„Bara leiðinlegu fólki leiðist“

mbl.is/Thinkstock

Guðrún Ásta Tryggvadóttir er mamma, kennari og áhugasöngdíva að eigin sögn. Hún kann mörg góð ráð fyrir fjölskylduna að eiga góðan tíma saman á veturna. Henni leiðist aldrei og mælir með að aðstoða aðra ef mann vantar vekefni á veturna. 

„Ég elska fólk og heillast auðveldlega af því, hvort sem það er fólkið sem deilir með mér heimili, fjölskyldan mín, traustir vinir, nemendur mínir eða áhugaverðar persónur í bókum og bíómyndum.“

Hvers nýtur þú á veturna?

„Ég er nýflutt til Seyðisfjarðar þar sem vetrarríkið getur verið ansi tilkomumikið. Ég er að búa mig undir það andlega og veraldlega að takast á við komandi vetur. Ég keypti mér til dæmis hnausþykka, skærbleika heimaprjónaða ullarpeysu á markaði á Haustroða hérna á Seyðisfirði um sl. helgi og er að skoða kuldaskókaup. En ég er líka í leshópi með skemmtilegum vinkonum hér í fiðinum fagra og við lesum áhugaverðar og fjölbreyttar bækur og gerum þær svo upp í huggulegum samsætum. Ég syng í kór og er að læra söng hjá Rusu Pertriashvili og Kristjönu Stefánsdóttur sem kemur sem gestakennari hingað austur. Seyðfirðingar eru ekkert fyrir að láta sér leiðast og mér virðist alltaf eitthvað vera um að vera hérna – maður er manns gaman, sagði einhver og fólk er duglegt að koma saman og gera sér glaðan dag. Það þarf ekki að vera flókið og stundum er bara gaman að hóa fólki saman í göngu og enda á kaffi og kexi heima hjá einhverjum eða taka í spil.“

Hvað er það fallegasta við árstíðina?

„Bærinn minn er fagur á öllum árstímum en í snjó er hann bara eins og hinn eini sanni jólabær. Ég kann vel við friðsældina sem fylgir snjónum en það er líka notalegt að hjúfra sig saman fjölskyldan í sófanum og horfa á skemmtilegt barnaefni á meðan rigningin og rokið lemja húsveggina.“

Að líða þokkafullt niður brekkurnar

Ertu dugleg að æfa úti í kulda?

„Ég get eigilega ekki sagt það, ég stunda enga skipulagða líkamsrækt en ég er móðir tveggja barna, tveggja og fjögurra ára. Við erum því mikið úti að leika um helgar, ég á ekki bíl svo við löbbum mikið. Það er svo stórkostlegt skíðasvæði hérna að ég eiginlega verð að læra að standa á skíðum og líða þokkafullt niður brekkurnar. Kannski stekk ég bara á gönguskíðaæðisölduna sem gengur nú yfir landann.“

Hvernig eyðirðu köldum vetrarkvöldum með fjölskyldunni?

„Kertaljós eða fallegt lampaljós búa til huggulega stemningu. Við höfum gaman af því að mála, perla og lita. Svo eru bara gömlu góðu hlutverkaleikirnir svo skemmtilegir, ég er svolítið oft gömul farlama kona í slíkum leikjum og börnin eru læknar og hjúkrunarfræðingar.

Við fórum í æðislega stjörnuskoðunarferð í fyrrakvöld, dóttir mín söng frumsamin lög um stjörnurnar og valdi eina stjörnu á himninum fyrir hvern einasta vin og ættingja okkar.“

mbl.is/Thinkstock

Föndur og annað dundur

Áttu gott ráð fyrir aðra foreldra að gera með börnunum þegar veðrið er vont?

„Föndur og dundur, lesa bækur saman. Baka eitthvað gott. Búa til tjald eða hús úr stólum og teppum. Fara í „pikknikk“ fram í forstofu. Það er líka gaman að fara í feluleik í myrkri og jafnvel með vasaljós. Svo er auðvitað gaman að dúða sig bara og bjóða veðrinu birginn. Bókasöfn eru líka skemmtileg og hægt að kíkja á þau til að breyta um umhverfi.“

Borðar þú öðruvísi mat á veturna en sumrin?

„Kuldinn hefur vissulega áhrif á matarlystina og mig langar miklu meira í súpur og ég drekk endalaust af tei á veturna en mun síður á sumrin. Svo verður rjómi og rjómaostur miklu fyrirferðarmeiri á matseðlinum. Við erum mjög dugleg að baka lummur og þá sérstaklega á veturna og það er dásamlegt að hafa rjómaslettu með.“

Áttu uppskrift að einhverju góðu?

„Ég er með svo mikinn mótþróa þegar kemur að uppskriftum að ég fylgi þeim aldrei. En ég hef gaman af að skoða þær og nota sem innblástur. Lummurnar mínar eru sykurlausar en við notum yfirleitt gott hunang á þær.“

Bara leiðinlegu fólki leiðist

Áttu góða minningu af þér að vetri til í æsku?

„Já, ég var einmitt að rifja það upp um daginn með systur minni að einhvern tíma ca '84 eða '85 fékk ég að vera með eldri systrum mínum og nágrannakonu okkar að búa til snjóhús. Það var gríðarstórt í minni minningu og við gátum allar fjórar setið þar með kertaljós þegar byggingin var tilbúin. Svo fengum við að fara með kakó og smákökur út í húsið líka, það var huggulegt.“

Guðrún segir að mamma sín hafi einhvern tímann sagt að bara leiðinlegt fólk gæti látið sér leiðast.

„Ég hlýt að vera ágætlega skemmtileg því mér leiðist aldrei, maður getur alltaf fundið sér eitthvað til dundurs og ef ekki þá á maður að fara að hjálpa einhverjum. Það er alltaf einhver sem getur þegið félagsskap eða aðstoð við uppvaskið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert