13 ára og með mikla stæla

13 ára gömul íslensk stúlka er ekki alveg í essinu …
13 ára gömul íslensk stúlka er ekki alveg í essinu sínu þessa dagana. mbl.is/Thinkstock

Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur er menntuð í uppeldisfræðum. Hún stundaði nám í sálgæslu og áfallafræði hjá mörgum kunnum erlendum áfallasérfræðingum. Hún er nú í námi í Búddískri sálfræði með áherslu á núvitund. Ragnhildur hefur unnið  með bæði börnum og fullorðnum einstaklingum, fjölskyldum og hópum í tengslum við fjölskylduvinnu, meðvirkni, áföll, kvíða, mótþróa og fleira. Hún svarar spurningum lesenda mbl.is. 

Sæl Ragnhildur Birna

Ég er með spurningu varðandi dóttur mína sem verður 13 ára í byrjun næsta árs. Hún á sjö ára bróður og þeim hefur alltaf komið mjög vel saman. Undanfarið hefur hún breyst mikið í skapi og er farin að vera nokkuð þung í skapinu og stundum með mikla stæla við okkur foreldrana og bróður sinn. Ég geri mér vel grein fyrir þvi að gelgjan er að kikka inn en ég finn að ég verð alveg rosalega pirruð þegar þetta gerist. Henni finnst við setja ósanngjarnar reglur og talar um að okkur þyki ekki eins vænt um hana og bróður hennar sem er auðvitað alls ekki rétt.  Ég er búin að prófa allt, vera ströng, vera reið, ræða málin og allt. En hún valtur stundum algerlega yfir okkur foreldrana, rúllar augunum og þakkar ekki einu sinni fyrir þegar við gerum eitthvað fyrir hana. Það sem gerist oftar og oftar er  að við bregðumst við með reiði. Enda er frekjan stundum yfirgengileg. Er eitthvað sem ég hef ekki gert sem þú sérð í fljótu bragði ?

Kveðja, ein ráðalaus.

Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur.
Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur.

Sæl, Ein ráðalaus.

Takk fyrir póstinn þinn. Ég skal reyna að svara þér eins vel og ég get. Í fyrsta lagi ganga allir í gegnum tímabil þroska og breytinga á þessum aldri eins og við öll þekkjum. Þetta er nauðsynlegt breytingaskeið fyrir okkur sem mannkyn í raun og veru. Unglingar þurfa mjög góða „leiðbeinendur“ og ekkert auðvelt að gera það á réttan hátt. Það verða breytingar á því hvernig heilinn starfar og hefur það áhrif á hegðun og samskipti. Þetta tímabil getur verið frá 12 ára og upp í 24 ára aldur.

Unglingar byrja að ýta foreldrum aðeins frá sér, heilinn er hreinlega hannaður til að gera það. Þetta er að sjálfsögu til að undirbúa sjálfstætt líf. Heilinn er í raun að endurgera sig á margan hátt og tilfinningarnar taka mjög oft völdin. Það er mjög mikilvægt fyrir foreldrana að átta sig á því að það hjálpar ekki að taka hlutunum of persónulega þegar unglingurinn til dæmis rúllar augunum. Það getur verið upphafið á ónauðsynlegu stríði.

Unglingum leiðist oft auðveldlega og miklu fyrr í aðstæðum sem þeim leið áður vel í og tengist það breyttri boðefnaframleiðslu efnis sem veitir vellíðan (dópamíns). Það er líka afar líklegt að dóttir þín heyri oft hlutlausa setningu sem gagnrýni og bregðist við í samræmi við þá túlkun. Það er mjög eðlilegt á þessum aldri og er ekkert persónulegt. Þarna geturðu minnt þig á að bregðast ekki við, heldur að gefa hlutunum örltið rými.

Það sem ég myndi ráðleggja þér kæra ráðalaus er að sleppa örlítið tökunum og fara ekki í valdabaráttu ef þú mögulega kemst hjá því. Dóttir þín þarfnast þin ekki síður núna en áður, en á annan hátt. Hún þarfnast þess að þú sjáir kosti hennar þrátt fyrir að hún sýni þér jafnvel sínar verstu hliðar. Allt er þetta eðlilegt. Sumir halda því fram að það taki um 90 sekúndur fyrir tilfinningu að koma og fara ef þú gefur henni ekki athygli.  Andaðu djúpt eða teldu í huganum  þegar dóttir þin fer úr jafnvægi. Rými er kannski lykilorðið hér, gefðu hlutunum örlítið rými áður en þú bregst við þeim, ræðið málin þegar vel gengur og alls ekki þegar tilfinningar hennar eru í ójafnvægi. Það eru ekki miklar líkur á að hún heyri hvað þú segir í raun og veru því eins og ég nefndi hér áður, hún túlkar mögulega hlutlausa ábendingu sem gagnrýni i slíku ástandi.

Ég mæli með reglulegum fjölskyldufundum þar sem þið hafið öll tækifæri til að koma skoðunum ykkar á framfæri um hvernig þið viljað hafa heimilislífið. Slíkir fundir koma oft i veg fyrir óþarfa valdabaráttu  og baráttu um hver hefur mest rétt fyrir sér. Hlustið á hvert annað án gagnrýni, það er dýrmæt leiðsögn fyrir barn sem er að fara inn á unglingsár og þráir að fá rödd. Hægt er að hafa létta stemningu og hefja að sjálfsögðu fundinn á hrósi og að einblína á það sem vel er gert.

Dregið saman skaltu íhuga þessi atriði:

Gefðu hlutunum rými, bíddu í 90 sekúndur.

Andaðu djúpt eða teldu í huganum þegar þú finnur að þin reiði er að vaxa.

Ræðið málin þegar vel gengur, ekki þegar tilfinningar eru ekki í jafnvægi.

Ekki missa sjónar á kostunum – minntu þig á kosti hennar.

Haldið fjölskyldufundi.

Samskipti snúast ekki alltaf um að þurfa að hafa rétt fyrir sér.

Vonandi nýtist þetta á einhvern hátt.

Kær kveðja,

Ragnhildur Birna. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ragnhildi Birnu póst HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert