Elva og Aron eignuðust þrjú börn á þremur

Elva Katrín æfði fram á síðasta dag Crossfit þegar hún ...
Elva Katrín æfði fram á síðasta dag Crossfit þegar hún var ófrísk af tvíburunum þerira Arons. Ljósmynd/skjáskot Instagram

Elva Katrín Bergþórsdóttir og Aron Pálsson eiga þrjú börn undir þriggja ára aldri. Hún æfði Crossfit fram á síðasta dag ófrísk af tvíburunum sem þau eignuðust fyrir þremur mánuðum.  Þau segja gott skipulag og jákvæðni lykilinn þegar kemur að því að eiga tvíbura. Þau gera hlutina saman og eru samstíga sem gerir áhugavert að fylgja þeim eftir.  

Eldri dóttir þeirra heitir Alexía Sól og verður þriggja ára þann 21. desember næstkomandi. Tvíburarnir heita Berglind Dóra og Sunneva Sif og eru þriggja mánaða um þessar mundir.

View this post on Instagram

Æðislegur skírnardagur í gær með fjölskyldunni ❤️ Erum svo heppin með stelpurnar okkar Alexíu Sól, Berglindi Dóru og Sunnevu Sif 💕 . . . #sisters #sistersquad #twins #twinsisters #twinbabies #3under3 #identicaltwins

A post shared by ELVA KATRÍN (@elvakatrinb) on Oct 19, 2018 at 10:05am PDT

Elva Katrín sem er viðskiptafræðingur að mennt og Aron sem er hótelstjóri ákváðu þegar þau komu fyrst út úr sónar, með þær upplýsingar í höndunum að þau ættu von á tvíburum, að þau skyldu sjá jákvæðu hliðarnar við þessa stóru gjöf. „Þó ég gangi með börnin og fæði þau þá erum við jafn miklir foreldrar við Aron. Við erum samstíga og hann tekur þátt í öllu eins og ég. Aron kom með þá hugmynd í byrjun að við skyldum ákveða að hafa þetta gaman. Að við skyldum hugsa þetta frá byrjun sem tvöfalda ánægju.“

Minnkaði ákefðina í æfingunum

Elva Katrín vakti athygli á meðgöngunni sinni fyrir að æfa fram á síðasta dag. Hún æfir Crossfit og hugsar vel um sig.

„Ég minnkaði ákefðina í æfingum á óléttunni, en það hjálpaði mér rosalega mikið bæði andlega og líkamlega að æfa alla meðgönguna. Auðvitað upplifir maður alltaf einhverja fordóma þessu tengt en það var meira hjá ófaglærðu fólki. Alla meðgönguna var ég í sónar á tveggja vikna fresti vegna þess að stúlkurnar mínar eru eineggja tvíburar og voru í sama fósturbelgnum. Ég fékk allan tíman góðan stuðning við það sem ég var að gera frá læknum og hjúkrunarfólki sem ég hitti vikulega á víxl.“

Hvað gerir það fyrir þig að æfa?

„Í dag fer ég daglega í ræktina í klukkustund á morgnana og það hjálpar mér að halda rútínunni minni gangandi og hjálpar til við að halda geðheilsunni í lagi. Við Aron erum bæði mjög skipulögð og þegar ég var að vinna á meðgöngunni, þá fór ég í ræktina klukkan sex á morgnana. Síðan tók ég sumarfríið mitt áður en tvíburarnir fæddust og þá fór ég í ræktina klukkan 8:30 á morgnana þegar ég fór með Alexíu á leikskólann.

Hvernig lýsir þú því að vera tvíburamamma?

„Þetta er mikil vinna og tvöföld gleði. Þó tvíburarnir séu ennþá svona litlir þá er svo magnað að fá að kynnast persónuleika þeirra sem eru mjög ólíkir. Þetta er merkilegt þar sem þær eru eineiggja og úr sama fósturbelgnum. Sunneva Sif er með miklu meiri skapgerð en Berglind Dóra. Hún vill láta hlutina gerast strax. Hún var aðeins minni í maganum á mér og virðist hafa þurft að hafa aðeins meira fyrir hlutunum en systir sín.“

View this post on Instagram

Tveggja mánaða 💕 ..Berglind Dóra & Sunneva Sif.. Stærðarmunurinn fer sífellt minnkandi sem gerir það að verkum að það fer að verða auðveldara að ruglast á þeim 🙈😅 . . . #sisters #sistersquad #twins #twinsisters #twinbabies #3under3 #identicaltwins #twomonthsold

A post shared by ELVA KATRÍN (@elvakatrinb) on Oct 31, 2018 at 12:51pm PDT

Hvernig líður stóru systurinni með fjölgunina í fjölskyldunni?

„Við ákváðum frá upphafi að passa mjög vel upp á Alexíu Sól. Við höfum alltaf haft mjög góðan ramma utan um  hana svo hlutirnir hafa gengið vonum framan. Það sem við pössum upp á númer eitt, tvö og þrjú er að hafa hlutina í föstum skorðum. Hún fer að sofa sjálf á kvöldin á ákveðnum tíma. Við pössum upp á að vera bæði til staðar á þeim tímum sem hún er vön að fá athygli frá okkur. Áður en hún fer á leikskólann og þegar hún kemur heim.“

Leituðu ráða hjá fólkinu í kringum sig

Hvaðan kom hugmyndin að þessu skipulagi hjá ykkur?

„Við spjölluðum við fólkið í kringum okkur og leituðum ráða hjá okkar nánustu. Sem dæmi færðum við Alexíu í herbergi upp á annarri hæð nokkrum mánuðum áður en tvíburarnir fæddust, svo henni myndi ekki líða eins og hún væri að færa sig fyrir þær. Ef hún biður um að fá að halda á tvíburunum þegar hún kemur heim úr skólanum, þá fær hún það. Vanalega tekur það nokkrar sekúndur áður en hún er farin að leika sér  og þá eru allir glaðir. Við reynum að segja ekki alltaf nei við hana, heldur hafa hlutina jákvæða og skemmtilega í kringum okkur.“

Fyrri fæðingin var náttúruleg fæðing en tvíburarnir voru hins vegar teknir með keisara. „Báðar fæðingarnar áttu sína kosti og galla. Ég er byrjuð að æfa aftur og finnst ekki mikill munur á því að byrja að æfa eftir keisara eða eftir fæðinguna. Í bæði skiptin var ég saumuð. Ég upplifði meira álag á grindarbotninn í náttúrulegu fæðingunni síðan upplifði ég meira tog frá keisaraskurðinum. Svo ætli ég leggi ekki bara þetta tvennt að jöfnu í mínu tilviki.“

Gera hlutina saman

Hvernig farið þið að því að gera þetta svona auðvelt?

„Þetta er mikil vinna, en hún lendir ekki á neinum einum hjá okkur. Við Aron erum í þessu saman og höfum alltaf gert það þannig. Hann tók barneignaleyfi á sama tíma og ég og við erum ennþá saman heima. Við vöknum saman á næturnar og styðjumst við frábæra bók tengt svefn barnanna sem við mælum með fyrir alla. Bókin Draumalandið eftir Örnu Skúladóttur er meistaraverk sem við heyrðum fyrst af frá bróður mínum og mágkonu.

Eins er ég meðlimur í tvíburamömmuhóp á Facebook þar sem ég læri mjög margt.

Sem dæmi ef annar tvíburinn vaknar á nóttunni, þá vekjum við hina og gefum þeim báðum að drekka. Þær sofna, nærast og vakna á sama tíma hjá okkur. Nú erum við byrjuð að æfa þær í að vakna ekki á næturnar og styðjumst við bókina góðu til þess. Alexía er einnig með gott svefnskipulag. Við látum tvíburana ekki sofna við mjólkurgjöfina, heldur læra þær að sofna sjálfar.“

Elva Katrín segir þau Aron bæði frekar kassalaga eins og hún lýsir sjálf. Þau komi bæði úr þannig umhverfi og þannig vilji þau hafa hlutina. „Ég held að það hvað við erum samstíga sé ástæðan fyrir að okkur gangi svona vel. Eins erum við dugleg að rækta okkur sjálf. Ég tek mér minn tíma og hann sinn yfir daginn að fara í ræktina. Þannig mætumst við svo saman með eitthvað aukalega að gefa börnunum.“

Pabbarnir skipta jafn miklu máli

Er eitthvað sem mætti breyta í samfélaginu að ykkar mati þegar kemur að barneignum?

„Það er eitt sem kemur upp í hugann. Eins og ég nefndi áður þá eigum við bæði börnin, þó ég gangi með þau og fæði þau. Árið er 2018 og pabbarnir eru að skipta jafn miklu máli og við mömmurnar í dag. Af því við gerum allt saman og erum svona samstíga þá hefur mér fundist hann jafn mikilvægur og ég í þessu ferli. Hins vegar í öllum viðtölum sem við höfum farið í er meira verið að spyrja út í álagið á mér. Mér finnst að það ætti að gera meira ráð fyrir því að foreldrar séu að vinna hlutina saman í dag. Síðan mæli ég bara með því fyrir alla sem eiga von á tvíburum að skipuleggja sig vel og gera ráð fyrir tvöfaldri gleði í lífinu.”

View this post on Instagram

❄️❄️❄️

A post shared by ELVA KATRÍN (@elvakatrinb) on Nov 13, 2017 at 10:13am PST


 

mbl.is