Að sofa vel og ekki borða drasl

Anna Steinsen, einn af eigendum Kvan.
Anna Steinsen, einn af eigendum Kvan.

Anna Steinsen einn af eigendum Kvan hefur unnið að því hörðum höndum að efla ungt fólk. Hún er gift fjögurra barna móðir sem hagar lífi sínu á ákveðinn hátt til þess að það sé sem best. 

„Við erum mikið að vinna með börn og unglinga í að leiðbeina þeim varðandi eðlileg samskipti, hvernig við tölum við aðra, komum fram og til dæmis að virða mörk. Þessir þættir geta haft mikil áhrif félagslega og geta jafnvel verið undirstaða þess að við eignumst vini,“ segir Anna og bætir við að þó ákveðnar aðstæður séu ekki neinum að kenna, þá getum við haft áhrif með framkomu okkar og hegðun,“ segir Anna. 

Anna segir að góður nætursvefn sé grunnur þess að börnum og fullorðnum líði vel.

„Félagsleg samskipti við fólk kemur strax í kjölfarið en rannsóknir hafa sýnt fram á að mikilvægi félagslegra samskipta vegur þungt þegar kemur að heilsu manna og langlífi.  Mataræði og hreyfing skipta líka gríðarlega miklu máli en ekkert af þessu verður í lagi ef svefninn er ekki í lagi. Ef þú ferð seint að sofa og borðar drasl hefur það gífurleg áhrif á heilsuna. Bara með því að laga svefninn og fara fyrr að sofa þá ertu búin/n að bæta andlega heilsu töluvert sem auðveldar svo að fara í aðrar lífsstílsbreytingar. Það hjálpar lítið að ætla að borða bara hollt ef það vantar svefn,“ segir Anna. 

Í nútímasamfélagi er hættan á að börnum sé pakkað inn í bómull og að þau þurfi ekki að takast á við lífið eins og það er.  Anna tekur undir þetta og undirstrikar að foreldrar verða að passa þetta við uppeldi barna sinna.

„Við verðum að leyfa börnunum okkar að gera mistök og láta þau leysa úr vandamálum þar sem það á við. Það er ekki barninu til góðs að við séum alltaf að fylgjast með og stökkva til þegar eitthvað bjátar á, né að við ætlum að greiða leið þeirra og gera þeim alla hluti auðvelda. Lífið skiptist í gleði og sorg og allt þar á milli og við þurfum að geta tekist á við það þegar við eldumst án þess að finnast endalok alheimsins í nánd. Við þurfum þrautseigju og að átta okkur á því að hamingjan er ekki alltaf á næsta götuhorni. Við þurfum að hafa fyrir henni og síðast en ekki síst, hafa fyrir því að viðhalda henni,“ segir hún og bætir við að foreldrar þurfi að setja mörk og reglur og hafa áhrif þar sem við á, eins og með svefn, mataræði og að vera góðar fyrirmyndir.

Anna hugsar sérstaklega vel um heilsuna og hefur gert um langa hríð. Það gerðist í kjölfar þess að dóttir hennar greindist með ristilsjúkdóm og varð að breyta lífsháttum sínum. 

„Það varð til þess að ég hellti mér úti þau fræði, fór að kynna mér þau og læra um mátt matarins. Ég prófaði mig áfram sjálf, tók út óhollustu, unna matvöru, sykur, glúten og mjólkurvörur og þegar ég var búin að hreinsa mig, prófaði ég að taka inn aftur þessar vörur og fann muninn. Mér finnst alls konar svona hreinsanir afar áhugaverðar og hef prófað ýmislegt, svo tekur maður bara reynsluna með sér úr þessu og lærir. Ég þoli til dæmis mjólkurvörur afar illa og finnst ég fá brjóstsviða þegar ég borða fitu. En það er aldrei neitt bannað því um leið og eitthvað má ekki, þá get ég ekki hætt að hugsa um það og ég held að það eigi við um ansi marga.“ 

Hún tekur inn mikið af bætiefnum eins og D-vítamín, magnesíum, omega-3, B12 og Digest Gold-meltingarensím. 

„Mér finnst ég finna mikinn mun þegar ég tek ensímin því það er eins og það sé alltaf eitthvað sem meltingin er ekki alveg að þola, ég verð útþanin og fæ óþægindi sem ég losna algerlega við þegar ég tek þau inn með matnum.“

Oft er talað um þessa sterku tenginu milli maga (meltingar) og heila en margir kannast líklegast við að fá hnút í magann sem tengist spennu eða kvíða nú eða að fá „fiðrildi í magann“ sem sumir finna þegar þeir eru ástfangnir. Anna tekur undir þetta og segir meltingarkerfið vera lykilinn að heilsunni, það sé í raun annar heili þar.

„Það skiptir máli að hafa meltinguna í góðu lagi því eins og ég hef sagt þá skiptir máli að hafa alla þætti í jafnvægi, hvort sem þeir eru líkamlegir eða andlegir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert