ikke nok“, (Kærleikurinn dugar ekki til), segist hafa skoðað þá þætti sem virðast leiða til mestrar hamingju barna og með hvaða hætti þau dafna best.

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Hún kemst að þeirri niðurstöðu að áskoranir af ýmsu tagi hafi gríðarlega mikið að segja um vellíðan barna og sjálfsöryggi. Börnum sem „láta vaða“, jafnvel þótt þeim takist ekki alltaf ætlunarverk sitt, líður einfaldlega betur en öðrum börnum að mati Münsters

Það er heldur ekkert slæmt að börn efist um getu sína. Það sem er verra hins vegar er þegar börnin trúa því að það sé rangt að þau efist því þá er hætt við að þau gangi burt frá þeim áskorunum sem þau standa frammi fyrir og þar með læra þau minna en þau myndu annars gera. 

Hafi börnin lært að það sé eðlilegt að efast um sig sjálf þegar þau læra eitthvað nýtt eflir það trú þeirra á að það borgi sig að reyna. Hér eru þrjú ráð sem hjálpa foreldrum að efla sjálfstraust barna. 

Þú getur þetta ekki ennþá


Þetta er mikilvægt viðhorf foreldra, kennara og annarra aðstandenda barna: Að þótt þau hafi ekki náð tökum á einhverju þá muni það gerast síðar. Kannski síðar sama dag, kannski eftir marga mánuði. En það muni gerast. „Ekki enn“ eru skýr skilaboð til barnsins um ástand sem er ekki núna, en mun koma. Það býr til eins konar brú á milli þess sem gengur ekki á einum tíma en mun gerast síðar. Þar með samþykkja foreldrar upplifun barnsins gagnvart því sem það telur sig ekki geta um leið og það heldur þeim möguleika opnum að það ástand sé ekki endanlegt. Hægt er að nota „ekki enn“ við margskonar aðstæður svo sem:

 Þú þorir ekki að fara með höfuðið í kaf ennþá, en þú getur það seinna.
 Þú þorir ekki að klappa hundinum ennþá en kannski þú þorir það seinna. Kannski bara eitt stutt klapp á bakið á morgun?

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Leggðu spurningar fyrir barnið og hjálpaðu því þannig

Það er óöryggi sem fær börnin til að efast um sig, hætta við eða upplifa að þau geti ekki eitthvað. Foreldrar eru oft of fljótir til að hjálpa þeim að gera hlutina fyrir þau.

Münster leggur til að foreldrar leggi fyrir börnin spurningar til að hjálpa börnunum að gera hlutina sjálf. Til dæmis: Segðu mér hvort þú hafir prófað að gera eitthvað áður. Ef við tökum aftur dæmi af barni sem er hrætt við hund sem það hittir reglulega og er ekki ástæða til að óttast, eða fara í kaf, mætti spyrja: „Segðu mér, hvað hefurðu gert áður? Hefurðu prófað að fara bara með munninn í kaf og ekki nefið?“ Eða: „Hefurðu prófað að klappa bara skottinu á hundinum?“ Einnig þarf að minna barn á að það þarf stundum að prófa nokkrum sinnum sama hlutinn til að ná árangri.


Minntu barnið á að það er gott þegar eitthvað er erfitt

Þetta getur hljómað sem mikil þversögn í huga barnsins sem við fyrstu sýn vill einmitt hafa hlutina einfalda og auðvelda. En með því að minna barnið á að ef það klárar verkefni sem er erfitt verður barnið enn hæfileikaríkara.

Münster segir að gott sé að minna barnið á að allt sem það kann sé einfalt ef það hefur lært það. Einfaldast er að að benda á einfaldan hlut eins og að ganga. Barninu finnst einfalt að ganga en ef það hefði ekki lært það áður, þegar það var smábarn, þá væri það mjög erfitt. Þess vegna lærir maður svo mikið af að gera eitthvað sem er pínulítið flókið.

mbl.is