Báðar óléttar og eiga á svipuðum tíma

Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Viktoría Hermannsdóttir eru báðar óléttar.
Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Viktoría Hermannsdóttir eru báðar óléttar. Ljósmynd/Íris Dögg

Samstarfskonurnar Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Viktoría Hermannsdóttir eiga báðar von á börnum. Ragnhildur Steinunn á tvíburum með eiginmanni sínum, Hauki Inga Guðnasyni og Viktoría á von á barni með Sólmundi Hólm, unnusta sínum. Þær segja að óléttan hafi haft áhrif á þáttinn Sítengd, að því leytinu til að þær ákváðu að skoða sérstaklega hvaða áhrif samfélagsmiðlar hafi á börn. Fyrsti þáttur fór í loftið í gærkvöldi. 

„Við komumst að þessu á svipuðum tíma, mjög fyndið af því ég var komin nokkrum vikum á undan Ragnhildi Steinunni en við erum samt settar á sama tíma af því hún gengur með eineggja tvíbura og má því ekki ganga fulla meðgöngu. Ég sagði Ragnhildi frá því eftir sumarfrí að ég væri ólétt og hún missti út úr sér á móti: Ég líka! Þannig að síðustu vikurnar hafa samtölin hjá okkur aðeins breyst. Það er auðvitað ótrúlega skemmtilegt að fá að vera samferða í þessu og við verðum geggjaðar með barnavagnana saman næsta sumar,“ segir Viktoría og Ragnhildur Steinunn tekur í sama streng: 

„Viktoría er búin að lofa mér að fara með í göngutúra á breiðum göngustígum þar sem tvíbreiði vagninn kemst fyrir. Ætli göngutúrarnir fari ekki í hugarflug um næstu þáttaraðir eða eitthvað álíka. Þetta verður spennandi tími,“ segir Ragnhildur Steinunn. 

Í þáttunum Sítengd koma börn við sögu. 

„Við ræðum við sálfræðinga sem lýsa yfir áhyggjum sínum hvaða áhrif samanburður og sú glansmynd sem er oft dregin upp á miðlunum hefur á ómótaða einstaklinga. Við ræðum líka fíknihegðun og hönnun þessara forrita auk þess sem við veltum fyrir okkur réttindum barna þegar kemur að sýnileika þeirra á miðlunum,“ segir Ragnhildur Steinunn.

„Við skoðum líka allar þær jákvæðu hliðar sem miðlarnir hafa. Hver byltingin á fætur annarri hefur farið fram á samfélagsmiðlum, fólk hefur haft upp á skyldmennum, fengið rödd til að tjá sig og skapað sér feril með því einu að vera klókt og skemmtilegt,“ segir Viktoría.

Í þáttunum kemur fram að Íslendingar slái öll met þegar kemur að samfélagsmiðlum.

„Það er ekki bara ungt fólk sem eyðir klukkustundum saman í símanum eða í tölvunni heldur virðist þetta vera nær allur aldur,“ segir Ragnhildur Steinunn. Konur fara hlutfallslega oftar inn á samfélagsmiðla en karlar og við eyðum líklega flest mun meiri tíma inná þessum miðlum en við gerum okkur grein fyrir,“ segir Viktoría.

Flestir samfélagsmiðlar hafa vaxið jafnt og þétt síðustu ár en Instagram og Snapchat hafa þó vaxið mest.

„Við skoðum alla þessa miðla og veltum áhrifum þeirra fyrir okkur. Markaðssetning fer í síauknum mæli fram á samfélagsmiðlum og nýjustu kannanir sýna að hún er áhrifarík,“ segir Ragnhildur Steinunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert