Misstu fóstur og fóru í tæknifrjóvgun

Michelle og Barack Obama áttu erfitt með að eignast börn.
Michelle og Barack Obama áttu erfitt með að eignast börn. AFP

Fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, Michelle Obama, opnaði sig í nýju viðtali við Good Morning America, um ófrjósemi sem hún og Barrack Obama glímdu við. Michelle fjallar meðal annars um hvernig dætur þeirra tvær, Sasha og Malia, urðu til í nýrri bók sinni. 

Obama-hjónin áttu erfitt með að geta barn. Michelle varð þó ólétt en nokkrum vikum seinna missti hún fóstrið. Sagði Michelle að henni hafi liðið eins og hún væri ein og týnd. 

„Mér leið eins og ég væri misheppnuð af því ég vissi ekki hversu algeng fósturlát voru af því við tölum ekki um þau,“ sagði Michelle sem segir mikilvægt að opna umræðuna um fósturlát. „Við sitjum í sorg okkar, hugsandi að við séum á einhvern hátt gallaðar.“

Dætur þeirra urðu til eftir tæknifrjóvgun en Michelle var 34 ára þegar eldri dóttir þeirra kom í heiminn og 37 ára þegar sú yngri fæddist. 

Barack Obama með dætrum sínum Söshu og Maliu.
Barack Obama með dætrum sínum Söshu og Maliu. AFP
mbl.is