Fæðingin var mögnuð

Foreldrarnir Binni og Kristín með soninn Storm.
Foreldrarnir Binni og Kristín með soninn Storm.

Binni Löve varð faðir í fyrsta sinn þegar hann og kærasta hans, Kristín Pétursdóttir, eignuðust soninn Storm Löve í sumar. „Fjölskyldan stækkaði margfalt á einum degi. Stormur fæddist hinn 16. ágúst síðastliðinn klukkan rúmlega átta að kvöldi til og rétt missti því af því að eiga afmæli sama dag og pabbi hans hinn 17. ágúst,“ segir Binni. 

Meðgangan hefur mikil áhrif á konur líkamlega og andlega en fannst þú einhverjar breytingar á þér á meðgöngunni?

„Já tvímælalaust, ekki það að áhrifin hafi verið eitthvað í líkingu við breytingarnar sem áttu sér stað hjá henni Kristínu en mér tókst að bæta á mig nokkrum kílóum. Það varð eitthvað svo auðvelt að hafa ekki tíma til að elda og borða skyndibita og sófakvöldin fyrir framan sjónvarpið urðu aðeins fleiri, ætli þetta sé ekki hin fræga pabbabumba sem að allir tala um.“

Hvernig var að vera á hliðarlínunni í fæðingu?

„Það var hreint út sagt magnað, tilfinningin og andrúmsloftið er ótrúlegt. Það að horfa á manneskju sem þú elskar örmagna að gefa allt sem að hún á í að fæða barn er stórkostlegt. Styrkurinn sem ég varð vitni að er nokkuð sem ég hefði ekki getað ímyndað mér. Og líkaminn, vá hvað hann er magnaður, að þetta sé yfirhöfuð hægt er mér óskiljanlegt.“

Hvað hefur komið þér mest á óvart við föðurhlutverkið?

„Maður hafði heyrt alls konar hræðslusögur af foreldrum sem höfðu ekkert sofið svo mánuðum skipti en það tímabil er allavega ekki ennþá komið hjá okkur, sérstaklega ekki mér, Kristín sefur greinilega lausar en ég og vaknar oftast með honum Stormi þegar hann þarf að drekka eða rumskar, ég þyrfti að vera duglegri að taka boltann. En það kemur mest á óvart kannski hversu vel gengur hjá okkur og við erum ótrúlega heppin með strákinn okkar, hann alveg bræðir mann á hverjum einasta degi. Maður er fullur af stolti alla daga yfir öllum hreyfingum og hljóðum sem hann gerir.“

Þú átt strák, er eitthvað sem þér finnst mikilvægt að kenna stráknum þínum sem faðir?

„Ég held að það mikilvægasta sem ég gæti nokkurn tímann kennt barninu mínu, sama hvort það er strákur eða stelpa, sé að bera virðingu fyrir fólki, sama úr hvaða átt eða aðstæðum það kemur. Það að bera virðingu fyrir skoðunum, sjónarmiðum og tilfinningum annarra er það mikilvægasta. Þeim strák eða stelpu sem tileinkar sér slíkt viðhorf eru allir vegir færir.“

Feðgarnir Binni og Stormur.
Feðgarnir Binni og Stormur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert