Er unglingurinn minn í neyslu?

Hvernig getur íslensk móðir vitað hvort dóttir hennar sé að …
Hvernig getur íslensk móðir vitað hvort dóttir hennar sé að nota efni eða ekki? mbl.is/Thinkstockphotos

Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur svarar spurningum lesenda mbl.is. Hér fær hún spurningu frá móður sem óttast að dóttir hennar, sem er unglingur, sé mögulega í neyslu. 

Sæl Ragnhildur. 

Dóttir mín sem er unglingur er komin með kærasta sem ég hef grun um að sé í einhvers konar neyslu. Ég held að hún sé ekki að nota neitt en ég er þó ekki 100% viss. Getur þú lýst fyrir mér einkennum sem einkenna unglinga sem eru að reykja eða að nota önnur efni?

Kveðja, áhyggjufulla móðirin

Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur.
Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur.

Sæl kæra móðir og takk fyrir spurninguna.

Það er erfitt fyrir foreldri að hafa minnsta grun um að barn þess noti einhver hugbreytandi efni. Þú tekur það fram í spurningunni að þú haldir að hún sé ekki að nota neitt, en þú hefðir trúlega ekki sent inn spurninguna ef enginn grunur væri fyrir hendi eða ótti um að hún muni prófa, auðvitað get ég haft rangt fyrir mér. Í fyrsta lagi myndi ég ráðleggja þér að fara í apótek og kaupa próf til að ganga úr skugga um að þú hafir rétt fyrir þér. Ef þú ert ekki viss – athugaðu málið. Það mun trúlega koma þér á óvart að dóttir þín mun líklega vera samvinnuþýð að taka slíkt próf. Slík próf eru auðveld í notkun og framkvæmd. Það er mín reynsla að ungingar vilja slíkt aðhald.  Ef hún á kærasta í neyslu er mjög líklega þrýstingur um að hún prófi. Slíkt próf getur hjálpað henni að setja mörk. „Nei ég vil ekki prófa því ég er tekin í reglulegt test.“ Ég hvet þig til að byrja á þessu og koma í veg fyrir allan vafa hjá þér og eðli málsins samkvæmt er þetta fyrirbyggjandi.  Notaðu innsæi þitt og fylgdu því eftir. Afneitun foreldra og annarra aðstandenda er mjög algeng og getur viðhafst allt of lengi. Ef krakkar í kringum hana eru í einhverskonar neyslu er full ástæða til að prófa hana af og til.

Varðandi einkennin þá er það misjafnt eftir efnum en breytingar á hegðun eru áberandi.

  • Oft á tíðum breyttur vinahópur og breytingar á viðhorfum og útliti.
  • Minni áhugi á námi og námsárangur minnkar.
  • Minni áhugi á áhugamálum sem voru fyrir.
  • Hreinlæti oft ábótavant.
  • Þol gagnvart álagi minnkar og jafnvel ofsafengin viðbrögð af litlu tilefni.
  • Sljóleiki og minnisleysi geta gert vart við sig.

Inni á vef umboðsmanns barna eru góðar upplýsingar um einkenni og úrræði varðandi neyslu unglinga. https://www.barn.is/boern-og-unglingar/rettindi-og-radgjoef/vimuefni/

Einnig bendi ég á Marita fræðsluna til að fá nánari upplýsingar um einkenni og viðbrögð.

Gangi þér vel kæra móðir og mundu að nota innsæið.

Kær kveðja, 

Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ragnhildi Birnu spurningu HÉR.  

mbl.is